Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all 1718 articles
Browse latest View live

Heyrst hefur …

$
0
0

Heyrst hefurHeyrst hefur að nokkur óánægja hafi skapast meðal foreldra og barna sem lögðu leið sín í miðbæ Akureyrar um helgina til að verða vitni að „karamelluregni“. Engin flugvél dreifði karamellunum eins og mörgum hafði skilist á kynningum heldur urðu börnin sem biðu eftir gotteríinu að gera sér að góðu að starfsfólk þeirrar annars ágætu stöðvar, N4, sem sendi út skemmtilega tónleika á fimmtudagskvöldinu, dreifðu karamellum af svölum. Svo illa vildi til að baráttan um brauðið varð mjög ójöfn. Stærri börn voru jafnvel með poka með sér og hömstruðu karamellurnar meðan hin minni fengu ekkert. Örvinglaðastir voru þó foreldrarnir sem reyndu að fórna sér fyrir litlu börnin. Mændu upp í átt að N4 fólkinu og reyndu að reikna út hvar næsta karamella myndi lenda…

Heyrst hefur að Pétur Guðjónsson, talsmaður Einnar með öllu, sá ásamt Þórhalli í Pedró að reyna að ná samningum við Stöð 2 um fréttainnslög frá Akureyri. Miklar breytingar hafa staðið yfir hjá 365 og veit enginn hvert fyrirtækið stefnir. Hitt þykir hæfa nýjum áherslum ágætlega að Pétur er hress og Þórhallur myndatökumaður líka. Stefnan hefur einmitt verið sú hjá einkaframtakinu í fjölmiðlageiranum síðari árin að hressa fjölmiðlana upp – og þá ekki síður fréttahlutann en annað efni. Virðist engin hætta á að Lýðheilsustofnun gefi út tilmæli um að fjölmiðlar verði aðeins jákvæðari eins og tíma rétt eftir hrun. En hvort hressleikinn bætir samfélögin – er önnur spurning. Hefur heyrst að með þessum breytingum öllum dæmi fjölmiðlar sig úr leik í sínu helsta hlutverki. Aðhaldshlutverkinu…

Heyrst hefur að Kristján Ingimarsson og Blam-hópurinn hans hafi fengið fimm stjörnur af fimm mögulegum í breskum dagblöðum undanfarið. Þar er nú leikhópurinn með sýninguna BLAM! að störfum. Virðist engin uppstytta í sigurgöngu Kristjáns og fyllast Akureyringar stolti…


Sigfús Fossdal setti íslandsmet á Evrópumóti

$
0
0
Skyrhöfðinginn, Sigfús Fossdal

Skyrhöfðinginn, Sigfús Fossdal

Akureyringurinn Sigfús Fossdal keppti í dag á Evrópumeistaramóti í bekkpressu sem fram fór í Bratislava. Sigfús var eini fulltrúi Íslands á mótinu en hann keppir nú fyrir kraftlyftingafélagið Víking á Ísafirði. Sigfús keppir í +120 kg. flokki og lenti í 8. sæti. Keppnin var hörðu og voru Norðurlandabúar áberandi í baráttunni. Fredrik Svensson, Svíþjóð, stóð að lokum uppi sem sigurvegari og lyfti 340 kg.

Sigfús opnaði á nýju íslandsmeti, 310 kg. og kláraði það örugglega en önnur tilraunin, 320 kg. misheppnaðist og þá ákvað Sigfús að reyna við 327,5 kg. í þriðju og stefna á 5-6.sæti. „Miðað við æfingartölur og væntingar fyrir mótið var það ekki óraunhæf melding,“ segir á vef Kraftlyftingasambands Íslands, „lyftan var á góðri leið þegar hann missti hana út úr ferli og náði því miður ekki að klára. Sigfús er nú á heimleið, óneitanlega svekktur yfir að hafa ekki náð lengra, en ánægður með nýtt Íslandsmet og innkomu á alþjóðakeppnisvöllinn. Og með ný verkefni og markmið að vinna að“.

Sigfús hefur lengi haft viðurnefnið Skyrhöfðinginn síðan hann keppti merktur KEA skyri og var ósigrandi í yfirþungavigtinni en hann er af mörgum talinn bekkpressari Íslands frá upphafi og hefur tekið yfir 360 kg. á móti.

Fyrsti hestur á Súlur í hundrað ár!

$
0
0
Hestasveinninn og trússhesturinn

Hestasveinninn og trússhesturinn

Glæsileg ferð var farin á eitt fegursta fjall Tröllaskagans fyrir skemmstu, drottninguna Súlur. Þar tóku um 45 manns áskorun Icelandair hótelsins á Akureyri, dubbuðu sig upp og gengu alla leið á toppinn, upp úr þoku í blíðskaparveður. Tiltækið var hugsað sem endurgerð á frægri ljósmynd í eigu Minjasafnsins en Sigrún Björk Jakosdóttir hótelstjóri átti hugmyndina.

Til tíðinda sætir að trússhestur fór alla leið á toppinn með gönguhópnum, Kaldi frá Hellulandi, 17 vetra klár í eigu Björns J. Jónssonar, af mörgum kunnur sem Bjössi málari. Jón Björnsson var hestasveinn og segir hann ferðina hafa gengið vel. Kaldi sé duglegur, öflugur og hlýðinn hestur.

Jón segir alls óljóst hvenær síðast fór hestur upp á fjallstopp á Súlum. Þess vegna gætu verið liðin allt að hundrað ár frá síðustu för. Þeir sem kynnu að hafa upplýsingar um hestaferðir á Súlur eru hvattir til að senda póst á bjorn@akureyrivikublad.is

Hér má sjá gömlu myndina og svo nýju endurgerðina

Gamla myndin Nýja myndin af toppi Súlna

We are so unique

$
0
0
Hildur Eir Bolladóttir

Hildur Eir Bolladóttir

Hiti, sviti og þreyta eru þau orð sem lýsa best líðan minni þegar við komum loks til Taize í suðurhluta Frakklands þann 22.júlí síðastliðinn. Taize er lítið þorp sem hverfist um klausturreglu sem stofnuð var af bróður Roger Schutz árið 1940. Bróðir Roger var af svissneskum uppruna og stofnaði samfélagið á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar en þorpið lúrir og lætur lítið yfir sér í hinu fræga Búrgúndí héraði þar sem vínræktin blómstrar. Reglan er alþjóðlegt, samkirkjulegt bræðrasamfélag sem telur um 60 bræður á staðnum en 100 í heild því nokkrir eru starfandi um víða veröld. Bræðurnir lifa við veraldlega fátækt og mega ekki þiggja persónulegar gjafir eða fjárstuðning, með þessum hætti getur enginn utanaðkomandi aðili sett starfi þeirra skorður svo þeirra veraldlega fátækt er á vissan hátt vísir að frelsi, þeir eiga sig sjálfir. Þá er mikil áhersla lögð á bænasamfélagið og hafa Taizebænir og Taizesöngvar haft áhrif á helgihald kristinna um allan heim og finnast m.a. í okkar íslensku sálmabók. Ég veit að þetta hljómar allt mjög spennandi og framandi sem það vissulega er þó spennustigið sé alla jafna ekki mjög hátt þarna í Taize eða a.m.k ekki streitustigið, við getum orðað það þannig að undirrituð hafi keyrt á vegg þegar hún kom og uppgötvaði að lífið þarna snerist bara um að biðja, borða og hlusta í 35 til 8 stiga hita. Ég er enn að vinna úr þessari reynslu og mynda mér skoðun á henni. Á vissan hátt fannst mér þetta mjög erfitt, en á sama tíma var ég svo meðvituð um hvað þetta væri mér hollt, að lifa svona fábrotnu lífi í eina viku staðfesti fyrir mér hvað líf mitt er í raun háð veraldlegum gæðum. Ég væri ekki að segja satt ef ég héldi því fram að maturinn hafi verið góður í Taize, ég væri líka að smyrja á söguna ef ég segði að svefnaðstaðan hefði verið draumi líkust, lítill fúinn kofi með kojum og þunnum dýnum og köngulóm og drekaflugum og bjöllum og fleiri lífverum þannig að ef ég væri haldin messíasarkomplexum þá gæti ég hæglega farið að líkja þessu við gripahúsið í Betlehem en ég ætla mér ekki þangað enda ljóst að þolgæði mínu og Maríu er ekki saman að jafna.

