Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all 1718 articles
Browse latest View live

Ungir drengir frá KA halda í æfingarferð til Ungverjalands

$
0
0
Þriðji flokkur KA varð deildarmeistarar í 2. deild vorið 2013. Mynd af vef KA

Þriðji flokkur KA varð deildarmeistarar í 2. deild vorið 2013. Mynd af vef KA

Þriðji flokkur KA í handbolta mun halda í æfingarferð til Ungverjalands um komandi helgi. Þeir munu þar taka þátt í æfingarmóti alla næstu viku og fá að æfa og spila við einar bestu aðstæður heims.

Mótið heitir Cell-Cup og er þetta í fyrsta skipti sem að lið frá Akureyri tekur þátt á mótinu en ásamt KA munu HK og Fylkir  taka þátt frá Íslandi. Mótið er gríðarlega stórt í umsvifum og keppendur hlaupa á þúsundum frá allri Evrópu. KA mun spila gegn liðum frá Þýskalandi, Ungverjalandi, Slóveníu og Rússlandi í riðli sínum en alls spila KA-strákarnir sex leiki.

Haddur Júlíus Stefánsson þjálfar drengina sem eru á aldrinum 15-16 ára og eru 12 sem fara. Mótið er haldið í borginni Vezprém en það er ein mesta handboltaborg Evrópu og liðið í borginni, Vezprém, er eitt það fremsta í Evrópu. Einhverjir af leikmönnum Vezprém munu vera sýnilegir keppendum á mótinu, gefa eiginhandaráritanir og spjalla við upprennandi handboltakappa.


Birkifeti hopar – gott berjaár

$
0
0
glæsileg aðalbláber tínd í fyrra

Glæsileg aðalbláber tínd í fyrra

Horfur eru á góðri berjasprettu víða á Norðurlandi þetta árið. Berjafróðir viðmælendur blaðsins eru sammála um þetta. Hulda Magnea Jónsdóttir, kennari við Hrafnagilsskóla, telur að næturfrost sé það eina sem gæti sett góða uppskeru í hættu. „Ég held að útlitið sé mjög gott í ár,“ segir Hulda sem er annáluð fyrir berjatínslu.

Hún telur þetta eiga jafnt við um krækiber, aðalbláber og bláber. „Hér uppi í fjalli er krækilyngið svart en berin enn smá, og mikið af bláberjavísum. Ég hef ekki litið á hrútaberjamóinn frammi í firði en hef trú á að það líti vel út. Út með firði lítur vel út með aðalbláber og krækiber, birkifetinn virðist á undanhaldi, hvað veldur er ég ekki viss um en ef til vill mikil snjóalög.“

Hulda segir að enn vanti fleiri sólskinsstundir en reiknar með að í seinni hluta mánaðarins verði hægt að hefja tínslu. Það eina sem gæti ógnað góðri uppskeru sé næturfrost. Hún sé hræddari við frost frammi í Eyjafirði en síður úti með hjá Dalvík og í Þorvaldsdal.

Einu vill Hulda koma á framfæri: „Ég hef smá áhyggjur af tínslu með berjatínum, ég varð vitni að því þegar kona var með tínu rétt utan Dalvíkur s.l. haust og reitti og sleit og var ljótt að sjá lyngið á eftir. Hún hefur án efa verið að tína til að selja ber. Svona meðferð á lynginu er ekki til fyrirmyndar. Tína minna og ganga vel um náttúruna.“

Hulda er ástríðumanneskJa hvað berin varðar. Hér heldur hún á jarðarberjum

Hulda er ástríðumanneskJa hvað berin varðar. Hér heldur hún á jarðarberjum

-BÞ

Leyndarmál frumsýnt í gær

$
0
0
Hafdís Sigurðardóttir og Kristín Tómasdóttir í hlutverkum sínum á frumsýningunni

Hafdís Sigurðardóttir og Kristín Tómasdóttir í hlutverkum sínum á frumsýningunni

Leikklúbburinn Saga frumsýndi í gær verkið Leyndarmál eftir Jónínu Leósdóttur. Verkið var fyrst sýnt árið 1997 hjá Leikfélagi Fjölbrautarskólans í Breiðholti og var sýnt síðar sama ár hjá Leikfélagi Fjölbrautarskólans á Vestfjörðum og svo ári síðar hjá Leikfélagi Fjölbrautarskóla Suðurlands.

