Þegar sorglegir atburðir eiga sér stað í litlum bæ, þar sem margir þekkja svo marga, virðist tíminn einhvern veginn frjósa. Allt verður kyrrt og hljótt og fólk sameinast í skilningi og samkennd, orð verða óþörf. Við fáum að minnast, rifja upp og sjá fyrir okkur samverustundir og jafnvel heyra fyrir okkur samræður sem við héldum að við værum búin að gleyma. Akureyri verður aldrei söm eftir þetta slys, missirinn er einfaldlega of mikill.
Í samfélagi sem er miklu minna, í litlum hreppi þar sem allir þekkja alla, frýs tíminn jafnvel örlítið lengur. Þeir sem voru svo lánsamir að ganga í barnaskóla með góðum vini og kunningja sem nú er fallinn frá, munu finna fyrir því í dag og næstu daga að minningar frá þessum árum hellast yfir. Minningar um skólagöngu í fámennum skóla, skólaferðalög, félags- og íþróttastarf, sprell og stuð í sundlauginni, fótbolta úti á túni, árshátíðir, jólaböll og margt fleira. Allt þetta eru sameiginlegar minningar sem nú eru ljóslifandi og skýrar á meðan áfallið og sorgin eru sterk, tilfinningaflóðið er því mikið á meðan fólk er að átta sig.
Fyrir nokkrum árum missti litli hreppurinn ungan mann í slysi og það var með ólíkindum að sjá hvernig fólk snéri saman bökum, studdi hvort annað, bað fyrir ættingjum og vinum og gerði allt sem hægt var að gera til að hjálpa til og lina þjáningar. Sú lífsreynsla þjappaði íbúum saman og það verður aldrei tekið frá þeim. Fáeinum árum síðar, lá annar ungur maður úr sama hreppi og barðist fyrir lífi sínu í mjög langan tíma á meðan enginn vissi hvort hann kæmi til baka, líkurnar voru meira að segja taldar mjög litlar á tímabili. Það var einstakt kraftaverk að hann skyldi lifa, fólk er enn að þakka fyrir það í dag og mun gera það áfram. Í dag missti samfélagið ungan mann, litríkan karakter með fallegt bros og smitandi hlátur og enn á ný mun fólk þjappa sér saman og taka utan um hvort annað, á því leikur enginn vafi.
Það er vont að missa og sárt að sakna, það getur verið ljúft að ylja sér við fallegar minningar, draga fram myndir, kveikja á kertum og finna að samkenndin er allt um kring, en allt hefur sinn tíma. Þeir sem ekki eru í innsta hring fjölskyldu og vina, hvort sem um er að ræða lítinn kaupstað eða lítinn hrepp, hafa sameinast í huganum í dag til að senda frá sér strauma, bænir og kveðjur til þeirra sem urðu fyrir þessum hræðilega missi, enginn getur sett sig í þeirra spor. Þeir sem áður hafa misst ástvini, vini og kunningja eiga það hins vegar sameiginlegt að geta gefið heilmikið af sér við svona aðstæður, með því að vera til staðar og standa vaktina, í huga, hjarta og sál.
Við sem getum gefið af okkur ættum kannski haft eftirfarandi í huga: Munum að tíminn læknar ekki öll sár, munum að hver og einn syrgir á eigin hraða og á sinn hátt, munum að vera til staðar, líka þegar erfiðasti tíminn er yfirstaðinn. Munum að faðmast og veita hlýju þegar við getum, senda bréf, ljóð, blóm og fleira sem við vitum að yljar þegar fram líða stundir og þessi tími verður rifjaður upp. Síðast en ekki síst, sýnum tillitsemi með því að verða betri manneskjur en í gær, leyfum okkur að læra af lífsins dýrmætu reynslu.
Hvílið í friði drengir.
Elsku Pétur, takk fyrir brosið, hláturinn, sprellið og allt sem þú gafst okkur.
Vigdís Garðarsdóttir, skólasystir.