Bænastundirnar í Taize voru stórkostlegar, kirkjan ótrúlega praktísk bygging sem bauð upp á þann möguleika að loka af vistarverur með nokkurs konar bílskúrshurðum þannig að fólk gæti spjallað í minni hópum en opna svo allt svæðið í eitt alrými sem getur hæglega rúmað 5000 manns og það var gert þrisvar á dag í morgun, hádegis og kvöldbænum. Bænastundirnar byggðust á ritningarlestrum á mörgum tungumálum og Taizesöngvum þar sem einn bræðranna sá um forsöng og öll hersingin tók undir en þessa viku voru um 3000 manns þarna hvaðanæva úr heiminum. Það var „gæsahúðarmóment“ að upplifa þetta í fyrsta sinn, hvernig allt þetta fólk sem alið er upp í mismunandi menningaheimum, trúarbrögðum, efnahag, af ólíkum kynþáttum, kynhneigð, aldri og heilsufari sameinaðist í angurværum söng þar sem góður Guð er tilbeðinn með einföldum endurtekningum sem allir geta lært og sungið. Það var svolítið eins og að ganga inn í Opinberunarbókina að taka þátt í þessum stundum, þær voru dvalarinnar virði sem og hitt að eiga samtal við bræðurna. Einn þeirra varð sérstakur vinur okkar Íslendinganna, bróðir Stephen frá Bretlandi sem lifað hefur í reglunni í 30 ár. Það er rétt að taka það fram að við fórum átta saman út, við séra Sunna Dóra ásamt sex ungleiðtogum héðan úr Akureyrarkirkju sem öll eru á nítjánda aldursári, flottir krakkar sem hafa alist hér upp í æskulýðsstarfi og eru nú að blómstra sem myndugir leiðtogar í barnastarfinu. Bróðir Stephen fannst unga fólkið okkar frábært og fyndið, „hvað finnst ykkur best og verst við Ísland?“ Spurði hann yfir hópinn, einn drengjanna, íþróttamaður mikill, bjartur yfirlitum og beinn í baki svaraði „well we in Iceland are so unique“ þá færðist bros yfir andlit bróður Stephen og í brosinu mátti greina húmor fyrir þessum ánægðu eyjaskeggjum sem töldu allt hið besta finnast á Fróni og ég er ekki frá því að það hafi líka verið eitt það besta sem ég upplifði á staðnum, að heyra unglingana okkar vera svona þakklát fyrir það sem þau eiga og hafa, því nægur er víst bölmóðurinn sem þessi kynslóð fær að heyra í opinberri umræðu meðal okkar sem eldri erum. Þau voru sko ekkert að biðjast afsökunar á sjálfum sér og mér fannst það bara fínt, ég held að Stephen hafi líka þótt það gott, a.m.k fengum við orðsendingu frá honum á brottfarardegi þar sem hann lýsti yfir áhuga sínum og bræðranna á því að heimsækja okkur hingað til Akureyrar. Við skildum náttúrulega eftir heimilisfang, símanúmer og netfang kirkjunnar og þau orð að þeir væru alltaf hjartanlega velkomnir hingað, ekki væri verra að halda eina alvöru, orginal Taizemessu í Akureyrarkirkju og bjóða þeim svo að borða á Bautanum.

Ég er mjög þakklát fyrir þessa reynslu, að dvelja undir verndarvæng bræðranna í Taize, ég komst að svo mörgu um sjálfan mig og Guð. Ég komst vissulega að því að ég myndi sennilega lifa af án styrjuhrogna og humars, ég komst að því að vondur matur venst mjög vel, ég komst að því að líkaminn getur aðlagast örþunnum dýnum og að drekaflugur eru bara nokkuð vinalegar. Ég komst að því að bróðir Roger sá sem stofnaði regluna á sínum tíma hafði rétt fyrir sér með það að allar manneskjur geti fundið samhljóm í einum Guði jafnvel þó sá Guð hafi mismunandi heimilisfang eftir löndum, menningu, viðmiðum og gildum. Að það er eitthvað til sem heitir Kærleikur sem reynist frumkraftur lífs og við þráum öll að finna. Ég komst að því að hann nær í gegnum vondan mat, frumstæð húsakynni og sameiginlega sturtuaðstöðu með öðrum 3000 einstaklingum.

En ég komst líka að því að minn Guð sem birtist í Jesú Kristi býr í heiminum, þar sem fólk er að lifa mjög flóknu og oft þjáningarfullu lífi, þar sem menn mætast í vanmætti sínum og reyna að lifa af við ólíkar aðstæður. Kristur er alltaf á vettvangi, hann er aksjónmaður, hann er auðvitað líka í Taize en ég er ekki viss um að það séu endilega aðalbækistöðvar hans, ég held að hann sé þar sem fólk á síst von á að finna hann já þar sem hann getur skapað möguleika úr ómöguleika. Eins og í sorginni sem hefur knúið svo harkalega dyra hér í bæ síðustu daga, hann er hér hann Jesús, að skapa eitthvað úr hinu ómögulega, svo syrgjendur geti með tímanum risið upp og haldið áfram að lifa og njóta. Hann er að störfum við að líkna og leiða fólk saman, af því að það er það eina sem hægt er að gera núna, engin tekur sorgina frá þeim sem hefur misst, enginn lagar það sem orðið hefur, en við getum verið samferða í því að finna til, í því að minnast, í því að hlusta, í því að vona og í því að vera. Það er það eina sem við getum núna á meðan Jesús er að skapa möguleika úr ómöguleika, líf úr dauða, von úr angist. Svo dag einn kemur sólin og lýsir upp landslagið og þó það sé breytt þá er það samt fallegt.

Ég hef komist að því að ég ætla ekki að ganga í klaustur þó ég virði svo mjög ákvarðanir þeirra sem það gera, ekki síst bræðranna í Taize sem byggja samfélag sitt og starf á því að leiða saman ólíka hópa fólks, af ólíkum trúarbrögðum, menningu, aldri og aðstæðum. Ég hef komist að því að heimurinn er fullur af óþarfa drasli en hann er líka fullur af tækifærum til að kynnast Jesú í margskonar myndum, og að þar liggur fegurð trúarinnar, að geta mætt honum þar sem síst varir og vitnað upprisu í ómögulegum aðstæðum.

Hildur Eir Bolladóttir

Af sundi, útisvefni og menningarmun

$
0
0
Arndís Bergsdóttir

Arndís Bergsdóttir

Í sumar höfum við hjónin reglulega komist í tæri við hópa af amerísku ferðafólki. Fólkið er áhugasamt um að kynnast landinu í gegnum samveru við íslenska frumbyggja. Fólkið hefur að sjálfsögðu mikinn áhuga á Hruninu og efnahagsástandi þjóðarinnar en ekki síður því hvernig við – fjölskylda á norðurhjara – högum daglegu lífi okkar. Margt kemur þeim á óvart og vekur furðu. Einnig kemur fyrir að þegar okkur finnst við vera að segja þeim frá einhverju frábæru – einhverjum kostum við það að búa svona afskekkt og einangrað – þá vekur það ekki sömu tilfinningar í þeirra brjóstum.

Til dæmis þá útskýrðum við gjarnan fyrir þeim þegar enn var barnavagn í forstofunni að íslensk börn væru látin sofa úti; enda tvímælalaust kostur í okkar huga að geta skilið börn eftir úti klukkutímum saman án þess að eiga á hættu að þeim verði rænt. Ítrekað urðum við vör við að fólk varð ekki bara hissa, heldur svolítið reitt. Lengi litum við á hofmóðug svipbrigðin sem skemmtilega birtingarmynd menningarlegs mismunar og létum móðann mása um hreysti barna og gæði íslenskra kuldagalla. Það er að segja allt þar til einn gestanna spurði okkur varfærinn; “Og hvað eru þau gömul þegar þið hleypið þeim inn í húsið?”

Að sama skapi höfum við dásamað hinar íslensku sundlaugar. Þangað fari íslenskar fjölskyldur með börn sín – stundum oft í viku – enda varla hægt að finna betri útivistarmöguleika um hávetur þegar skaflarnir ná uppfyrir axlir lítilla barna. Þetta vekur jafn mikla hrifningu og ef við segðumst fara með börnin til Guantanamo sér til heilsubótar og ánægju – jafnvel þótt við útskýrum að laugarnar séu ylvolgar, aðgengi ódýrt þökk sé íslenskum náttúruauðlindum og að langflest íslensk börn séu flugsynd snemma á grunnskólaaldri.

Það var ekki fyrr en ég rakst á grein í Guardian um siðvenjur í sundlaugum í Bretlandi – og skilst okkur að þær amerísku séu síst frjálslegri – sem viðbrögðin urðu skiljanleg. Þar má ekki hlaupa, hoppa, leika sér eða hafa hátt. Það má ekki snerta næsta mann, ekki hanga við bakkann, ekki kasta boltum, ekki synda þvert yfir laugina, ekki synda flugsund, ekki sitja eða standa á öxlunum á félaganum. Ég geri ráð fyrir að það sé einnig bannað að fleygja börnum upp í loft svo þau lendi í vatninu eins og margir foreldrar gera í íslenskum sundlaugum, bæði sér og ungviðinu til skemmtunar. Það er því ekkert undarlegt að amerísku gestunum okkar finnist það skrítin og beinlínis barnfjandsamleg fjölskylduafþreying að fara í sund.

Kosturinn er hinsvegar að við getum hætt að hafa áhyggjur af því að íslenskir sundverðir stuði fólk þegar þeir reka það úr fötunum í sturtunum – frjálsræðið á sundlaugarsvæðinu mun bæta það upp. Eins er ágætt að líkja íslenskum sundlaugum við sólarströnd og fínt að nefna fremur að börn taki “daglúra” útivið en að þau “sofi úti”.

Arndís Bergsdóttir

„Are you going to Scarborough Fair“ / „Halló, Akureyri“

$
0
0
Arnar Már Arngrímsson

Arnar Már Arngrímsson

Dagbókarslitur úr Englandsferð

„Are you going to Scarborough Fair“ – óskapleg áþján hlýtur það að vera íbúi þessa bæjar og vita að þetta er vitneskja heimsbyggðarinnar um heimahagana; lína úr popplagi. En þeir eru í það minnsta betur settir en Akureyringar sem lesa víst Nonna og sækja Sjallann út í eitt. Það væri samt dálítið fyndið ef menn brystu alltaf í „Halló, Akureyri“ þegar Akureyri bæri á góma.