Verkið tekur á ýmsum málum ungs fólks sem er að byrja að fóta sig í lífinu og kynlífinu og höfðar því afskaplega vel til áhorfenda í yngri kantinum.

Í leikklúbbnum Sögu er fólk á aldrinum 15-25 ára og sjá þau sjálf um allt sem tengist sýningunni. Leikstjóri er Natalia Ýr og er þetta hennar fyrsta leikstjórnarverkefni.

Hafdís Sigurðardóttir leikur aðalhlutverkið í sýningunni og segir hún æfingarferlið hafa verið mjög gott. Þau hafi æft verkið frá því í maí, bæði utandyra og í Rósenborg. „Við erum mjög ánægð með þetta, við fengum góðar viðtökur á frumsýningunni í gær, það var mikið hlegið og þetta var bara æðislegt,“ segir Hafdís.

„Við völdum þetta verk því það fjallar um svo merkilega hluti og það er mjög mikilvægt að tala um þá,“ segir Hafdís aðspurð út í verkefnavalið en framundan segir hún vera þátttöku í norrænu leiklistarverkefni og hugsanlega verði sett upp jólaleikrit.

Blaðamaður fór á frumsýningu verksins í gærkvöldi og hvetur bæjarbúa, ekki síst af yngri kynslóðinni, til að drífa sig að sjá afrakstur af þessu skapandi og metnaðarfulla verkefni leikklúbbsins Sögu.

Aðeins tvær sýningar verða til viðbótar, í kvöld, fimmtudag, kl. 20:30 og annað kvöld, föstudag, kl. 19:30. Aðgangseyrir er 1.500 kr. sem greiðast þarf með reiðufé þar sem ekki er posi á staðnum.

-SBS

Hirosimabúi við kertafleytingu

$
0
0
Frá kertafleytingunni 2012. Mynd: Daníel Starrason

Frá kertafleytingunni 2012. Mynd: Daníel Starrason

Kertafleytingar friðarhreyfinganna í minningu fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Hirosima og Nagasaki verða haldnar föstudaginn 9. ágúst n.k. Á Akureyri verður athöfnin við Minjasafnstjörnina kl. 22. Ávarp flytur Taeko Osioka frá Hirosima sem er kennari og virkur friðarsinni þar í borg.

Í tilkynningu frá aðstandendum segir: „Gleymum aldrei fórnarlömbum sprengjanna fyrir 68 árum. Mótmælum jafnframt þeim hernaðaryfirgangi stórvelda sem enn viðgengst.“

Flotkerti fást á staðnum en það er samstarfshópur um frið sem stendur að viðburðinum.

-BÞ

Stýrir jarðborun í Rwanda

$
0
0
Hinrik Árni Bóasson

Hinrik Árni Bóasson

Hinrik Árni Bóasson er einn yfirmanna verkefnis í Rwanda sem snýr að jarðborun sem Afríkuríkið kaupir af Kínverjum með milligöngu íslensks hugvits. Hinrik Árni er Mývetningur og starfsmaður Kröflustöðvar til langs tíma. Hann segir aðstæður óneitanlega ögn frábrugðnar þeim jarðborunum sem fram fari hér á landi. Ekki síst vegna þess að unnið sé í 2.700 metra hæð yfir sjávarmáli þannig að starfsmenn mæðist fljótt.

