Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Leikmenn ógni fótboltanum með veðmálum og siðleysi

$
0
0
Þór Akureyri

Þór Akureyri

Vísbendingar eru um að sumir leikmanna Íþróttafélagsins Þórs á Akureyri hafi í leik gegn Dalvík á dögunum veðjað á leik sem þeir sjálfir tóku þátt í 13. janúar sl. Um ræðir leik í svokölluðu Kjarnafæðismóti þar sem Þór lagði Dalvík að velli, 7-0. Til skoðunar er hvort sumir leikmanna Þórs hafi veðjað á erlendri vefsíðu á eigin sigur og lagt aukalega undir ef 3ja marka sigur eða stærri næðist. Hermt er að með því hafi þeir sem mest lögðu undir grætt 100.000 til 150.000 á úrslitunum.

Veðmál eru almennt bönnuð á Íslandi. Í gegnum erlendar vefsíður svo sem bet365.com og betsson.com hefur það færst í vöxt að áhugamenn um fótbolta sjái hagnaðarvon í því að veðja á úrslit. Pétur Heiðar Kristjánsson sem þjálfar meistaraflokk Dalvíkinga í fótbolta segir að ef leikmenn Þórs hafi veðjað á eigin leik fordæmi hann slíkt. Ekki væri þó um einangrað athæfi að ræða í íslenskum knattspyrnuheimi. Enn verra væri ef leikmenn veðjuðu gegn sjálfum sér og töpuðu leik vísvitandi til að græða pening. Breiðablik láti leikmenn skrifa undir samning þar sem þeir heiti því að veðja ekki á leiki sem tengist þeim sjálfum. Hins vegar sé erfitt að koma slíku við hjá félagi eins og Dalvík sem geri ekki samninga við leikmenn. Þótt svo væri yrði ekki allur vandi leystur, því hægt sé að veðja í gegnum nöfn annarra. Fyrst og síðast verði veðmál því siðleg spurning. Ekki verði séð að lagalega sé hægt að tryggja að menn misnoti ekki aðstöðu sína.

Pétur Heiðar segir að veðmál í fótboltanum séu orðin mjög algeng hér á landi, t.d. sjáist fjöldi áhorfenda á knattspyrnuleikjum með síma sína á lofti, oft veðjandi á úrslit. „Fótboltinn á ekki að snúast um þetta,“ segir Pétur Heiðar.

Páll Viðar Gíslason, þjálfari meistaraflokks hjá Þór, segist ekki hafa fengið staðfest að einhverjir leikmenn liðsins hafi veðjað á eigin leik en brugðist verði við orðróminum. Hann vill ítreka að svona framkoma væri ekki aðeins siðlaus heldur ólögleg.
Þjálfari Þórs segir ekki útilokað að Þór muni falast eftir svipuðum samningum við leikmenn og Breiðablik hafi gert, að leikmenn meistaraflokks skulbindi sig til að veðja ekki á það sem þeir geta haft áhrif á. Viðurlög við broti gætu numið sekt, leikbanni eða jafnvel riftun samnings eða banni.

„Mesti glæpurinn er náttúrlega ef veðmálin hafa bein áhrif á gagn leiksins og úrslit. Það má ekki gerast að fótboltinn fari að snúast um eitthvað svona rugl,“ segir Páll Viðar, þjálfari Þórs.

-BÞ


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718