Scarborough er hinn fegursti bær en dálítið sjabbí eins og túristabæir eru gjarnan og mávahláturinn getur gert mann galinn. Meðalaldur íbúa hér er 95 ár, algengasta tegund farartækja er ellinaðran, bingó er helsta skemmtunin og te drykkurinn. Bærinn er á tveimur hæðum eins og Akureyri. Til að komast á milli hæða notast menn við kláfa. Eitthvað sem mætti skoða. Ströndin er hrein dásemd, sérstaklega í 30 stiga hita, en sjórinn er álíka kaldur og heima. Ég fór því og keypti mér blautbúning á útsölu. Það er dálítið fyndið að máta blautbúning og ganga síðan fram í búð og snúa sér í hring fyrir framan spegil. Djös ístrubelgur er maður orðinn, nema það sé sniðið.

Ég keypti í matinn í Marks og Spencer í gær. Þar var ég afgreiddur af eldri konu sem var í essinu sínu og mér fannst í raun skemmtilegt að versla. Hér er ég ávarpaður sir, eða luv. Kurteisi er góð; „ya allright, luv?“ – Á Íslandi er maður aðeins afgreiddur af börnum sem koma og fara. Þau standa sig vel en eru sjaldnast að springa úr hressleika, ekkert athugavert við það, þannig erum við flest hér á landi á en hvað með smá: „Ta, luv“ („Takk, skan“)?

Ég keyrði í fyrsta sinn í öfugum bíl á öfugum vegarhelmingi. Það er ekkert grín. Það sem mér fannst óþægilegast var að átta mig á fjarlægð bílsins frá vinstri kantsteini, eins er undarlegt að skipta um gír með vinstri. Og mér tókst að tjóna bílinn. Beygði inn í þrönga götu og ákvað að keyra utan í ruslatunnur og rífa vinstri hliðarspegilinn af. Ég var búinn að keyra í klukkutíma þegar þetta gerðist. Mér leið eins og hjólreiðakappanum sem sleppti höndum og byrjaði að fagna 100 metrum frá marki til þess eins að missa einhvern framúr sér.

Ég hef horft á nokkra leiki hjá konunum í Evrópukeppninni. Enskir eru fúlir, horfa öfundaraugum á Þjóðverja og Frakka, finnst sem þeirra konur séu staðnaðar. Umfjöllun hefur verið góð og ég verð að segja að mér finnst konurnar vera einbeittari í því að spila fótbolta heldur en karlarnir, minna um tuð og væl. Nú er lag að taka fram „Bend it like Beckham“ þá snilldarmynd, eins mætti kíkja á Escape to Victory, þið munið, með Pele og Stallone („lék“ markmann!). Aðrar fótboltamyndir? Íslenski draumurinn? Enn vantar góða handboltamynd.

Það er súrt fyrir egóið að lenda í tungumálaerfiðleikum í Englandi. Rétt áðan pantaði ég kaffi og var spurður á móti; „A kúp or a múg?“ Ég kveikti ekki strax. Kveikið þið?

Grand Hotel gnæfir yfir ströndinni. Mér skilst að það hafi verið eitt stærsta hótel í heimi fyrir 100 árum. Það er enn glæsilegt að utan en pizzukassar og rusl við innganginn og tilboðsskilti segja aðra sögu. Mávarnir keppast við að skíta á húsið; þeir halda að það sé klettur.

Á kvöldin líkist bærinn Las Vegas; spilasalir, Elvis-eftirhermur, búktal og uppistandarar í anda Benny Hill. Það segir töluvert um bæinn að eitt kvöldið hélt The Straits tónleika – án Dire.

Hingað kemur fólk hvaðanæva úr Jórvíkurskíri til að gera sér glaðan dag. Margir eiga péning. Ég hef ekki tölu á þeim Porsum, Bentleyjum, Jagúörum og Míni Cooperum sem ég hef séð.

Maturinn er fínn en tvennt er vont: „franskarnar“ sem þeir kalla „chips“ eru feitar og þykkar og almennt séð vondar. Hamborgari á 90 prósent staða er einhvers konar gúmmíbúðingur. Til að viðhalda kjörþyngd keypti ég mér reglulega fish ‘n chips. Það er dálítið töff að fá heilt djúpsteikt flak og það er lygilega gott að baða fiskinn með ediki og borða maukaðar grænar baunir með – og drekka te.

Ég gekk ásamt fleirum frá Whitby og til Scarborough. Það er ein falleg leið meðfram ströndinni. Ég hef aldrei náð sambandi við jarðfræði, kenni Jónasi Helgasyni um það og einhverju verkfalli sem varð til þess að við fórum ekki í jarðfræðiferð í Mývatnssveit í fyrsta bekk í MA. Ég er ekki frá því að áhuginn hafi kviknað í þessari ferð. Það er eitthvað við það að finna margra milljón ára gamla steingervinga.

Ég fór á krá í Durham. Þetta var um miðjan dag. Fullir ellilífeyrisþegar í spilakössum. Þessar svokölluðu menningarþjóðir búa við mun andstyggilegri drykkjukúltur en við.

Hversu margir Íslendingar hafa farið í frí til Englands? Þá meina ég ekki helgarferð á fótboltaleik eða verslunarferð til London. Er hugsanlegt að við séum að leita langt yfir skammt með því að fljúga til Spánar og Grikklands í frí? Vissulega er ekki á vísan að róa með veðrið en það er alltaf betra en heima.

Þetta var söguleg ferð, Bretar enn í sigurvímu eftir sigur Murrays á Wimbledon, hitabylgja, Breti vann Tour de France annað árið í röð, ég lét tattóvera á mig þorsk í Hull og kona eignaðist barn.

Arnar Már Arngrímsson

Ók fram af Glerárbrúnni

$
0
0
Lögreglubíll. Mynd úr safni

Lögreglubíll. Mynd úr safni

Umferðaróhapp átti sér stað við brúna á Glerárgötu seint í gærkvöldi. Ökumaður missti stjórn á bíl sínum sem ekið var í suðurátt eftir Hörgárbraut með þeim afleiðingum að bíllinn lenti á brúarhandriðinu og svo út í á. Bíllinn fór alla leið yfir ána og endaði á bakkanum hinu megin. Töluverður viðbúnaður var á slysstað í gærkvöldi en tveir voru í bílnum og voru fluttir á slysadeild en litu ekki út fyrir að vera mikið slasaðir að sögn lögreglu sem taldi þá hafa sloppið ótrúlega vel miðað við aðstæður. Bíllinn er mikið skemmdur og líklega ónýtur.

Akureyri fer í æfingarferð til Þýskalands

$
0
0
Tveir af leikmönnum Akureyrar, Vladimir Zejak og Jovan Kukobat

Tveir af leikmönnum Akureyrar, Vladimir Zejak og Jovan Kukobat

Handboltapiltarnir úr Akureyri Handboltafélag halda til Þýskalands í byrjun vikunnar þar sem þeir munu dvelja í viku við æfingar og keppni. Þetta er hluti af undirbúningi liðsins fyrir komandi átök í N1-deild karla en liðsmenn söfnuðu sér fyrir þessari ferð með fjáröflun á borð við happdrætti og fleiru.

Liðið leggur af stað á þriðjudaginn til Reykjavíkur þar sem þeir munu spila æfingarleik gegn ÍR en flugið til Þýskalands er ekki fyrr en á miðvikudag. Strákarnir munu æfa nokkrum sinnum áður en æfingarmótið sjálft hefst en það er leikið frá föstudegi til sunnudags. Æfingarmótið, sem kennt er við bæinn Dessau í Austur-Þýskalandi, er gríðarlega sterkt og nokkur af bestu liðum heims taka þátt. Þar má t.d. nefna fyrrum Íslendingaliðið Gummersbach, slóvensku meistarana í Gorenje Velenje, franska liðið St. Raphäel og Dinamo Minsk frá Hvíta-Rússlandi.

Það er ljóst að gríðarlega erfitt verkefni bíður Akureyringanna en liðin sem þeir etja að kappi við eru að mestu atvinnumannalið. Akureyringar eru með töluvert breytt lið frá síðasta keppnistímabili en Oddur Gretarsson hélt í atvinnumennsku og þeir Guðmundur Hólmar Helgason og Geir Guðmundsson sömdu við Val. Loks hefur Heimir Árnason, þjálfari liðsins, hætt að spila með liðinu.

En maður kemur í manns stað og hafa Akureyringar styrkt sig með nokkrum leikmönnum. Gunnar Malmquist, vinstri hornamaður, kemur frá Val, Kristján Orri Jóhannsson kemur frá Gróttu og Þrándur Gíslason, línumaður, frá Aftureldingu. Þá hafa Akureyringar einnig fengið Serba að nafni Vladimir Zejak en hann leikur skyttustöðuna og Halldór Logi Árnason hefur snúið aftur á heimaslóðir eftir að hafa leikið með ÍR undanfarin ár.


Rýr uppskera hjá knattspyrnuliðum bæjarins um helgina

$
0
0
KA-Leiknir. Mynd: Sævar Sigurjónsson

KA-Leiknir. Mynd: Sævar Sigurjónsson

Bæði karlalið KA og Þór voru í eldlínunni um helgina þegar liðin kepptu í 1. og Pepsi-deild karla.

