Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Stórfjölgun rafbíla breytir engu um metanáform Norðurorku

$
0
0
Norðurorka

Norðurorka

Nýskráningum rafbíla fjölgaði um 258 prósent á síðasta ári miðað við árið 2011 á sama tíma. Sala á nýjum metanbílum dróst saman um 64 prósent á sama tímabili. Bifreiðum sem var breytt í metanbíla fækkaði úr 404 í 57 samkvæmt tölum frá Samgöngustofu.

Framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins hefur í Fréttablaðinu tengt aukna sölu á rafbílum við ákvörðun stjórnvalda um að fella niður virðisaukaskatt og vörugjöld á rafbílum. Samdráttur í sölu metanbíla skýrist m.a. af því að fáir bílaframleiðendur selji metanbíla og aðgengi að metandælum sé takmarkað.

Norðurorka, félag í eigu almennings, hefur samþykkt og skuldbundið sig til að verja hundruðum milljóna í metanframleiðslu á Akureyri en metan á að vinna úr safnhaug á Glerárdal þar sem áður var sorplosun. Akureyri vikublað sendi Norðurorku fyrirspurn í nokkrum liðum þar sem spurt var um viðbragð, upphæðir og hvort til greina kæmi að hætta fyrirætlunum í ljósi tíðindanna að ofan.

Í svörum sem bárust frá Baldri Dýrfjörð, upplýsingafulltrúa Norðurorku, kemur ekkert fram sem bendir til þess að Norðurorka hyggist láta breytingu á innflutningi bíla hafa áhrif á fyrri áform. Nokkrar tafir verða þó á að metanstöð verði opnuð á Akureyri, ekki vegna fækkunar á metandrifnum bílum heldur vegna gjaldþrots framleiðanda hreiniststöðvarinnar, Flotech AB í Svíþjóð. Ný-sjálenska móðurfélagið Greenlane í samstarfi við Norðurorku hefur samið við þrotabúið um að yfirtaka verkefnið. „Ljóst er að þetta hefur í för með sér frekari tafir á gangsetningu stöðvarinnar og enn ekki hægt að nefna dagsetningu í þeim efnum,“ segir í svörum frá Norðurorku.
Keppir einkum við jarðeldsneyti

Ósk blaðsins um viðbrögð við hruni í innflutningi metanbíla og hvort það hafi áhrif á áform svarar Norðurorka í raun ekki. Hins vegar segir að metangas sem unnið sé úr hauggasi sé eðli málsins samkvæmt takmörkuð auðlind, einkum þegar um sé að ræða sorphauga sem lagðir hafa verið af eins og á við um sorphaugana á Glerárdal. Þetta hafi í för með sér að markaðsetning á slíkri vöru verði að taka mið af samkeppnisvörunni, þ.e. díselolíu og bensíni. Með þetta í huga sé gengið út frá því að verðið þurfi að vera lægra en á samkeppnisvörunni og það dragi vagninn í markaðssetningunni. „Verður í þessum efnum að treysta á að markaðurinn leiti ákveðins jafnvægis milli framboðs og eftirspurnar auk þess sem aukinn neytendamarkaður skapi tækifæri til frekari framleiðslu á metani og þar með aukins hluts hennar í orkuframboði í samgöngum fyrst og fremst. Erlendis er ekki óalgengt að þessi verðmunurinn sé 15-20%. Hér á Íslandi er hlutur neytenda einnig tryggður með því að metanbílarnir eru allt að 20% ódýrari í innkaupum.“

Leiðarljós Norðurorku í þessu verkefni séu að nýta staðbundna auðlind við bæjardyrnar og um leið draga úr gróðurhúsaáhrifum hauggassins sem sannanlega séu veruleg. Hauggas sé um 25 sinnum skaðlegra en metangas. „Er þá einnig gengið út frá því að saman fari hagsmunir neytenda á Akureyri með mögulegri lækkun eldsneytiskostnaðar. Um leið er mikilvægt að verkefnið sé arðbært og standi undir sér til lengri tíma litið. Mat á þessum þáttum leiddi til ákvörðunar um að fara í verkefnið.“

Sorpa byggir gasgerðarstöð

Vert sé að minna á að þeir metan bílar sem bjóðist á markaðnum séu búnir til notkunar á bæði metani og bensíni eða díselolíu. Sorpa bs. hafi ákveðið að fara í byggingu gasgerðarstöðvar og gert ráð fyrir að hún muni framleiða verulegt magn úr hauggasi á urðunarstaðnum í Álfsnesi. „Þá sé hafin umræða hér á svæðinu um með hvaða hætti og í hvaða mæli framleiða mætti metan úr lífrænu efni sem fellur til á Eyjafjarðarsvæðinu.

„Þrjú stærstu olíufélögin líta öll til nýtingar á metani til að ná árangri við að auka hlut vistvæns eldsneytis til samgangna á landi, en metan unnið úr úrgangi telur tvöfalt á við jarðefnaelds-neyti í þeim efnum. Norðurorka hf. hefur samið við Olís um smásölu á metni úr væntanlegri hreinsistöð hér á Akureyri. Einnig er það von okkar að rekstraraðilar stórra bíla, flutningabíla o.s.frv. sjái sér hag í því bæði fjárhagslegan og út frá umhverfissjónarmiðum að nota metanbíla. Sama á eigi einnig við um aðila í ferðaþjónustu sem eru með stóra bílaflota, t.d. bílaleigur. Við vænum þess að þessir aðilar vilji bjóða upp á metanbíla sem valkost til viðskiptavina sinna. Norðurorka hefur litið svo á að metanverkefni fyrirtæksins geti rutt braut fyrir frekari vinnslu metans á svæðinu með það að markmiði að um frekari sjálfbærni svæðisins geti orið að ræða í orkumálum.“

Í svörum frá Norðurorku kemur fram að áætlaður heildarkostnaður við verkefnið sé rúmar 325 milljónir króna með borkostnaði. Skipting kostnaðar á árunum 2012 og 2013 er áætluð í meðfylgjandi töflu.

Þegar blaðið spyr beint hvort til greina komi að hætta við áform í ljósi þeirrar þróunar að rafbíllinn leysi af jarðeldsneyti, segir í svörum frá Norðurorku: „Nei, það hefur ekki komið til álita.“

-BÞ


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718