![Steinunn Ósk Leifsdóttir, nemi í VMA]()
Steinunn Ósk Leifsdóttir, nemi í VMA
Steinunn Ósk Leifsdóttir, nemandi í Verkmenntaskólanum á Akureyri, var ósátt við skólann sinn í gær og skrifaði opið bréf á facebook síðu sína. Bréfið birtist hér í heild sinni með góðfúslegu leyfi Steinunnar!
Ég er 17 ára framhaldsskólanemi frá Akureyri og mig langar að deila með ykkur hvernig dagurinn minn byrjaði í dag [gær], og ég vil endilega fá ykkar skoðanir á þessu. Ég mætti í lífsleiknitíma eins og venjulega á þriðjudagsmorgnum og bjóst aldrei við því sem ætlast var til af okkur. Kennarinn kom inn í kennslustofuna og sagði við okkur að stelpur ættu að fara í eina stofu og strákar í aðra. Þegar þangað var komið voru nokkrir aðrir lífsleiknihópar þar og enginn vissi hvað við værum að fara að gera. Nokkrum mínútum seinna kom það allt í ljós og ég var ekki sátt. Þar sem árshátíðin er eftir rúma viku átti að undirbúa okkur stelpurnar, og kenna okkur að mála okkur. Hvað voru strákarnir að gera á meðan? Jú auðvitað læra að binda bindishnút og vera herramenn. Fræðslur finnst mér mjög skemmtilegar en þegar stelpum og strákum er skipað hingað og þangað vegna þess hvernig samfélagið ætlast til þess að við séum, finnst mér ekki í lagi. Ætlast var til þess að við sætum þarna í 80 mínútur og horfðum á förðunarfræðing mála sig eftir sínum hefðum. Þar sem ég hef lítinn sem engan áhuga á förðun, fannst mér tilgangslaust að vera þarna, auk þess sem þetta er svakalega kynbundið og vægast sagt fáránlegt. Eftir um það bil korter labbaði ég út ásamt tveimur vinkonum, og eftir það sá ég fleiri gefast upp á þessu.
Mér persónulega finnst þetta rangt á svo marga vegu. Í fyrsta lagi, hvað eiga þeir sem eru ekki vissir um kyn sitt eða finnst þeir mitt á milli að gera? Girða niður um sig og láta kennarann ákveða? Eða fá þeir einstaklingar að ráða? Í öðru lagi, hvað með þær stelpur sem eru með nógu góða sjálfsmynd til að sætta sig við að fara út úr húsi ómálaðar? Er ekki verið að ýta undir það að þær “eigi” að mála sig? Því það er langt frá því að vera rétt. Stelpur þurfa ekkert að mála sig bara afþví samfélagið segir það. Í þriðja lagi, hvað ef stelpum langar að læra að binda bindishnúta? Ég veit um helling af stelpum sem myndu frekar velja það heldur en förðun.
Í guðanna bænum, það er komið árið 2014. Einstaklingar eiga að geta ráðið hverjir þeir eru og hvað þeir gera, því á ekki að vera þvingað uppá þá. Unglingar eiga að fá svigrúm til að vera þeir sem þeir vilja, hvort sem það er kvenlegt, karlmannslegt eða einhversstaðar þar á milli. Hingað til hef ég ekki tekið eftir miklu kynjamisrétti í skólanum mínum, en þetta fór langt yfir strikið.