KA fékk Leikni í heimsókn á Akureyrarvöll og voru heilladísirnar ekki með KA mönnum þann daginn en Leiknir vann leikinn 1-0, en leikurinn var afar mikilvægur í toppslag 1. deildarinnar. Leikurinn var einkar bragðdaufur og skoruðu Leiknismenn úr sínu eina færi í leiknum en KA skapaði sér einnig lítið. Nú hefur KA aðeins fengið eitt stig af síðustu sex mögulegum og fjarlægist sá draumur að liðið fari upp um deild, með hverju töpuðu stigi. Eftir leikinn er KA í 7. sæti deildarinnar með 22 stig, þó aðeins 5 stigum frá toppsætinu.

Þórsarar sóttu aðeins eitt stig til Ólafsvíkur þar sem þeir mættu heimamönnum í Víking. Þór og Víkingur eru nýliðar í Pepsi-deildinni og vann Þór fyrri leik liðanna, 1-0. Eftir tæplega 10 mínútna leik skoruðu Víkingar skrautlegt mark, eftir mistök í öftustu varnarlínu Þórs. Rúmum 20 mínútum síðar var einn Víkingurinn rekinn útaf eftir gróft brot og gengu Þórsarar á lagið og jöfnuðu metinn. Þar var að verki Daninn Mark Tubæk. Lokatölur urðu 1-1 og hafa Þórsarar 14 stig í 9. sæti deildarinnar.

Hér má sjá myndir úr leik KA og Leiknis sem Sævar Sigurjónsson tók

KA-Leiknir. Mynd: Sævar Sigurjónsson KA-Leiknir. Mynd: Sævar Sigurjónsson KA-Leiknir. Mynd: Sævar Sigurjónsson KA-Leiknir. Mynd: Sævar Sigurjónsson KA-Leiknir. Mynd: Sævar Sigurjónsson KA-Leiknir. Mynd: Sævar Sigurjónsson KA-Leiknir. Mynd: Sævar Sigurjónsson

Akureyrarvaka tileinkuð fjölmenningu

$
0
0
Vaka Akureyrar er einlæg og fjölskrúðug gyðja

Vaka Akureyrar er einlæg og fjölskrúðug gyðja

Nú styttist í Akureyrarvöku sem er afmælishátíð Akureyrar og haldin er á hverju ári síðustu helgina í ágúst. Þema Akureyrarvöku þetta árið er fjölmenning en fólk af rúmlega sextíu þjóðernum býr á Akureyri. Undirbúningur er nú í fullum gangi og dagskráin er að taka á sig spennandi mynd. Meðal atriða sem verða á Akureyrarvöku má nefna Retro Stefson karnival í Gilinu, þar sem hljómsveitin tekur á móti fjölbreyttum gestum, alþjóðlegt eldhús í Hofi, heimstónleika á Ráðhústorgi, suðræna og seiðandi Rökkurró í Lystigarðinum, vísindasetur í Rósenborg, tónleika á Akureyri Backpackers, Draugaslóð í Innbænum, nytja- og handverksmarkað, Tweed Ride hjólreiðar í klassískum klæðnaði, Mozartveislu Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, útgáfutónleika Hjalta og Láru Sóleyjar í Hofi, fjölda sýninga í Listagilinu, ljósmyndasýningu í miðbænum og tónleika í Sundlaug Akureyrar.

Grafíski hönnuðurinn sem á heiðurinn að útliti Akureyrarvöku 2013 heitir Vaiva Straukaite en hún útskrifaðist frá Myndlistaskólanum á Akureyri síðasta vor. Myndin sem prýðir forsíðu fésbókarsíðu hátíðarinnar og er einnig greinileg á öðru kynningarefni er af Vöku Akureyrar sem er einlæg og fjölskrúðug gyðja. Hún tekur öllum opnum örmum og boðar fordómalaust samfélag.

Jón Gunnar Þórðarson, leikstjóri, er verkefnastjóri Akureyrarvöku og þeir sem vilja taka þátt í Akureyrarvöku með eigin atriði geta sent tölvupóst honum tölvupóst á netfangið akureyrarvaka@akureyri.is eða haft samband við Huldu Sif Hermannsdóttur, verkefnastjóra hjá Akureyrarstofu, á netfangið huldasif@akureyri.is.

Síðasti dagur Handverkshátíðar er í dag

$
0
0
Heimilisiðnaðarfélagið hlaut heiðursverðlaun hátíðarinnar

Heimilisiðnaðarfélagið hlaut heiðursverðlaun hátíðarinnar

Síðasti dagur Handverkshátíðarinnar er í dag en aðsóknarmet var slegið sl. föstudag og hafa aldrei jafn margir gestir komið á hátíðina á föstudegi. „Ester Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar var afskaplega glöð í bragði þegar blaðamaður heyrði í henni í dag og sagði mikið af gestum vera komið á svæðið til að njóta síðasta dagsins. „Veðrið leikur við okkur og fólkið situr úti í sólinni og nýtur veitinganna á milli þess sem það skoðar básana.“

Ester segir bera meira á erlendum ferðamönnum nú en áður hefur verið og þeir hafi greinilega fengið fréttir af þessari glæsilegu hátíð. „Við fengum 20.000 heimsóknir í fyrra, sem var algjört met og það stefnir í sama fjölda núna,“ segir Ester.

Í gær voru  verðlaun hátíðarinnar veitt og var það Grétar Þór Pálsson sem valinn var Handverksmaður hátíðarinnar 2013. Í umsögn valnefndarinnar segir að handverk Grétars sé fallegt og vel unnið og hafi nefndin heillast sérstaklega af fagurlega útskornum heklunálum.

Hönnunarverðlaun Handverkshátíðarinnar 2013 hlaut Halldóra Eydís Jónsdóttir sem hannar undir merkinu HALLDORA. Í umsögn valnefndarinnar segir að hönnun Halldóru sé heildstæð og falleg, með vísun í þjóðararfinn hvað varðar efnisnotkun og munstur. „Skórnir eru mikið unnir úr íslensku hráefni eins og lambsleðri, roði, hrosshárum og hrafntinnu hraunkristöllum auk hrosshúðar. Með efnisnotkun sinni nær Halldóra að breyta efnistökum  íslensku sauðskinnsskónna í alþjóðlega hátískuvöru“.

Sölubás ársins 2013 var valinn bás Einars Gíslasonar sem valnefnd taldi vera sjónrænan, stílhreinan og grípandi bás þar sem söluvaran og innréttingin mynda eina heild.

Heiðursverðlaun Handverkshátíðarinnar 2013 hlaut Heimilisiðnaðarfélagið. Í umsögn valnefndar segir: „Heimilisiðnaðarfélagið hefur unnið mikið og ötult starf við að halda til haga og miðla  íslensku handverki„

Síðast en ekki síst þá voru úrslit kynnt úr keppninni um best prýdda póstkassa Eyjafjarðarsveitar 2013 en það var póstkassinn á Hvassafelli sem hlaut þau verðlaun.

Enn gefst tækifæri til að skoða þessa miklu sýningu hönnunar og handverks en sýningunni lýkur kl. 17 í dag.

Hér má sjá myndir af vinningshöfum og stemmningunni um helgina en fleiri myndir má sjá á vef Handverkshátíðarinnar
Best prýddi póstkassi Eyjafjarðarsveitar 2013 er póstkassinn á Hvassafelli Halldóra hlaut hönnunarverðlaun hátíðarinnar Góð stemmning á veitingatorginu Þjóðháttafélagið Handraðinn Heimilisiðnaðarfélagið hlaut heiðursverðlaun hátíðarinnar Tískusýning frá Spunadís Gestir una sér við að skoða handverkið Kjólar frá Helenu kjólaklæðskera Tískusýning Húsdýrasvæðið Kálfasýning Mikill fólksfjöldi mætti á hátíðina um helgina Börnin fengu að fara á hestbak Bílaklúbbur Akureyrar sýnir bíla Grétar Þór Pálsson var valinn handverksmaður hátíðarinnar

Kári Steinn Karlsson sigraði Jökulárshlaupið

$
0
0
Hlaupið við Hljóðakletta. Mynd af vef Jökulsárhlaups

Hlaupið við Hljóðakletta. Mynd af vef Jökulsárhlaups

Hið árlega Jökulsárhlaup var haldið í 10. sinn um helgina og boðið var upp á ýmsar vegalengdir fyrir hlaupara. Flestir hlaupa lengstu leiðina, eða frá Dettifoss að Ásbyrgi. Það voru alls 220 keppendur skráðir til leiks.

Alls eru 32,7 kílómetrar á milli Dettifoss og Ásbyrgis en það tók Kára Stein ekki nema 2 klukkustundir, 3 mínútur og 57 sekúndur að hlaupa það. Það er brautarmet enn Kári er einn fremsti hlaupari Íslands og tók m.a. þátt á Ólympíuleikunum í London síðasta sumar.

Gríðarlega góð stemming var meðal hlaupara og voru t.d. tveir hlauparar sem hafa hlaupið öll 10 árin. Það eru þeir Kristján Halldórsson og Stígur Zoëga.

Heldur hugleiðsla okkur ungum og heilbrigðum?

$
0
0
Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir

Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir

Margar frásagnir eru til af jógum sem hafa náð háum aldri án þess að bera merki um þennan mikla aldur utan á sér. Enn fleiri eru til um fólk sem finnur nýjan lífsþrótt af því að gera jóga og hugleiðslu. En heldur hugleiðsla og jóga okkur ungum í raun og veru? Hvað er það sem gerist í líkamanum þegar við hugleiðum og getur það td. haft áhrif á húðina og líkamann?

