Mikið fjölmenni hefur rennt sér á skíðum í Hlíðarfjalli, enda er háönn hafin í vetrarparadísinni. Akureyri vikublað brá sér á skíði, tók myndir og ræddi við fólk í fjallinu. Flest viðtölin spegluðu að fólki finnst aðstaðan til fyrirmyndar en gera mætti þó enn betur. Sumir hafa á orði að opnunartíminn miðist við þarfir heimamanna fremur en ferðafólks. Einkum vill fólk að á góðviðrisdögum sé opið lengur í fjallinu.
Það eina sem ég set út á
„Opnunartíminn er það eina sem ég get kvartað yfir hérna. Starfsfólkið er jákvætt og fagmannlegt og úrvalið af ólíkum brekkur fyrir fólk á öllum stigum er frábært. En manni finnst stundum eins og að Akureyringar séu ekki alveg búnir að kveikja á perunni um hagsmuni þess að þjónusta þann stóra hluta ferðamanna sem hingað kemur með því að lengja opnunartímann. Ég veit að rekstrarleg rök hafa verið nefnd fyrir því en ég spyr á móti: Kæmu ekki enn fleiri í fjallið og yrði innkoman ekki enn meiri fyrir alla aðila ef á þessu yrði breyting. En þetta kemur. Það er bara spurning um tíma,“ sagði skíðamaður frá Reykjavík sem fylgdist með börnum sínum alsælum við hið svokallaða Töfrateppi.
Fjarkinn flutti fólk upp og niður án þess að biðraðir sköpuðust en sumir vilja sjá aðra stólalyftu taka við ofar í fjallinu, ofan við Fjarkann. Í skíðaleigunni var mjög mikið að gera. Hvarvetna sáust litlir hópar spjalla saman á góðri stundu. Ekki fór mikið fyrir keppnisskapinu heldur virtist þvert á móti sem jafnvel meginþorri gesta væri ekki mjög vanur skíðabrekkum. Skíðamennska er enda upplagt fjölskyldusport og börn allt niður í tveggja ára gömul renndu sér niður brekkurnar með bros á vör. „Fyrir mér horfir þetta einfaldlega þannig við að ef við hefðum ekki Hlíðarfjall og þessa góðu aðstöðu þar þá væri hreinlega engin vetraferðamennska héra,“ segir Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Akureyri Backpackers en þar er nú fullt upp í rjáfur alla helgar núna, þökk sé skíðasvæðinu. „Það er bara nóg að fara upp í fjall og hitta gestina sem sem eru að stóru leyti aðkomufólk til að sjá þetta. Skíðasvæðið er það sem heldur lífinu í bæði gististöðum og veitingastöðum hér yfir veturinn. Þetta skiptir öllu máli og þess vegna er ég því fylgjandi að menn setji aukna peninga í svæðið, því það skilar sér til baka. Þótt við bæjarbúar berum einhvern kostnað í upphafi myndi það skila sér margfalt til baka. Sundlaugin er líka mjög mikilvæg og ér sannfærður um að ný rennibraut yrði enn frekari segull.“
Geir segist ekki verða mikið var við kvartanir fræa skíðagestum vegna þess að opnunartíminn þyki og skammur þótt vel megi halda því fram að lenging hans yrði til bóta. „Mín reynsla er að flestir séu farnir úr fjallinu klukkan fjögur. En stundum lengja þeir í fjallinu opnunartímann eða opna fyrr, níu en ekki tíu. Níu til fjögur er viðurkennt viðmið um opnunartíma skíðasvæða í útlöndum. Maður verður að átta sig á því að eftir lokun fer fram svakaleg vinna til að gera svæðið klárt fyrir næsta dag.“
Síðustu helgar hafa verið fullbókaðar á Backpackers og stór hluti gestanna er fók sem kemur gagngert til að fara á skíði. „Erlendum ferðamönnum hefur náttúrlega fjölgað hérna á Akureyri sem annars staðar á landinu yfir þennan tíma, en hér erum við að tala um að fjöldinn fer úr frekar litlu í aðeins meira sem ekki skiptir sköpum. Það sem skiptir sköpum er að fjallið sé opið og góðar aðstæður þar. Við finnum strax fyrir afbókunum á föstudegi ef útlit er fyrir vont helgarveður og veitingastaðir hljóta að miklu leyti að reiða sig á þessa skíðatraffík.“