Allt frekar frumstætt
„Hér er allt frekar frumstætt. Það er ekkert til í landinu til framkvæmda og mikið unnið með haka og skóflum. Allt sem ég hef séð hér er afgamalt, verkfæri sem við Íslendingar værum búnir að leggja til hliðar fyrir löngu,“ segir Hinrik Árni.
Hann segir allt ganga hægt fyrir sig á íslenskan mælikvarða. Olían á borinn komi frá Kenýa og geti verið sjö daga á leiðinni. Lögð hafi verið vatnsveita á vegarkantinum, „ef veg skyldi kalla“, 20 km. Það verk hafi tekið vel á annað ár. „Hér er ekki til steypubíll en 50 menn með skólfur.“

Spurður um húsnæði segir Hinrik Árni að allir starfsmenn búi á borplaninu. „Matur er keyrður á svæðið og Kínverjarnir hafa sinn eigin kokk. Hér er hervörður í stað girðingar sem átti að vera löngu komin en er enn ekki byrjað á. Verið er að þjálfa heimamenn til starfa sem flækir þetta verk svolítið því það eru alltof margir á hverju vinnusvæði sem skapar ákveðnar hættur á slysum. Því betur hefur þó ekkert orðið ennþá.“

Íslendingar umsvifamiklir víða
Hinrik Árni er leigður frá Mannviti til Reykjavík Gothermal sem sér um samninga og eftirlit með framkvæmdinni. Í verkinu felst að bora alls þrjár holur, allt að 3.000 m djúpar. Hinrik Árni segir Íslendinga að störfum víða um heim á jarðvarmasviðinu. Mannvit vinni þessa dagana verkefni á Filippseyjum, borun og virkjun. Jarðboranir bori þar með nýsjálenskum yfirmanni en Íslendingar sjáu um virkjunina. Íslenskir aðilar sjái einnig um stjórnun fjárfesta og ýmis járn séu í eldinum í Kenýa. „Svo er verið að skoða mál í Chile og margt fleira.“
-BÞ

Jarðborinn góði í Rwanda, fátækasta ríki heims.

Jarðborinn góði í Rwanda, fátækasta ríki heims.

Flétta saman ljósmyndum og tónlist

$
0
0
Hljómsveitin Heflarnir. Mynd: Daníel Starrason

Hljómsveitin Heflarnir. Mynd: Daníel Starrason

Ljósmyndun og tónlist verður fléttað saman í Populus Tremula um helgina þegar ljósmyndararnir Daníel Starrason og Magnús Andersen opna sýningu á ljósmyndum sem teknar hafa verið af tónlistarfólki við hinar ýmsu aðstæður. „Þarna verða tónleikamyndir, portrettmyndir, hljómsveitamyndir svo nokkuð sé nefnt,“ segir Daníel þegar blaðamaður sest niður með honum í stutt spjall.

Daníel hefur vakið athygli á Akureyri og víðar fyrir ljósmyndir sínar sem birst hafa m.a. á síðum Akureyrar vikublaðs og fleiri fjölmiðla. Hann heldur úti Facebook-síðunni Augnablik á Akureyri þar sem hann fangar stemmninguna í bænum á afar fallegan hátt þar sem hið mannlega er í öndvegi og stundum stutt í heimspekina.

Magnús Andersen er ungur en reyndur ljósmyndari en hann og Daníel stunduðu saman nám í ljósmyndun í Danmörku. Báðir hafa þeir beint linsunni mikið að tónlistarfólki undanfarin ár. Magnús kemur frá Reykjavík með myndir af hljómsveitum þaðan, m.a Agent Fresco, Retro Stefson, Boogie Trouble en á norðlenskum myndum Daníels má m.a. finna Hvanndalsbræður og Heflana. „Sumar myndirnar eru teknar fyrir auglýsingar, aðrar fyrir blöð s.s. Grapevine og enn aðrar eru teknar af tilefnislausu hreinlega,“ segir Daníel og bætir því við að nú sé gömul hugmynd þeirra félaga loks að verða að veruleika.

Sýningin opnar á laugardaginn kl. 14 og þá munu Daníel og Inga Eydal taka lagið en kl. 21 verður talið í tónleika þar sem segja má að grasrót rokksins á Akureyri láti ljós sitt skína. Þar koma fram Þorsteinn Kári, Pitenz, Buxnaskjónar, Hindurvættir og Naught. „Þetta er fágætt tækifæri til að sjá þessar hljómsveitir spila,“ segir Daníel og bendir á að Buxnaskjónar spili lítið þessa dagana þar sem einn af meðlimum hljómsveitarinnar sé nú búsettur í Berlín. „Sama má segja um Hindurvættir því meðlimirnir eru búsettir norðan lands og sunnan.“