Prófessor í Harvard að nafni Dr. Herbert Benson MD. hefur rannsakað hugleiðslur og slökun á síðustu áratugum. Meðal þess sem kom í ljós í þeim var að magn streituhormónsins kortisól minnkar við hugleiðsluiðkun. Hormónin melotónin og serotónin mældust hins vegar í auknu magni eftir hugleiðsluiðkun, en í stuttu máli eru þau okkur mikilvæg fyrir daglega vellíðan. Mikið magn kortisóls í líkamanum eykur hættu á Alzheimer, hjartasjúkdómum, þunglyndi og kvíða. Að hafa of mikið magn kortisóls í líkamanum í langan tíma hefur ekki góð áhrif á hormónakerfið né heilann.

Læknirinn og Kundalini jógakennaranum Dr. Dharma Singh Khalsa skrifaði bókina Meditation as Medicine. Í henni segir að þegar við eruð stressuð þá er líkt og heilinn sé í sýrubaði af því mikla magni kortisóls sem er innan líkamans. Það hefur td. bein áhrif á minnið okkar og hefur áhrif á frumur á Drekasvæði sem varðveita minningar. Hugleiðsluiðkun snýr þessu hins vegar við og bætir minnið skv. rannsókn sem Dr. Dharma gerði sjálfur en hann hefur unnið mikið með fólki með Alzheimer.

Í einni rannsókn Dr. Bensons sem gerð var á 45 ára körlum og konum kom í ljós að hormónið DHEA (dehydroepiandrosterone) mældist í auknu mæli hjá þeim sem hugleiddu en þeim sem hugleiddu ekki. Það var 23 % meira hjá körlum og 47 % meira hjá konum sem hugleiddu. Þetta hormón hjálpar okkur að viðhalda æskunni. Það hjálpar okkur til dæmis að minnka streitu, viðhalda teygjanleika húðar, hafa stjórn á líkamsþyngd og bætir minnið. Hugleiðsla er einnig það eina sem vitað er um að geti lækkað blóðlaktósa en hann mælist hár í fólki sem upplifir mikla streitu og kvíða.

Þessar niðurstöður segja með sanni að með reglulegri hugleiðsluiðkun getum við því haft góð áhrif á daglega vellíðan.

Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir
Kundalini jógakennari og jógískur ráðgjafi og höfundur hugleiðslubókarinnar Hin sanna náttúra.
www.graenilotusinn.is

Um okkur druslurnar

$
0
0
Silja og Tinna í Druslugöngunni 2013

Silja og Tinna í Druslugöngunni á Akureyri 2013

Við erum báðar bölvaðir slúðrarar og viðurkennum það af fúsum og frjálsum vilja. Við förum oft með rangt mál og dæmum aðra í kringum okkur á einhverjum gróusögum og pískri. Eitt sem við gerðum (en teljum okkur nú vera búnar að gefa upp á bátinn) var að dæma kynsystur okkar útfrá þeim karlmönnum sem þær hafa kosið að sofa hjá. Einu sinni gerðum við það og notuðum orðið „drusla“ óspart. Svo lærðum við af mistökum okkar, fórum að hugsa út fyrir rammann, öðluðumst gagnrýna hugsun og fórum að velta því fyrir okkur – hvað er að vera drusla?

Við höfum alltaf staðið frammi fyrir þeirri ömurlegu tvífeldni í samfélaginu að ef karlmaður á marga bólfélaga að baki er hann sigurvegari, hann er mikils metinn og oftar en ekki upphafður sem einhver Don Juan hópsins. Hafi stelpur hinsvegar stundað hið sama eru þær dæmdar druslur, ódýrar og tilkippilegar mellur sem hægt er að ganga um eins og almenningssalerni. Skemmtileg dæmi um þessa drusluskömmun og tvífeldna kynlífsmenningu nútímans eru orðin sem við notum um kynfæri hvors annars. Jújú, það eru þessi venjulegu, typpi og píka en ef við förum aðeins ofan í kjölinn á viðurnefnum fyrir litla vininn og vinkonuna fáum við út að typpin fá yfirleitt tignarlegri og reisulegri nöfn eins og reður, limur, herramaðurinn, hrókurinn en píkurnar okkar fá orðskrípi eins og tussa, rotta eða almannagjá. Finnst ykkur þetta ekki tímaskekkja?

Þetta hefur okkur alla tíð fundist fáránlegt. Af hverju á kona að skammast sín eða afsaka sig fyrir að hafa sofið hjá þeim sem hún hefur sofið hjá – hvort sem þeir eru fimm eða fimmtíu? Kannski hafa sumar konur bara sterkari kynhvöt en aðrar, hafa aldrei verið í eða aldrei langað að vera í föstu sambandi eða kannski langar sumar konur bara að njóta kynlífsins í öllu sínu veldi með hverjum þeim sem lítur á þær hýru auga. Og hvað með það?

Nú komum við aftur að þeim grundvallarpunkti að ekkert sem við gerum sem einstaklingar kemur neinum við svo sem. Það kemur engum við hvað við borðum, hvernig við klæðum okkur eða hverjum við sofum hjá – nema okkur sjálfum.

Eru það ekki bara grundvallarréttindi okkar sem ungar, sjálfstæðar konur (og feministar í þokkabót) að fá að ríða þeim sem við viljum ríða? Er það ekki algjörlega okkar mál hverjum við hleypum uppá okkur, undir hvaða kringumstæðum og er það ekki okkar að takast á við afleiðingarnar af því? Við erum ekki að ýta undir neitt svall og saurlífi (öryggið á oddinn og allt það) en hugsum aðeins okkar gang.
Af hverju fá karlmennirnir alltaf bestu bitana, af hverju mega þeir sofa hjá öllum stelpunum inni á baði á B5 án þess að hljóta neinar skammir og verða jafnvel lofaðir fyrir það á meðan við stelpurnar sitjum með sárt ennið, ónýta samvisku og hundrað afsakanir á reiðum höndum eftir einnar nætur gaman með gömlum vin?

Allt snýst þetta um gott kynheilbrigði. Kynheilbrigði snýst ekki um að stunda bara kynlíf með maka. Kynheilbrigði snýst ekki um að hafa töluna þína sem lægsta. Kynheilbrigði fólks snýst um að stunda það kynlíf sem það vill, með aðila sem vill stunda kynlíf með manni, og gera það með viðeigandi vörnum. Það er ekki óheilbrigði að sofa hjá 100 strákum eða 100 stelpum, það er val hvers og eins. Það er hægt að velja að vera á lausu og sofa hjá svo til ókunnugu fólki. Það er líka hægt að velja að stunda bara kynlíf í samböndum með aðila sem maður þekkir og treystir. Hver og einn verður að finna sinn veg og standa við sína sannfæringu.

 Það er leiðinlegt þegar stelpur dæma sjálfar sig eftir fjölda stráka sem þær hafa sofið hjá. Við höfum heyrt stelpur tala um að þær séu komnar upp í x tölu og vilji helst ekki að hún fari hærra. Hvern fjandann skiptir þessi tala máli? Það þarf enginn að vita þetta nema stelpan sjálf ef henni svo sýnist. Ef þú vilt ekki stunda einnar nætur gaman þá gerir þú það ekki. Ef þú vilt ekki sofa hjá hverja helgi, þá gerir þú það ekki. Það hefur enga merkingu nema þá að þín sannfæring fyrir þitt kynlíf er svona og hinsegin. Ef við gefum okkur að talan sé x há vegna kynlífs þar sem allir aðilar voru samþykkir, hvað er þá vandamálið?

Hafið þið einhverntímann heyrt karlmenn dæma sjálfa sig út frá þeim fjölda stelpna sem þeir hafa sofið hjá? Er þessu ekki gjörsamlega öfugt farið í þeirra samfélagi? Myndi strákur sem hefur sofið hjá 5 stelpum kannski skammast sín í kringum gaurana sem státa sig af þriggja stafa tölunni?

Með þessum pælingum erum við þó ekki að hvetja fólk til óeðlilegs kynheilbrigðis. Mergur málsins er að ef allir aðilar eru samþykkir, tilbúnir og meðtækilegir þá ætti ekki að vera neitt vandamál, engin skömm eða dómur heldur bara kynlíf í allri sinni dýrð.

Vissulega nota margir kynlíf sem einhverskonar vörn. Vörn gegn sínum eigin tilfinningum, kannski til að fylla upp í eitthvað tómarúm. Það er ekki kynheilbrigði. Það er vandamál sem þarf að koma í veg fyrir með almennilegri kennslu um kynlíf. Það þarf að kenna kynheilbrigði strax í grunnskóla. Það þýðir ekkert að loka augunum á það að ungt fólk stundar kynlíf, af því að ungt fólk stundar kynlíf. Það er staðreynd. Það má aftur á móti kenna þessu unga fólki að stunda ábyrgt kynlíf svo það geti fundið sinn rétta veg og gert það af réttum ástæðum, hverjar sem þær kunna að vera.

