![Undirbúningur á fyrsta verkefni leikársins er kominn á fullt, hér sitja saman leikarar, leikstjóri, handritshöfundur og aðrir sem að sýningunni koma og ræða verkið]()
Undirbúningur á fyrsta verkefni leikársins er kominn á fullt, hér sitja saman leikarar, leikstjóri, handritshöfundur og aðrir sem að sýningunni koma og ræða verkið Sek
Á komandi leikári heldur Leikfélag Akureyrar upp á 40 ára starfsafmæli sem atvinnuleikhús en það var á stjórnarfundi þann 8. september 1973 sem ákvörðun var tekin um þessa breytingu. Atvinnuleikhúsið stóð þá þegar á traustum grunni áhugaleikhússins sem stofnað var 1917 en það var árið 1907 sem fyrsta leiksýningin var sett á fjalir Samkomuhússins. Blaðamaður Akureyrar vikublaðs hitti Ragnheiði Skúladóttur leikhússtjóra til að forvitnast um sýningar vetrarins.
„Þetta er auðvitað stórafmæli hjá okkur svo leikárið tekur svolítið mið af því og við leitum til leikara sem stofnuðu atvinnuleikhúsið á sínum tíma og fáum til liðs við okkur þau Þráinn Karlsson og Sögu Jónsdóttur. Auk þess koma fleiri kempur sem starfað hafa hjá LA við sögu,“ segir Ragnheiður.
Á dagskrá vetrarins eru fjögur verk auk þess sem gestasýningar og listamenn í vinnustofum munu sjá til þess að Akureyringar geta notið leiklistar af fullum krafti í vetur og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
![Ingibjörg Huld Haraldsdóttir, leikstjóri, og Hrafnhildur Hagalín höfundur verksins Sek kryfja verkið ásamt leikurum]()
Ingibjörg Huld Haraldsdóttir, leikstjóri, og Hrafnhildur Hagalín höfundur verksins Sek kryfja verkið ásamt leikurum og fleirum
Gamalt dómsmál frá Melrakkasléttu rifjað upp
„Fyrsta verkið sem við setjum upp á þessu leikári heitir Sek og er alveg magnað verk sem Hrafnhildur Hagalín samdi fyrir okkur. Það byggir á gömlu dómsmáli og atburðum sem áttu sér stað á Melrakkasléttu árið 1836. Hrafnhildur notar þetta gamla dómsmál og tekur hluta textans beint upp úr því, það er alveg magnað hvernig henni hefur tekist að fanga náttúruna og einangrunina inn í texta verksins. Málið snýst um annars vegar hjúskaparbrot og hins vegar kynferðisbrot gegn barni og þó þetta sé svona gamalt tekst Hrafnhildi að tala til nútímans og fær mann til að spyrja sig hversu mikið hafi í raun og veru breyst síðan þá. Þetta verk verður frumsýnt 4. október. Í verkinu leika okkar þrír fastráðnu leikrarar, þau Aðalbjörg Árnadóttir, Hannes Óli Ágústsson og Hilmir Jensson en auk þeirra fáum við til liðs við okkur unga stúlku sem við erum að leita að þessa dagana og svo Þráinn Karlsson sem er Akureyringum góðkunnur. Það er Ingibjörg Huld Haraldsdóttir sem leikstýrir verkinu en hún verður okkar fastráðni leikstjóri í vetur og mun leikstýra öðru verki ásamt því að vera aðstoðarleikstjóri í því þriðja.“
Gullna hliðið verður afmælissýningin
„17. janúar 2014 ætlum við svo að frumsýna afmælissýninguna okkar en það er verkið Gullna hliðið sem flestir íslendingar, sérstaklega Akureyringar, þekkja því það er jú eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Það er Egill Heiðar Anton Pálsson sem leikstýrir því en hann setti upp Leigumorðingjann hjá okkur síðasta vetur. Þetta er hugmynd sem fæddist hjá okkur Agli í fyrra þegar við vorum að skoða gamla mynd sem var tekin þegar Gullna hliðið var sett hér upp árið 1944. Þá hugsuðum við með okkur að það væri orðið tímabært að setja verkið upp aftur og það væri vel við hæfi að gera það á þessum tímamótum leikfélagsins. Við verðum trú Davíð og upprunalegum texta verksins en vinnum auðvitað með það á okkar hátt. Það er nefninlega hægt að líta á verkið frá ótal mörgum hliðum svo það má búast við að þetta verði mjög skemmtileg sýning. María Pálsdóttir leikkona verður með okkur í þeirri sýningu auk fleiri gestaleikara en það eru 20 hlutverk í Gullna hliðinu svo við þurfum margar auka hendur við það. Þetta verður stóra sýningin okkar í vetur“.