Sýningin er opin 14-17 laugardag og sunnudag og stendur aðeins þessa einu helgi en hún verður einnig sýnd á Menningarnótt í Reykjavík þann 24. ágúst.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir sem birtast ásamt fjölmörgum öðrum á sýningunni um helgina.
-SBS

Ásgeir Trausti. Mynd: Magnús Andersen Hljómsveitin Oyama. Mynd: Magnús Andersen Hljómsveitin Grísalappalísa. Mynd: Magnús Andersen Jónas Sig. Mynd: Daníel Starrason Hljómsveitin Hjálmar. Mynd: Daníel Starrason Hljómsveitin Heflarnir. Mynd: Daníel Starrason

Stærsta matarhátíð Evrópu fram undan

$
0
0
Fiskidagurinn mikli snýst jú á endanum um hráefni og matreiðslu. Mynd: Helgi Steinar Halldórsson

Fiskidagurinn mikli snýst jú á endanum um hráefni og matreiðslu. Mynd: Helgi Steinar Halldórsson

Fiskidagurinn mikili fer fram á Dalvík um helgina. Framkvæmdastjóri er Júlíus Júlíusson eins og fyrri ár. Hann segir hátíðina stærstu fríu matarhátíð í Evrópu. „Við byggjum það á því að fyrir nokkrum árum unnum við með fulltrúa heimsmetabókar Guinness og þá kom fram að mestur mannfjöldi mældur á svona hátíð í Evrópu væri 8.000 manns. En hér höfum við farið í rúmlega 30.000,“ segir Júlíus.

Aðsókn náði hámarki á Fiskidaginn árið 2009. Júlíus reiknar með gestafjölda í ár á bilinu 20.000-30.000 manns. Hátíðin verður enn veglegri í ár en ella vegna 30 ára afmælis Samherja. Samherji býður m.a. til viðamikillar kvölddagskár sem endar með flugeldasýningu klukkan 23.30. Þá verður Vináttukeðjan og Súpukvöldið á sínum stað. „Sami rammi og áður,“ segir Júlíus.

-BÞ

Misveðrasamt í ágúst

$
0
0
Sól og regn takast á. Mynd: Daníel Starrason

Sól og regn takast á. Mynd: Daníel Starrason

Veðurklúbburinn á Dalbæ kom saman til fundar þriðjudaginn 6. ágúst, en þann dag kviknaði tungl í NV kl. 21:51. Ríkharði í Bakkagerðum var alltaf illa við mánudags- eða þriðjudagstungl  og minnugir þess telja fundarmenn að ágúst verði frekar misveðrasamur og að það komi ekki til með að hlýna að neinu ráði fyrr en eftir 21. ágúst en þá er fullt tungl.

Einn fundarmanna dreymdi mikinn afla af rauðmaga, sem var keyrt fram í Svarfaðardal þar sem honum var sturtað á tún. Einn maður var látinn standa vörð um aflann til að allir fengju jafnt til skiptanna. Voru fundarmenn ásáttir um að þetta væri fyrir góðri sprettu þannig að flestir mættu vel við una.


Lýsa miklum vonbrigðum með ákvörðun ríkisstjórnarinnar

$
0
0
Verkefnin eru metnaðarfullt framlag Nýsköpunarmiðstöðvar til að styrkja alþjóðlega samkeppnisstöðu Íslands með nýsköpunarstarfi í öllum landshlutum.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. Ríkisstjórnin hefur gert hlé á aðildarviðræðum við ESB

„Það eru því vonbrigði að fá upplýsingar um að í ljósi þess að stjórnvöld hafi gert hlé á aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði fleiri samningar um IPA verkefni ekki undirritaðir að svo stöddu. Ákvörðunin stöðvar framkvæmd verkefnanna og þeirrar mikilvægu sóknar í þágu aukinnar samkeppnishæfni og öflugara atvinnulífs sem þau fela í sér,“ segir í yfirlýsingu sem birt er á vef Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í gær.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands hlaut samþykki fyrir tveimur verkefnum sem sótt var um til Evrópusambandsins undir formerkjum Instruments for Pre-Accession eða IPA.  Bæði eru verkefnin unnin í þágu nýsköpunar og framþróunar íslensks atvinnulífs, að því er kemur fram í yfirlýsingunni. „Verkefnin eru metnaðarfullt framlag Nýsköpunarmiðstöðvar til að styrkja alþjóðlega samkeppnisstöðu Íslands með nýsköpunarstarfi í öllum landshlutum.“

