Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Ljóta leikritið!

$
0
0
Björn Þorláksson

Björn Þorláksson

Það hefur ekki verið neinn útvarpsstjóri fyrir Akureyringa síðustu ár. Eitt af flaggskipum stofnunarinnar, svæðisstöðin á Akureyri, var lögð af eftir hrun. Áður höfðu daglegar fréttir og stundum oft á dag birst í sjónvarpi að norðan. Innslög voru unnin um hitt og þetta, jafnvel heilu þættirnir. Landsfréttatímar í útvarpi voru fullir af norðlensku efni. Á Akureyri var búsettur dagskrárstjóri Rásar 2, einn umsjónarmanna Síðdegisútvarpsins á Rás 2 var búsettur hér og keyrði þáttinn í beinni héðan. Dagurinn byrjaði á Rás 2 á morgunþætti héðan að norðan. Dagskrárgerðarmenn á Rás 1 störfuðu hér í fullum stöðum og voru menningarvakar. Ónefnt er svæðisútvarpið, vettvangur frétta og forvitnilegheita úr héraði, allt vestur frá Hrútafirði austur að Vopnafirði.

Þetta var mikil útgerð en ekki varð maður var við annað en að Reykvíkingar kynnu vel að meta framleiðsluna, ekki síður en flestum Íslendingum finnst Landinn í dag forvitnilegur, gildir einu hvaðan fjallað er um fólk. Fréttamenn búsettir á Akureyri fóru um allt Norðurland á þessum árum. Stundum fór útsending svæðisútvarpsins fram utan Akureyrar. Það var mikil dýnamík á starfstöð Rúvak á þessu tímabili og metnaðarfull stefna. Stofnunin var ekki bara gleðigjafi og menningarfarvegur heldur veitti hún líka heimaríkum ráðamönnum aðhald. Skaði Norðlendinga varð því mikill þegar svæðisútvörpin voru lögð af og í raun var það skref fáheyrð móðgun við alla og allt ef tekið er tillit til þess hve mikil fagreynsla hafði safnast upp á þessu svæði. Þess má til dæmis geta að heimilisvinir eins og Gestur Einar Jónasson leikari höfðu verið höfundar vinsælustu útvarpsþátta landsins.

Einn góðan veðurdag kom svo sendinefnd að sunnan í heimsókn. Norðlensku starfsfólki var sagt upp og skrúfað fyrir svæðisútvarpið. Miklu starfi og menningarsögu var hent á haugana. Því var borið við að krafa um sparnað kallaði á slíkt andlegt og veraldlegt blóðbað fyrir Norðlendinga en fjölmiðlastörfum fækkaði mjög á Akureyri í kjölfar niðurskurðarins.

Forgangsröðun fjármuna og höfuðborgarmiðuð sýn yfirstjórnenda Ríkisútvarpsins þýddi mikið tjón ekki bara fyrir landsbyggðirnar heldur Ísland allt. Þróunin hefur smám saman færst út í það að fyrir utan einn starfsmann í erlendum fréttum sem starfar á Akureyri, sem er vel, hefur frekast legið fyrir akureyrskum starfsmönnum Rúv að búa til í innslög í Landann auk takmarkaðrar fréttavinnslu, enda fólkið fátt. En nú hefur tekið við nýr útvarpsstjóri hjá Ríkisútvarpinu. Hann er Akureyringum að góðu kunnur, fyrrum leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar. Magnús Geir Þórðarson gæti haft meiri skilning á skyldum almannaútvarps og þeim menningarlega fjölbreytileika sem því er ætlað að standa fyrir en sumir yfirmenn Ríkisútvarpsins fram til þessa. Norðlendingar bíða spenntir eftir verkum hins nýja stjóra. Norðlendingar bíða bjartsýnir og spenntir. Það er orðið tímabært að nýr útvarpsstjóri starfi fyrir Akureyri og Norðurland eins og aðrar byggðir landsins. Annað yrði ljóta leikritið!

Björn Þorláksson


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718