Saga Jónsdóttir og Sunna Borg leika aftur saman
„Þriðja verkið heitir Lísa og Lísa sem Jón Gunnar Þórðarson leikstýrir. Verkið er eftir ungt írskt leikskáld Amy Conroy og þetta er í fyrsta skiptið sem þetta verk er sett upp fyrir utan hennan eigin leikhóp sem heitir HotforTheatre þar sem hún lék sjálf í verkinu sem fór mikla sigurför um hinn enskumælandi heim, bæði í Bandaríkjunum og Ástralíu og svo auðvitað Bretlandseyjum. Þetta er alveg yndislegt verk, mér finnst Írarnir alltaf tala svolítið til okkar Íslendinga, við erum oft á sömu nótum. Leikritið fjallar um tvær eldri konur sem eru að opinbera sitt samband eftir að hafa búið saman í 30 ár. Þetta er alveg yndislega hjartnæm saga þar sem maður brosir hringinn með tár á hvarmi. Það eru Saga Jónsdóttir og Sunna Borg sem leika dömurnar tvær og Karl Ágúst Úlfsson hefur tekið að sér að þýða og staðfæra verkið. Ég hlakka mikið til að sjá þetta því ég held að þær Saga og Sunna eigi eftir að gera þetta alveg frábærlega. Verkið verður frumsýnt á Valentínusardaginn, 14. febrúar 2014, og verður sýnt í Rýminu“.
Barnaleikrit á ferðalagi
„Svo er það fjórða verkið okkar. Við hugsum nefninlega stórt á þessu afmælisári. Það er barnaverkið Skemmtilegt er myrkrið sem hópurinn mun setja saman. Efniviðurinn er Eyfirskar drauga- og þjóðsögur. Við vorum svo ánægð með útkomuna á Ef ég væri jólasveinn í fyrra, sem var nú unnið svolítið á handahlaupum en við ætlum okkur meiri tíma næsta vor, undir leiðsögn Ingibjargar Huldar. Verkið verður þannig úr garði gert að það geti ferðast, svo við munum geta skellt okkur upp í bílinn okkar og farið á ferðalag um nágrennið. Við hlökkum mikið til þess“.
![Ragnheiður Skúladóttir leikstjóri lítur með tilhlökkun til komandi leikárs]()
Ragnheiður Skúladóttir leikhússtjóri lítur með tilhlökkun til komandi leikárs
Opna leikárið með gestasýningu
„Fyrir utan þessi fjögur verk sem við setjum upp í vetur verða gestasýningar og aðrar uppákomur í húsinu. Við byrjum leikárið strax fyrstu helgina í september á því að sýna verkið Blakkát eftir Björk Jakobsdóttur. Við ætlum að gera þá breytingu að sýna sumar gestasýningarnar oftar en bara eina helgi og Björk verður hjá okkur í þrjár helgar í september og sýnir þá sex sýningar, jafnvel fleiri. Það hefur nefninlega oft brunnið við að fólk hefur ætlað að sjá gestasýningu en missir af henni því þær hafa oft verið sýndar bara eina helgi. Verkið Blakkát naut mikilla vinsælda fyrir sunnan og var uppselt á á þriðja tug sýninga. Björk er auðvitað ein af okkar aðal grínleikkonum og hún er þarna ásamt Hirti Jóhanni Jónssyni og Magnúsi Guðmundssyni leikurum en verkið fjallar um konu á miðjum aldri, ráðuneytisstjóra, sem vaknar á hótelherbergi á Hótel Örk eftir árshátíð sem átti sér stað í Reykjavík. Hún reynir að átta sig á því hvað gerst hafi. Þetta er gamanleikur og upplagt fyrir hópa að drífa sig í leikhúsið og hlæja saman. Það er þó alvarlegur undirtónn í verkinu, því það fjallar um alkóhólisma en stundum fellur vel að tala um alvarlega hluti á gamansaman hátt og mér finnst Björk hafa tekist einstaklega vel til í þessu verki. Þannig að við opnum veturinn á því og reyndar sömu helgi verður verkið Segðu mér satt, eftir Hávar Sigurjónsson í uppsetningu Heiðars Sumarliðasonar, sem verður reyndar bara sýnt eitt kvöld. Sú sýning var sett upp í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu í fyrra“.
Námskeið fyrir foreldra og börn í nútímadansi
„Í desember fáum við svo til okkar yndislegt verk, Dansaðu fyrir mig. Það eru Ármann Einarsson og Brogan Davison, en þau sýndu verkið einu sinni í Hofi sl. vetur. Þetta er alveg dásamlegt verk um tónlistarskólastjórann Ármann Einarsson sem hefur alið með sér þann draum í langan tíma að læra nútímadans og dansa á sýningu, hann hafði sem himinn höndum tekið þegar hann eignaðist tengdadóttur sem er danshöfundur en það er einmitt Brogan Davison og hún semur þetta verk fyrir hann. Þetta er einlæg og hugrökk sem verður á dagskrá alþjóðlegu leiklistarhátíðarinnar Lókal í Reykjavík í lok mánaðarins og svo er búið að bjóða þeim til Ástralíu, á leiklistarhátíðina You are Here í Canberra í Ástralíu, og svo ætla þau að koma aftur hingað norður um miðjan desember og sýna tvær sýningar. Þau ætla líka að vera hér með námskeið fyrir foreldra og börn í nútímadansi. Það sem er skemmtilegt við þetta verk er að það þróast, því Ármann verður alltaf betri og betri dansari svo hann þarf alltaf að fá meiri ögrun. Þetta er því algjörlega lifandi verk, sem verður annað verk hér í desember heldur en það var sl. vor“.