Að stunda kynlíf er okkur eðlislægt, okkur bæði til skemmtunar og æxlunar. Fólk getur vissulega verið með mismikla kynhvöt, haft ólíkar skoðanir og siðferði en kynlíf á ekki að vera böl. Kynlíf á að vera frelsandi, eitthvað gott til að njóta með manneskjunni sem er með þér hvort sem ást er í spilinu eða um er að ræða einnar nætur gaman eftir góðan sleik við barinn. Hvorki konur né karlar ættu að neyða sjálfa sig eða hvort annað til kynlífs. Enginn á að nauðga og enginn á að dæma fólkið í kringum sig fyrir hvernig hver og einn kýs að njóta kynlífs.

Við þurfum öll að hætta að dæma hvort annað vegna kynhegðunar okkar.

Ef við stöndum með sjálfum okkur, okkar eigin sannfæringu og treystum sjálfum okkur getum við sofið hjá hverjum sem er. Kannski hefðum við átt að sleppa því, kannski var það ekki gott kynlíf eða kannski var aðilinn ekki sá myndarlegasti í bransanum – en hey, hverjum er ekki sama? Af hverju ert þú að dæma mig?

Það var hans riddari sem reið inn í mína Almannagjá svo þetta er ekki þitt vandamál.

Silja Björk og Tinna

Pistillinn birtist áður á vefritinu Freyjur

Tvö óhöpp í Öxnadal í nótt

$
0
0
Lögreglubíll. Mynd úr safni

Lögreglubíll. Mynd úr safni

Upp úr kl. 1 í nótt lenti flutningabíll með tengivagn í óhappi rétt við bæinn Steinsstaði í Öxnadalnum. Flutningabíllinn var að mæta öðrum bíl og vék út í kantinn með þeim afleiðingum að tengivagninn fór út af en bílstjórinn náði að halda bílnum sjálfum inni á veginum. Engann sakaði.

Stuttu síðar, eða um tvö leytið velti ökumaður bíl sínum á Öxnadalsheiði. Ökumaður, sem var einn í bílnum, var fluttur á slysadeild en er ekki talinn  alvarlega slasaður.


Einn sá allra besti Fiskidagur frá upphafi

$
0
0

Í 13. sinn var fiskidagurinn mikli haldinn hátíðlegur á Dalvík um helgina í mildu og góðu veðri. „Það er mál manna að þetta hafi verið einn sá allra besti Fiskidagurinn mikli frá upphafi og öll umferð og samskipti fólks gengu mjög vel,“ segir Júlíus Júlíusson framkvæmdastjóri hátíðarinnar.

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að reiknað sé með að um 26 þúsund manns hafi sótt Dalvík heim um helgina sem er sami fjöldi og í fyrra en þess má geta að veðurspáin var verri þetta árið. Alls fóru tæplega 15 þúsund bifreiðar um teljara á Hámundastaðahálsi, sunnan við Dalvík, og rúmlega 5 þúsund bifreiðar um veðurstöð í Múla, norðan við Dalvík, í báðar áttir þessa daga. Frá því að talningar Vegagerðarinnar hófust á Hámundastaðahálsi er áætlað að flestar heimsóknir hafi átt sér stað árin 2009 og 2010, eða  um og yfir 30 þúsund manns, hvort ár.

Kristjánsbúrið vígt
Svokallað Kristjánsbúr var vígt og afhent löndunarfyrirtækinu Valeska ehf. Búrið er fyrsta vottaða löndunarbúrið og er notað við löndun úr fiskikörum. Það er grind sem hangir í kranavír og eru fiskikörin sett í grindina og þannig hífð upp úr fiskilestinni. Öryggisgrindin kemur í veg fyrir að körin getið losnað og fallið niður við löndun. Kristjánsbúrið er nefnt í höfuðið á Dalvíkingnum Kristjáni Guðmundssyni sem slasaðist mjög alvarlega þegar hann varð undir þungum fiskikörum við löndun á Dalvík fyrir tveimur árum en hann hefur náð ótrúlegum bata. Vélsmiðjan Hamar  ehf. hefur í samvinnu við Valeska og Samherja þróað og smíðað búrið og hefur sótt um einkaleyfi á hugmyndinni. Um helgina gengu Hamar og Promens Dalvík frá samningi um að síðarnefndi aðilinn myndi sjá um sölumál um allan heim.

Fiskidagshelgin fór vel fram
Fiskidagshelgin hófst sl. föstudag með dagskrá í kirkjubrekkunni sem er nokkurskonar setningarathöfn fyrir Fiskidaginn mikla. Þar áttu Dalvíkingar og gestir hlýja og notalega stund í Vináttukeðjunni þar sem að staldrað var við og hugað að vináttunni og náungakærleikanum. Þar var flutt tónlist, séra Agnes M. Sigurðardóttir flutti vinátturæðuna og heimamenn færðu gestum fléttuð vináttuarmbönd, friðadúfublöðrum dreift og innilegt fjöldaknús lagði línurnar fyrir helgina.

Á föstudagskvöldið buðu um 130 fjölskyldur í Dalvíkurbyggð upp á fiskisúpu og vinalegheit. Hver sá sem bauð uppá súpu var með sína uppskrift. Um 19.000 manns voru á röltinu þetta kvöld og nutu gestrisni heimamanna að sögn Júlíusar sem segir það hafa verið þægilegan fjölda, gott að ganga um og stemmninguna hafa verið einstaka og ljúfa í veðurblíðunni.

Um það bil 100.000 matarskammtar runnu ljúflega ofan í gesti Fiskidagsins mikla á laugardeginum.  Í boði var fjölbreyttur matseðill m.a gráðostarækjusalat, bleikja í ananaskarrýsósu, þorskur í sinnepshvítlaukssósu, fiskborgarar, síld og rúgbrauð, sasimi, plokkfiskur, harðfiskur, saltfiskpítsur og margt fleira. Met var slegið þegar náðist að baka 16 stykki af 120 tommu saltfiskpitsum. Skipulag á matarstöðvunum gekk mjög vel og nóg var til. Fjölbreytt dagskrá var á sviði og hátíðarsvæðinu allan daginn þar sem um 130 manns komu fram á sviðinu. Á hátíðarsvæðinu bar margt á góma, fornbílasýning, kajakasiglingar,  skemmtisiglingar, bátar til sýnis, andlitsmálun, fiskifléttur, teikniverkefni fyrir börnin, myndasýningar, þjóðdansar, söng og leikhópar sungu og léku og fleira. Fiskasýningin var á sínum stað þar sem að um 200 tegundir af ferskum fiski eru sýndir.

Fiskidagurinn mikli færir Samhjálp mat.
Fiskidagurinn mikli hefur  fært kaffistofu Samhjálpar myndarlega matarskammta eftir hátíðina. Gestir kaffistofunnar, sem eru á bilinu 100 – 200 á hverjum degi, fá þar með að njóta frábærra fiskrétta úr úrvals hráefni. Landflutningar Samskip flytja matinn frítt til Reykjavíkur.

Ógleymanleg kvöldstund sem fer í sögubækurnar.
Hátíðinni lauk svo með kvölddagskrá í boði Samherja í tilefni af 30 ára afmæli fyrirtækisins. Boðið var uppá Freddi Mercury Showið með heimamennina Friðrik Ómar, Matta Matt og Eyþór Inga í fararbroddi og stórglæsilega flugeldasýningu í umsjón Björgunarsveitarinnar á Dalvík. Talið er að að minnsta kosti 25.000 manns hafi verið á tónleikunum „og aldrei í sögu Dalvíkur hafa jafnmargir verið samankomnir á einum og sama staðnum,“ segir Júlíus. „Þetta var einstaklega flott dagskrá, ánægja gestanna mikil og fólk á öllum aldri skemmti sér saman og allt fór afar vel fram og umgengni til mikillir fyrirmyndar.“

Hér má sjá myndir frá stemmningunni á Fiskideginum mikla sem Helgi Steinar Halldórsson tók.

HSH_0969 IMG_6716-002 HSH_1423 HSH_1371 HSH_0933 HSH_0824

Hús vikunnar: Alaska, Strandgata 25.

$
0
0
Alaska - Strandgata 25. Þessi mynd er tekin 15.júlí 2013.

Alaska – Strandgata 25. Þessi mynd er tekin 15.júlí 2013.

Síðast var ég staddur í Fróðasundi en nú færi ég mig yfir í Strandgötu að valinkunnu húsi sem margir Akureyringar (og kannski sérstaklega Oddeyringar) kannast vel við undir nafninu Alaska.

Að venju stikla ég aðeins á stóru um sögu hússins en þeim sem kunna að hafa frá einhverju að segja varðandi sögu hússins eða íbúa þess er að sjálfsögðu velkomið að deila því hér á athugasemdakerfið.

Á þessa lóð var fyrst sett hús árið 1875 og ég segi sett en ekki byggt því það var flutt hingað. Var það maður að nafni Kristján Sigurðsson sem stóð fyrir því en þar var um að ræða lítið einlyft timburhús. Var húsið flutt innan úr Fjöru, nánar tiltekið af Aðalstræti 76, og mun húsið hafa verið dregið á ís yfir Pollinn! En upprunalega húsið var byggt 1857 og í því húsi fæddist skáldið og Vesturfarinn Kristján Níels Jónsson eða Káinn 7.apríl 1860. En í húsinu var rekin greiðasala og síðar verslun sem kölluð var Alaska. Það nafn fluttist svo yfir á núverandi hús.