Annað verkefni Nýsköpunarmiðstöðvar, CRISTAL eða  „Creative Regions for Innovation, Skills, Technology, Accessibility and Learning“ hefur það megin markmið að koma á samstarfi í öllum landshlutum til að styrkja menntun í verk- tækni- og raungreinum og nýsköpun í skólastarfi.  Samstarfsaðilar í Nýsköpunarmiðstöðvar í verkefninu eru grunn- og framhaldsskólar um allt land auk Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Samtaka iðnaðarins.  Áherslur verkefnisins eru á að þróa lausnir sem stuðla að hæfara vinnuafli, auka menntunarstig og efla nýsköpunarstarf í skólum.  Einnig að þróa kennsluaðferðir sem mæta ólíkum þörfum nemenda og auka getu í raun- og tæknigreinum auk áherslu á frumkvöðla- og viðskiptaþekkingu.

Hitt verkefnið, SuFI, eða “Sustainable Fuels for Iceland” snýst um kortlagningu auðlinda á Íslandi sem hægt væri að nýta til framleiðslu á vistvænu eldsneyti til notkunar á bifreiðar skip og flugvélar. Tækni og kostnaður við framleiðslu eldsneytis verður einnig til athugnar. Samastarfsaðilar Nýsköpunarmiðstöðvar eru  m.a. orkufyrirtæki ,Landbúnaðarháskólinn, Skógræktin og fleiri aðilar sem eru að huga að framleiðslu vistvæns eldsneytis. Eitt aðalmarkmið verkefnisins er að auka hlut vistvæns eldsneytis á Íslandi og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Segir í yfirlýsingunni að árangur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í IPA umsóknarferlinu sé til merkis um framsækið og metnaðarfullt starf miðstöðvarinnar í þágu íslensks atvinnulífs og þá sérhæfingu og þekkingu sem starfsfólk Nýsköpunarmiðstöðvar búi yfir.

-BÞ

Framkvæmdir við göngin ganga vel

$
0
0

Vaðlaheiðargöng í byrjun ágúst 2013

Framkvæmdir við göng undir Vaðlaheiði ganga vel að sögn talsmanna samgöngubótarinnar. Alls er búið að sprengja nokkuð á þriðja hundrað metra inn í fjallið en göngin verða alls rúmir sjö kílómetrar. Á þessari mynd sést lífið inni í fjallinu en Akureyringar og Eyfirðingar margir heyra vel hverja sprengingu þótt vindátt ráði þar nokkru um áhrifin.

Vonarhátíðin „vonlaust klúður“

$
0
0
Hildur Eir Bolladóttir

Hildur Eir Bolladóttir

Mikill urgur er í samfélaginu með að kirkjan hafi auglýst Hátíð vonar, samkomu sem haldin verður í Laugardalshöll í lok septembermánaðar á sama tíma og fram fara Hinsegin dagar. Einkum er umdeilt að Franklin Graham, sonur trúarleiðtogans Billy Graham, hefur verið kallaður til að flytja ræðu. Franklin þessi Graham hefur ítrekað í fjölmiðlum vestra lýst yfir andúð á lífstíl og hjónavígslum samkynhneigðra.

Á Facebook hafa nokkrir prestar tekið þátt í umræðum. Þar á meðal Sigríður Guðmarsdóttur, prestur í Guðríðarkirkju í Grafarholti. Sigríður fordæmir komu Grahams og hefur komið athugasemdum áfram.

Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur skrifar í athugasemd á Facebook að aðstandendur Hátíðar vonar hafi leitað stíft eftir þátttöku Þjóðkirkjusafnaða.  „Ég hafnaði því fyrir hönd Dómkirkjunnar. Vildi fólk í Dómkirkjusöfnuði taka þátt væri það að sjálfsögðu hvers og eins að ákveða fyrir sitt leyti – í frjálsu samfélagi.“

Séra Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Akureyrarkirkju segir á Facebook: „Þetta er alveg vonlaus hátíð og eitthvert ægilegt klúður.“

Annar norðlenskur prestur, Arnaldur Bárðarson, sem þjónaði um skeið í Glerárkirkju varar við alhæfingum um kirkjuna vegna málsins og segir um hugtakið „atvinnuhommahatara“ sem orðið hefur til í fréttaumræðu um Graham þennan: „Við skulum hafa i huga að mjög stórir hópar kristinnar kirkju hafa ekki gengið jafn langt i stuðningi við málefni samkynhneigðra og íslenska kirkjan. Við getum ekki uppnefnt þau öll og slitið okkur úr tengslum við þá stóru fjölskyldu bara vegna þessa eins. Margt hefur áunnist í samstarfi kristinna kirkna um gjörvallan heim með samtali og umræðu og ekki ástæða að ganga hér ofan í skotgrafir fjandskaparins.“

-BÞ

Mörgæs í miðbæ Akureyrar?

$
0
0
Þessa mynd tók starfsmaður Akureyri Gift Shop af langvíunni þegar hún var að skottast í Hafnarstrætinu

Þessa mynd tók starfsmaður Akureyri Gift Shop af langvíunni þegar hún var að skottast í Hafnarstrætinu

„Er þetta ekki mörgæs?“ sögðu tveir menn og bentu á einmanalegan fugl sem spókaði sig við Umferðamiðstöðina á Akureyri í morgun. Þegar betur var að gáð reyndist fuglinn ekki mörgæs heldur langvía en hún er samt sem áður afar sjaldgæfur gestur á götum bæjarins.

Tveir starfsmenn Saga Travel, þeir Hörður Finnbogason og Gunnar Atli Fríðuson fóru til fundar við fuglinn sem reyndist hinn spakasti. „Þetta var ekki fullorðinn fugl og það var mjög auðvelt að nálgast hann, þeir eru oft mjög spakir ungarnir,“ sagði Hörður þegar blaðamaður spurði hann út í ævintýrið. „Við tókum hann bara upp og keyrðum með hann niður að sjó þar sem hann synti hinn glaðasti í burtu“.

Langvían er af mörgum talin harðbrjósta foreldri því ungarnir eru aðeins þriggja vikna þegar þeim er kastað úr hreiðrinu en fyrst um sinn hjálpar karlfuglinn unganum að læra að veiða. Þessi ungi var semsagt í skóla lífsins og sem betur fer fékk hann góða aðstoð en talið er að langvían geti ekki flogið nema að hún sjái hafið.

-SBS

Gunnar Atli Fríðuson spjallaði við fuglinn og bauð fram aðstoð sína Langvían þáði far niður að sjó

Klám í auglýsingu Flugmódelfélags Akureyrar

$
0
0
Nærmynd af skilti Flugmódelfélagsins

Nærmynd af skilti Flugmódelfélagsins

Skilti á vegum Flugmódelfélags Akureyrar sem stendur við Hrafnagil hefur vakið athygli vegfaranda sem telur eina myndina á skiltinu klámfengna og ekki við hæfi í auglýsingu. Vegfarandinn kvartaði til sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar sem hafði samband við Guðjón Ólafsson, formann Flugmódelfélagsins, sem segist ekki hafa í hyggju að breyta skiltinu þar sem viðkomandi hafi ekki haft sjálfur beint samband við sig. „Ef vegfarandinn hefði sjálfur talað við mig beint hefði ég breytt skiltinu en ég tek það ekki í mál þar sem viðkomandi talaði ekki beint við mig heldur kvartaði til sveitarstjóra og svo til fjölmiðla. Fólk er alltaf að fara röngu leiðirnar að einhverju markmiði sem það telur sig ætla að ná. Þarna fer viðkomandi fram hjá mér og fyrst að hann getur ekki talað við mig beint þá ætla ég ekki að hlusta á hann,“ segir Guðjón í samtali við blaðamann.