Gistináttagjald renni heim í hérað
Spurður hvers konar fólk leiti í brekkurnar segir Geir að þessar helgar sé mikið um nemendahópa en einnig fólk á eigin vegum og minni hópa aðra. „Mér finnst skíðasvæðið vanmetinn þáttur í mikilvægi þess að laða hingað að fólk , það er orðið mjög aðkallandi að byggja aðstöðuna frekar upp og fá fleiri lyftur. Öll veitingaaðstaða er líka ákaflega léleg þarna uppi, ég veit ekki hvað málið er með það. Kannski er erfitt að fá utanaðkomandi til að reka þetta af því að það detta út helgar og ákveðin óvissa fylgir svona svæðum, stuttur fyrirvari og vont að sitja upp með starfsfólk án verkefna. Það er sennilega ekki beint eftir gulli að slægjast að reka sjoppu þarna en það mætti gera betur. Svo vil ég segja um þetta blessaða gistináttagjald sem við þurfum að greiða að ég myndi vilja sjá að það rynni til nærsamfélagsins. Ég myndi vilja sjá gistináttagjald akureyrskra gististaða renna allt í Hlíðarfjall næstu fimm árin.“
Það eru ekki síst vetrarfríin sem fólk notar til skíðaiðkunar en þau hefjast senn. Þá þarf að flytja margt fólk með lyftum og á teikniborðinu, fyrir áeggjan „Vina Hlíðarfjalls“ er ný stólalyfta sem ætlunin er að taki við í Strýtu þar sem Fjarkinn endar og geti skilað skíðafólki nánast upp á fjallsbrún. „Síðasti stóri samningurinn um uppbyggingu í Vetraríþróttamiðstöð Íslands í Hlíðarfjalli sneri að snjóframleiðslutækjunum en næsta skref er svo þessi stólalyfta,“ sagði Guðmundur Karl í viðtali við Akureyri vikublað. Heyrst hefur að lyfta kosti allt að 1500 milljónit en í viðtali í fyrra nefndi Guðmundur Karl 800 milljónir króna sem efri mörk. „Það er búið að vinna mikla undirbúningsvinnu og búið að deiliskipuleggja svæðið með þetta í huga,“ segir Guðmundur sem vonast til að verkefnið komist fljótlega á framkvæmdastig. Um ræði mikillvægan þátt í uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu sem sé alls ekki einkamál þeirra sem stundi skíðaíþróttina mest. Vetrarfríin í grunnskólunum eru nú þegar orðin jafn umfangsmikil og páskafríin hvað varðar straum fólks á skíðasvæðið.
Þegar svo mikill mannfjöldi sem raun ber vitni er saman kominn til að renna sér á skíðum, þarf að huga vel að ýmsum öryggisþáttum. Ekki alls fyrir löngu fékk skíðasvæðið í Hlíðarfjalli afhent nýtt og fullkomið hjartastuðtæki að gjöf frá „Vinum Hlíðarfjalls“ en „Vinir Hlíðarfjalls“ samanstendur af hópi fyrirtækja á svæðinu sem vilja efla starfsemina í Hlíðarfjalli eftir því sem kostur er. Hjartastuðtækið kostaði um 200.000 kr. og var keypt fyrir fé frá fyrirtækjunum.
Fyrirtækin sem mynda hópinn „Vinir Hlíðarfjalls“ eru: Íslandsbanki, KEA Hótelin, Flugfélag Íslands, Norlandair, Eimskip, Sjóvá, KEA, Vífilfell, Landsbankinn, Advania, Icelandair, Greifinn, Vodafone, Securitas, N1, Samsung, Höldur og Ásprent.
Óvenju góðar aðstæður
Vanir menn hafa á orði að óvenju mikill snjó sé í fjallinu núna. Þeir sem skíða utan troðinna slóða sjá varla grjótnybbu og snjóblinda var ekkert vandamál um síðustu helgi eins og stundum hefur verið frá opnun.
-BÞ