En húsið sem nú stendur við Strandgötu 25 reisti Sigvaldi Þorsteinsson árið 1914. Það var í upphafi einlyft steinsteypuhús með lágu risi á lágum grunni en nokkuð breitt miðað við lengd. Húsið hefur tekið miklum breytingum frá upphaflegri gerð. Árið 1931 var húsið hækkað um eina hæð og fékk þá það lag sem það hefur nú en byggt var við norðurhlið hússins um 1940 og árið 1961 var byggt við húsið til vesturs.

Nú er húsið tvílyft með flötu þaki og með stórum og miklum gluggum á efri hæð en búðargluggar eru á jarðhæð enda hefur húsið verið verslunarhús frá upphafi. Kaupfélag Eyfirðinga var lengi vel með verslunarrekstur þarna en auk þess hefur ýmis starfsemi verið í húsinu á þessari tæpu öld frá því húsið reis.

Um tíma var neðri hæðin tvískipt og á síðustu árum 20.aldar og fram til 2002 var afgreiðsla DV í austurhlutanum. Mín fyrsta atvinna var einmitt að bera út DV í Miðbænum og á Eyrinni og var ég í húsinu 1998-2003 og þá var afgreiðsla DV hér. Þarna fór undirritaður hver mánaðamót og sótti kvittanaheftin og fór að rukka og skilaði af sér og fékk útborgað -beint í vasann í seðlum! Þetta innheimtu- og greiðsluform lagðist af á mínum tíma þarna -að mig minnir áramótin 2001-2. Nú er starfrækt í húsinu hljóðfæraverslunin Tónastöðin á allri neðri hæð og búið á efri hæð en þar er ein íbúð.

Arnór Bliki Hallmundsson

Heimildir:
Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson (1995). Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri.
Steindór Steindórsson (1993). Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur.

 

Bílvelta á Svalbarðsströnd

$
0
0
Lögreglubíll. Mynd úr safni

Lögreglubíll. Mynd úr safni

Rétt fyrir kl. 16 í dag var tilkynnt um að bíll hefði oltið við Sveinbjarnargerði á Svalbarðsströnd. Að sögn varðstjóra lögreglunnar á Akureyri voru þrír bílar í röð á leið í norðurátt þegar sá fyrsti hægði á sér til að beygja upp á afleggjarann við Sveinbjarnargerði og sveigði þá næsti bíll yfir á hinn vegarhelminginn, hugsanlega til að forðast aftanákeyrslu en náði ekki að sveigja nógu langt og rakst í fyrri bílinn og fór svo alveg yfir í kantinn að vestanverðu og út af þar. Bíllinn fór nokkrar veltur en ekki leit út fyrir að bílstjórinn, sem var einn í bílnum, væri mikið slasaður, hann þurfti þó aðstoð við að komast út úr bílnum og var fluttur á slysadeild.

Mikil slysaalda hefur verið á landinu síðustu tvær vikurnar og er þetta fjórða umferðaróhappið í grennd við Akureyri á aðeins tveimur dögum. Varðstjórinn segir lögregluna þó alls ekki merkja aukinn hraðakstur við hraðamælingar á þjóðvegum og segir mikinn mun hafa orðið á mælingum síðan fyrir nokkrum árum þegar algengt var að tugur ökumanna væru mældir á of miklum hraða á stuttum tíma.

-SBS

Stórt leikár framundan hjá LA

$
0
0
Undirbúningur á fyrsta verkefni leikársins er kominn á fullt, hér sitja saman leikarar, leikstjóri, handritshöfundur og aðrir sem að sýningunni koma og ræða verkið

Undirbúningur á fyrsta verkefni leikársins er kominn á fullt, hér sitja saman leikarar, leikstjóri, handritshöfundur og aðrir sem að sýningunni koma og ræða verkið Sek

Á komandi leikári heldur Leikfélag Akureyrar upp á 40 ára starfsafmæli sem atvinnuleikhús en það var á stjórnarfundi þann 8. september 1973 sem ákvörðun var tekin um þessa breytingu. Atvinnuleikhúsið stóð þá þegar á traustum grunni áhugaleikhússins sem stofnað var 1917 en það var árið 1907 sem fyrsta leiksýningin var sett á fjalir Samkomuhússins. Blaðamaður Akureyrar vikublaðs hitti Ragnheiði Skúladóttur leikhússtjóra til að forvitnast um sýningar vetrarins.

„Þetta er auðvitað stórafmæli hjá okkur svo leikárið tekur svolítið mið af því og við leitum til leikara sem stofnuðu atvinnuleikhúsið á sínum tíma og fáum til liðs við okkur þau Þráinn Karlsson og Sögu Jónsdóttur. Auk þess koma fleiri kempur sem starfað hafa hjá LA við sögu,“ segir Ragnheiður.

Á dagskrá vetrarins eru fjögur verk auk þess sem gestasýningar og listamenn í vinnustofum munu sjá til þess að Akureyringar geta notið leiklistar af fullum krafti í vetur og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Ingibjörg Huld Haraldsdóttir, leikstjóri, og Hrafnhildur Hagalín höfundur verksins Sek kryfja verkið ásamt leikurum

Ingibjörg Huld Haraldsdóttir, leikstjóri, og Hrafnhildur Hagalín höfundur verksins Sek kryfja verkið ásamt leikurum og fleirum

Gamalt dómsmál frá Melrakkasléttu rifjað upp
„Fyrsta verkið sem við setjum upp á þessu leikári heitir Sek og er alveg magnað verk sem Hrafnhildur Hagalín samdi fyrir okkur. Það byggir á gömlu dómsmáli og atburðum sem áttu sér stað á Melrakkasléttu árið 1836. Hrafnhildur notar þetta gamla dómsmál og tekur hluta textans beint upp úr því, það er alveg magnað hvernig henni hefur tekist að fanga náttúruna og einangrunina inn í texta verksins. Málið snýst um annars vegar hjúskaparbrot og hins vegar kynferðisbrot gegn barni og þó þetta sé svona gamalt tekst Hrafnhildi að tala til nútímans og fær mann til að spyrja sig hversu mikið hafi í raun og veru breyst síðan þá. Þetta verk verður frumsýnt 4. október. Í verkinu leika okkar þrír fastráðnu leikrarar, þau Aðalbjörg Árnadóttir, Hannes Óli Ágústsson og Hilmir Jensson en auk þeirra fáum við til liðs við okkur unga stúlku sem við erum að leita að þessa dagana og svo Þráinn Karlsson sem er Akureyringum góðkunnur. Það er Ingibjörg Huld Haraldsdóttir sem leikstýrir verkinu en hún verður okkar fastráðni leikstjóri í vetur og mun leikstýra öðru verki ásamt því að vera aðstoðarleikstjóri í því þriðja.“

Gullna hliðið verður afmælissýningin
„17. janúar 2014 ætlum við svo að frumsýna afmælissýninguna okkar en það er verkið Gullna hliðið sem flestir íslendingar, sérstaklega Akureyringar, þekkja því það er jú eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Það er Egill Heiðar Anton Pálsson sem leikstýrir því en hann setti upp  Leigumorðingjann hjá okkur síðasta vetur. Þetta er hugmynd sem fæddist hjá okkur Agli í fyrra þegar við vorum að skoða gamla mynd sem var tekin þegar Gullna hliðið var sett hér upp árið 1944. Þá hugsuðum við með okkur að það væri orðið tímabært að setja verkið upp aftur og það væri vel við hæfi að gera það á þessum tímamótum leikfélagsins. Við verðum trú Davíð og upprunalegum texta verksins en vinnum auðvitað með það á okkar hátt. Það er nefninlega hægt að líta á verkið frá ótal mörgum hliðum svo það má búast við að þetta verði mjög skemmtileg sýning. María Pálsdóttir leikkona verður með okkur í þeirri sýningu auk fleiri gestaleikara en það eru 20 hlutverk í Gullna hliðinu svo við þurfum margar auka hendur við það. Þetta verður stóra sýningin okkar í vetur“.

Saga Jónsdóttir og Sunna Borg leika aftur saman
„Þriðja verkið heitir Lísa og Lísa sem Jón Gunnar Þórðarson leikstýrir. Verkið er eftir ungt írskt leikskáld Amy Conroy og þetta er í fyrsta skiptið sem þetta verk er sett upp fyrir utan hennan eigin leikhóp sem heitir HotforTheatre þar sem hún lék sjálf í verkinu sem fór mikla sigurför um hinn enskumælandi heim, bæði í Bandaríkjunum og Ástralíu og svo auðvitað Bretlandseyjum. Þetta er alveg yndislegt verk, mér finnst Írarnir alltaf tala svolítið til okkar Íslendinga, við erum oft á sömu nótum. Leikritið fjallar um tvær eldri konur sem eru að opinbera sitt samband eftir að hafa búið saman í 30 ár. Þetta er alveg yndislega hjartnæm saga þar sem maður brosir hringinn með tár á hvarmi. Það eru Saga Jónsdóttir og Sunna Borg sem leika dömurnar tvær og Karl Ágúst Úlfsson hefur tekið að sér að þýða og staðfæra verkið. Ég hlakka mikið til að sjá þetta því ég held að þær Saga og Sunna eigi eftir að gera þetta alveg frábærlega. Verkið verður frumsýnt á Valentínusardaginn, 14. febrúar 2014, og verður sýnt í Rýminu“.