Skiltin eru þrjú og standa tvö þeirra á Akureyri og eitt við Hrafnagil. Skiltin voru gerð fyrir 6-8 árum og segir Guðjón þau vera orðin léleg og ekki verða notuð aftur á næsta ári. „Við erum ekki að reyna að móðga neinn en sá sem bjó skiltin til fannst þetta flottar myndir og notaði þær, ég get lofað því að það verður ekki mynd af konu í bikiní á næsta skilti, hugsanlega þó konu í búrku. Mér finnst þetta ekki vera klám og ég bara spyr hvenær eigum við að stoppa þetta? Hvenær eigum við að hætta að hylja konur, eigum við að klæða þær í svarta plastpoka svo sjáist ekkert nema augun, ég bara spyr,“ segir Guðjón.

Jónas Vigfússon, sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar, staðfesti að kvörtun hefði borist vegna skiltisins og henni hefði verið komið á framfæri við Flugmódelfélagið en segir að sveitarfélagið muni ekki aðhafast neitt frekar í málinu.

-SBS

Eitt af þremur auglýsingarskiltum Flugmódelfélags Akureyrar

Eitt af þremur auglýsingarskiltum Flugmódelfélags Akureyrar

Lof og last vikunnar

$
0
0

Lof og lastLof fá forráðamenn sundlaugarinnar í Laugum, segir karl sem brá sér í sund í Reykjadalnum. Hann bendir á að lofið fái Reykdælingar fyrir sundgleraugu sem allir sundlaugargestir geti notað. Eflaust sé um að ræða gerlaugu sem hafi gleymst og liggi þau í kassa við sundlaugarbakkann svo allir fái að njóta. Fólk skili svo lánsgleraugunum aftur á sinn stað. Þetta telur maðurinn til fyrirmyndar…

Last fá þeir sem eiga að sjá um að útrýma bjarnarkló sem vex alltaf í brekkunni við gatnamót Spítalavegar og Eyrarlandsvegar, segir kona. „Er ekki sjálfsagt mál að Akureyrarbær fjarlægi þennan vágest sem getur auðveldlega skaðað fólk sem kemst í snertingu við plöntuna, krakkar leika sér allstaðar og oftar en ekki heilla stórar plöntur sem þessar,“ segir konan. Fleiri taka í sama streng og segja plöntuna hreinlega út um allt núna…

Last fá akureyrskir veitingastaðir sem hafa hækkað verð á veitingum sínum um allt að 33% síðan í fyrra, segir karl sem skrifaði blaðinu bréf. Hann nefnir sem dæmi að langloka á einu veitingahúsinu kosti nú kr. 1000 í stað 750 í fyrra…
Last fær Akureyrarbær fyrir að skipta ekki út hoppudýnunni í Sundlaugargarðinum. Þetta segir kona sem sendi blaðinu bréf. „Dýnan er greinilega ónýt, því hún bungar út á stórum parti. Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær það verður slys. Ég allavega leyfði 5 ára syni mínum ekki að fara á þetta,“ skrifar konan…

Lof fá Akureyringar og gestir þeirra fyrir fyrirmyndar framkomu um verslunarmannahelgina. Svo segir hátíðargestur á Einni með öllu sem sendi blaðinu bréf. Hann segir mikinn mun að koma til Akureyrar nú og fyrir nokkrum árum. Hann hafi óttast um líf sitt og limi þá, en í ár hafi gleðin ein ráðið ríkjum. Góð bæjarhátíð að baki…

Missir

$
0
0

candleÞegar sorglegir atburðir eiga sér stað í litlum bæ, þar sem margir þekkja svo marga, virðist tíminn einhvern veginn frjósa. Allt verður kyrrt og hljótt og fólk sameinast í skilningi og samkennd, orð verða óþörf. Við fáum að minnast, rifja upp og sjá fyrir okkur samverustundir og jafnvel heyra fyrir okkur samræður sem við héldum að við værum búin að gleyma. Akureyri verður aldrei söm eftir þetta slys, missirinn er einfaldlega of mikill.

