Tveir íþróttamenn frá Crossfit Hamri, Birna Blöndal Sveinsdóttir og Arnþrúður Eik Helgadóttir, lögðu um síðustu helgi land undir fót og kepptu fyrir hönd Crossfit stöðvarinnar á leikunum „Battle of London” sem haldin var í hinni margfrægu Koparhöll, þeirri sem hýsti körfuboltakeppnina á Ólympíuleikunum í borginni árið 2012. Þetta var annað mótið þeirra á erlendri grundu. Þær kepptu einnig í liðakeppni á evrópumótinu árið 2013.
Þegar akv.is náði tali af Birnu Blöndal eftir mótið var hún nokkuð ánægð með árangurinn. „Markmið okkar var að komast í gegnum fyrsta niðurskurðinn. Við náðum að komast í gegnum þann niðurskurð og einnig þann næsta. Við duttum út í þriðja og síðasta niðurskurði, sem verður að teljast nokkuð gott á svo sterku móti.” Segir Birna.
„Umgjörðin um þetta mót var rosa flott, haldið í höllinni sem hýsti körfuboltann a Ólympíuleikunum 2012. Allir þarna voru i svakalegu formi, og í raun var rosalega flott að við hefðum komist inn á þetta mót með ekki meiri keppnisreynslu en þetta’’
Keppt var í 7 mismunandi greinum yfir tvo daga. Þrjár greinar háðar fyrri daginn en fjórar seinni daginn. Greinarnar, eða WOD, eins og þær kallast á Crossfit máli (Workout Of the Day), reyna á alla hluti líkamlegs atgervis s.s. styrk, þol, snerpu og úthald. Um 250 keppendur víðsvegar að kepptu á þessum leikum. Norðlensku keppendurnir stóðu sig með mikilli prýði. Þær Arnþrúður Eik og Birna bættu sig báðar nokkuð. Af 100 konum sem kepptu á leikunum lenti Arnþrúður Eik í 41. sæti og Birna í 43. sæti.
Þegar Birna var spurð um framhaldið var ekki nokkurn bilbug henni að finna: „Við stefnum klárlega á fleiri mót og á kortinu núna er undirbúningur fyrir opið mót sem hefst i lok feb, þar framkvæmum við 5 æfingar og að móti loknu komast 48 efstu konur og karlar i evrópu áfram á evrópuleikana sem eru í maí. En draumurinn er auðvitað að komast inn á sem flest mót sem einstaklingur og halda afram að bæta sig”
Ljóst má vera af þessari keppni að Crossfit er í stórsókn á Íslandi. Alþjóð veit af afrekum Annie Mistar Þórisdóttur til dæmis. Á þessum leikum í London náðu fjórar íslenskar konur í efstu 10 sætin á mótinu.