Barnaleikrit á ferðalagi
„Svo er það fjórða verkið okkar. Við hugsum nefninlega stórt á þessu afmælisári. Það er barnaverkið Skemmtilegt er myrkrið sem hópurinn mun setja saman. Efniviðurinn er Eyfirskar drauga- og þjóðsögur. Við vorum svo ánægð með útkomuna á Ef ég væri jólasveinn í fyrra, sem var nú unnið svolítið á handahlaupum en við ætlum okkur meiri tíma næsta vor, undir leiðsögn Ingibjargar Huldar. Verkið verður þannig úr garði gert að það geti ferðast, svo við munum geta skellt okkur upp í bílinn okkar og farið á ferðalag um nágrennið. Við hlökkum mikið til þess“.

Ragnheiður Skúladóttir leikstjóri lítur með tilhlökkun til komandi leikárs

Ragnheiður Skúladóttir leikhússtjóri lítur með tilhlökkun til komandi leikárs

Opna leikárið með gestasýningu
„Fyrir utan þessi fjögur verk sem við setjum upp í vetur verða gestasýningar og aðrar uppákomur í húsinu. Við byrjum leikárið strax fyrstu helgina í september á því að sýna verkið Blakkát eftir Björk Jakobsdóttur. Við ætlum að gera þá breytingu að sýna sumar gestasýningarnar oftar en bara eina helgi og Björk verður hjá okkur í þrjár helgar í september og sýnir þá sex sýningar, jafnvel fleiri. Það hefur nefninlega oft brunnið við að fólk hefur ætlað að sjá gestasýningu en missir af henni því þær hafa oft verið sýndar bara eina helgi. Verkið Blakkát naut mikilla vinsælda fyrir sunnan og var uppselt á á þriðja tug sýninga. Björk er auðvitað ein af okkar aðal grínleikkonum og hún er þarna ásamt Hirti Jóhanni Jónssyni og Magnúsi Guðmundssyni leikurum en verkið fjallar um konu á miðjum aldri, ráðuneytisstjóra, sem vaknar á hótelherbergi á Hótel Örk eftir árshátíð sem átti sér stað í Reykjavík. Hún reynir að átta sig á því hvað gerst hafi. Þetta er gamanleikur og upplagt fyrir hópa að drífa sig í leikhúsið og hlæja saman. Það er þó alvarlegur undirtónn í verkinu, því það fjallar um alkóhólisma en stundum fellur vel að tala um alvarlega hluti á gamansaman hátt og mér finnst Björk hafa tekist einstaklega vel til í þessu verki. Þannig að við opnum veturinn á því og reyndar sömu helgi verður verkið Segðu mér satt, eftir Hávar Sigurjónsson í uppsetningu Heiðars Sumarliðasonar, sem verður reyndar bara sýnt eitt kvöld. Sú sýning var sett upp í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu í fyrra“.

Námskeið fyrir foreldra og börn í nútímadansi
„Í desember fáum við svo til okkar yndislegt verk, Dansaðu fyrir mig. Það eru Ármann Einarsson og Brogan Davison, en þau sýndu verkið einu sinni í Hofi sl. vetur. Þetta er alveg dásamlegt verk um tónlistarskólastjórann Ármann Einarsson sem hefur alið með sér þann draum í langan tíma að læra nútímadans og dansa á sýningu, hann hafði sem himinn höndum tekið þegar hann eignaðist tengdadóttur sem er danshöfundur en það er einmitt Brogan Davison og hún semur þetta verk fyrir hann. Þetta er einlæg og hugrökk  sem verður á dagskrá  alþjóðlegu leiklistarhátíðarinnar Lókal í Reykjavík í lok mánaðarins og svo er búið að bjóða þeim til Ástralíu, á leiklistarhátíðina You are Here í Canberra í Ástralíu, og svo ætla þau að koma aftur hingað norður um miðjan desember og sýna tvær sýningar. Þau ætla líka að vera hér með námskeið fyrir foreldra og börn í nútímadansi. Það sem er skemmtilegt við þetta verk er að það þróast, því Ármann verður alltaf betri og betri dansari svo hann þarf alltaf að fá meiri ögrun. Þetta er því algjörlega lifandi verk, sem verður annað verk hér í desember heldur en það var sl. vor“.

Tvö barnaverk í vetur
„Síðan er það verið Hættuför í Huliðsdal, með leikhópnum Soðið svið. Þetta er nýtt verk eftir Sölku Guðmundsdóttur, sem verður frumsýnt í haust í Reykjavík. Tvö af okkar fastráðnu leikurum, þau Aðalbjörg og Hannes, leika einmitt í því verki líka. Þetta er sami hópur og setti upp verkið Súldarsker sem var sýnt hér í fyrra en þetta er mjög spennandi barnaverk og verður sýnt hér a.m.k. þrjár helgar næsta vor. Þannig að við bjóðum upp á tvö barnaverk og það finnst okkur mjög gaman“.

Vinnustofurnar vinsælar
„Við verðum auðvitað áfram með vinnustofurnar. Þær hafa spurst út fyrir landsteinana og við erum að fá Sam Haren leikstjóra frá Ástralíu, sem er mjög þekktur þar úti en hann fékk styrk frá ástralska ríkinu til að koma hingað og dvelja í einn mánuð.  Hann er mjög áhugasamur um unglingamenningu og hefur unnið mikið með börnum og unglingum og ætlar að vinna með eldri hópnum í leiklistarskólanum okkar og það verður frábært að fá svona öflugan utanaðkomandi aðila til að vinna með þeim. Leiklistarskólinn verður auðvitað í fullu fjöri og Þórhildur Örvarsdóttir söngkona og Ásta Sighvats Ólafsdóttir leikkona sjá um hann eins og í fyrra og síðan koma okkar leikarar eitthvað að honum“.

„Atli Viðar Engilbertsson, listamaður Listar án landamæra 2013 ætlar að vera á gestavinnustofu með okkur og verður eitt kvöld í lok þeirrar vinnustofu helgað verkunum hans. Hann hefur skrifað mikið af leiktextum og svo hefur hann samið tónlist auk þess að vera myndlistarmaður eins og allir þekkja. Hann mun vinna með leikurunum okkar“.

„Jóhanna Vala Höskuldsdóttir kemur svo til okkar með lokaverkefnið sitt sem var Skemmtikvöld fyrir karla, sem var sýnt í Þjóðleikhúskjallaranum sl. vor. Hún ætlar að vinna það með körlum hér úr nágrenninu“.

„Við munum sviðsetja leiklestur á verkum Heklu Bjargar Helgadóttu og svo kemur líklega til okkar hann Arnþór Þórsteinsson sem hefur verið með kvikmyndahátíðina Ræmuna á Laugum. Hann er í verkefninu Aftur heim  sem Eyþing stendur að og gengur út á að fá listamenn til að koma aftur á heimaslóðir og vinna. Hann ætlar semsagt að koma aftur hingað á heimaslóðir og vinna með krökkunum í leiklistarskólanum“.

Útvarpsleikrit um Davíð Stefánsson
„Svo er enn eitt spennandi verkefnið hjá okkur, sem er samvinna við Útvarpsleikhúsið og Minjasafnið á Akureyri. Það er glænýtt verk eftir Árna Kristjánsson um Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Davíð lést 1. mars 1964 þannig að það er 50 ára dánartíð hans 1. mars 2014 og þá verður frumflutt hljóðverk um hann í Davíðshúsi sem síðan verður páskaleikrit Ríkisútvarpsins. Viðar Eggertsson, leikstjóri Útvarpsleikhússins er náttúrulega héðan og var leikhússtjóri LA um tíma og hefur leikstýrt mikið hér. Hann setur þetta upp í útvarpsleikhúsinu með okkar leikurum og svo verður það flutt sem hljóðverk í Davíðshúsi áður en það er flutt sem páskaleikrit útvarpsins. Verkið mun svo lifa áfram sem hljóðinnsetning í Davíðshúsi“.

„Við verðum áfram í samstarfi við Sinfóníuna, með áskriftarkortin, ásamt samstarfi við fjölmargar menningarstofnanir í bænum en það samstarf var verið gríðarlega gefandi síðasta leikár og við hlökkum til að halda því áfram,“ segir Ragnheiður að lokum og telur allt vera upp talið af verkefnum sem framundan eru hjá Leikfélagi Akureyrar í vetur og greinilegt að úr nógu verður að velja fyrir leikhússgesti. Það má því draga þá ályktun að félagið hafi náð vopnum sínum á ný eftir erfitt tímabil.

-SBS

Jónas Viðar látinn

$
0
0
Jónas Viðar Sveinsson

Jónas Viðar Sveinsson

Jónas Viðar Sveinsson myndlistarmaður lést aðfararnótt síðastliðins mánudags. Jónas var 51 árs.

Jónas var vel þekktur af verkum sínum og rak lengi vel gallerí í Listagilinu en rak gallerí í bakhúsi við Laugarveginn í Reykjavík síðustu árinn. Hann stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri á árunum 1983–1987 og framhaldsnám við Accademia Di Belle Arti Di Carrara á Ítalíu 1990–1994 þar sem hann útskrifaðist með hæstu einkunn.

Jónas hefur haldið yfir 40 einkasýningar hér heima og erlendis og tekið þátt í fjölda samsýninga. Undanfarin ár hefur Jónas einkum fengist við að túlka íslenskt landslag í myndröð sem hann nefnir Portrait of Iceland og vakið hefur mikla hrifningu

Viewing all 1718 articles
Browse latest View live