Tvö barnaverk í vetur
„Síðan er það verið Hættuför í Huliðsdal, með leikhópnum Soðið svið. Þetta er nýtt verk eftir Sölku Guðmundsdóttur, sem verður frumsýnt í haust í Reykjavík. Tvö af okkar fastráðnu leikurum, þau Aðalbjörg og Hannes, leika einmitt í því verki líka. Þetta er sami hópur og setti upp verkið Súldarsker sem var sýnt hér í fyrra en þetta er mjög spennandi barnaverk og verður sýnt hér a.m.k. þrjár helgar næsta vor. Þannig að við bjóðum upp á tvö barnaverk og það finnst okkur mjög gaman“.
Vinnustofurnar vinsælar
„Við verðum auðvitað áfram með vinnustofurnar. Þær hafa spurst út fyrir landsteinana og við erum að fá Sam Haren leikstjóra frá Ástralíu, sem er mjög þekktur þar úti en hann fékk styrk frá ástralska ríkinu til að koma hingað og dvelja í einn mánuð. Hann er mjög áhugasamur um unglingamenningu og hefur unnið mikið með börnum og unglingum og ætlar að vinna með eldri hópnum í leiklistarskólanum okkar og það verður frábært að fá svona öflugan utanaðkomandi aðila til að vinna með þeim. Leiklistarskólinn verður auðvitað í fullu fjöri og Þórhildur Örvarsdóttir söngkona og Ásta Sighvats Ólafsdóttir leikkona sjá um hann eins og í fyrra og síðan koma okkar leikarar eitthvað að honum“.
„Atli Viðar Engilbertsson, listamaður Listar án landamæra 2013 ætlar að vera á gestavinnustofu með okkur og verður eitt kvöld í lok þeirrar vinnustofu helgað verkunum hans. Hann hefur skrifað mikið af leiktextum og svo hefur hann samið tónlist auk þess að vera myndlistarmaður eins og allir þekkja. Hann mun vinna með leikurunum okkar“.
„Jóhanna Vala Höskuldsdóttir kemur svo til okkar með lokaverkefnið sitt sem var Skemmtikvöld fyrir karla, sem var sýnt í Þjóðleikhúskjallaranum sl. vor. Hún ætlar að vinna það með körlum hér úr nágrenninu“.
„Við munum sviðsetja leiklestur á verkum Heklu Bjargar Helgadóttu og svo kemur líklega til okkar hann Arnþór Þórsteinsson sem hefur verið með kvikmyndahátíðina Ræmuna á Laugum. Hann er í verkefninu Aftur heim sem Eyþing stendur að og gengur út á að fá listamenn til að koma aftur á heimaslóðir og vinna. Hann ætlar semsagt að koma aftur hingað á heimaslóðir og vinna með krökkunum í leiklistarskólanum“.
Útvarpsleikrit um Davíð Stefánsson
„Svo er enn eitt spennandi verkefnið hjá okkur, sem er samvinna við Útvarpsleikhúsið og Minjasafnið á Akureyri. Það er glænýtt verk eftir Árna Kristjánsson um Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Davíð lést 1. mars 1964 þannig að það er 50 ára dánartíð hans 1. mars 2014 og þá verður frumflutt hljóðverk um hann í Davíðshúsi sem síðan verður páskaleikrit Ríkisútvarpsins. Viðar Eggertsson, leikstjóri Útvarpsleikhússins er náttúrulega héðan og var leikhússtjóri LA um tíma og hefur leikstýrt mikið hér. Hann setur þetta upp í útvarpsleikhúsinu með okkar leikurum og svo verður það flutt sem hljóðverk í Davíðshúsi áður en það er flutt sem páskaleikrit útvarpsins. Verkið mun svo lifa áfram sem hljóðinnsetning í Davíðshúsi“.
„Við verðum áfram í samstarfi við Sinfóníuna, með áskriftarkortin, ásamt samstarfi við fjölmargar menningarstofnanir í bænum en það samstarf var verið gríðarlega gefandi síðasta leikár og við hlökkum til að halda því áfram,“ segir Ragnheiður að lokum og telur allt vera upp talið af verkefnum sem framundan eru hjá Leikfélagi Akureyrar í vetur og greinilegt að úr nógu verður að velja fyrir leikhússgesti. Það má því draga þá ályktun að félagið hafi náð vopnum sínum á ný eftir erfitt tímabil.
-SBS