Í samfélagi sem er miklu minna, í litlum hreppi þar sem allir þekkja alla, frýs tíminn jafnvel örlítið lengur. Þeir sem voru svo lánsamir að ganga í barnaskóla með góðum vini og kunningja sem nú er fallinn frá, munu finna fyrir því í dag og næstu daga að minningar frá þessum árum hellast yfir. Minningar um skólagöngu í fámennum skóla, skólaferðalög, félags- og íþróttastarf, sprell og stuð í sundlauginni, fótbolta úti á túni, árshátíðir, jólaböll og margt fleira. Allt þetta eru sameiginlegar minningar sem nú eru ljóslifandi og skýrar á meðan áfallið og sorgin eru sterk, tilfinningaflóðið er því mikið á meðan fólk er að átta sig.

Fyrir nokkrum árum missti litli hreppurinn ungan mann í slysi og það var með ólíkindum að sjá hvernig fólk snéri saman bökum, studdi hvort annað, bað fyrir ættingjum og vinum og gerði allt sem hægt var að gera til að hjálpa til og lina þjáningar. Sú lífsreynsla þjappaði íbúum saman og það verður aldrei tekið frá þeim. Fáeinum árum síðar, lá annar ungur maður úr sama hreppi og barðist fyrir lífi sínu í mjög langan tíma á meðan enginn vissi hvort hann kæmi til baka, líkurnar voru meira að segja taldar mjög litlar á tímabili. Það var einstakt kraftaverk að hann skyldi lifa, fólk er enn að þakka fyrir það í dag og mun gera það áfram. Í dag missti samfélagið ungan mann, litríkan karakter með fallegt bros og smitandi hlátur og enn á ný mun fólk þjappa sér saman og taka utan um hvort annað, á því leikur enginn vafi.

Það er vont að missa og sárt að sakna, það getur verið ljúft að ylja sér við fallegar minningar, draga fram myndir, kveikja á kertum og finna að samkenndin er allt um kring, en allt hefur sinn tíma. Þeir sem ekki eru í innsta hring fjölskyldu og vina, hvort sem um er að ræða lítinn kaupstað eða lítinn hrepp, hafa sameinast í huganum í dag til að senda frá sér strauma, bænir og kveðjur til þeirra sem urðu fyrir þessum hræðilega missi, enginn getur sett sig í þeirra spor. Þeir sem áður hafa misst ástvini, vini og kunningja eiga það hins vegar sameiginlegt að geta gefið heilmikið af sér við svona aðstæður, með því að vera til staðar og standa vaktina, í huga, hjarta og sál.

Við sem getum gefið af okkur ættum kannski haft eftirfarandi í huga: Munum að tíminn læknar ekki öll sár, munum að hver og einn syrgir á eigin hraða og á sinn hátt, munum að vera til staðar, líka þegar erfiðasti tíminn er yfirstaðinn. Munum að faðmast og veita hlýju þegar við getum, senda bréf, ljóð, blóm og fleira sem við vitum að yljar þegar fram líða stundir og þessi tími verður rifjaður upp. Síðast en ekki síst, sýnum tillitsemi með því að verða betri manneskjur en í gær, leyfum okkur að læra af lífsins dýrmætu reynslu.

Hvílið í friði drengir.

Elsku Pétur, takk fyrir brosið, hláturinn, sprellið og allt sem þú gafst okkur.

Vigdís Garðarsdóttir, skólasystir.


Fjórar myndlistarsýningar opna

$
0
0
Verk á sýningu Guðrúnar Pálínu í Kartöflugeymslunni

Verk á sýningu Guðrúnar Pálínu í Kartöflugeymslunni

Það verður að vanda nóg um að vera í myndlistarlífinu á Akureyri um helgina. Nýjar sýningar opna í Ketilhúsi, Deiglunni, Mjólkurbúðinni, Kartöflugeymslunni, Populus tremula og Flóru. Einnig gefst áfram tækifæri til að sjá Píkublóm Brynju Harðardóttur í Sal Myndlistarfélagsins og áfram verður hægt að sjá sýninguna The Fixed & The Volatile í Verksmiðjunni á Hjalteyri.

Það er bæjarlistamaður Akureyrar, Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, sem sýnir í Kartöflugeymslunni. Sýningin ber heitið Rými og á henni eru málverk sem öll fjalla um rýmið í víðri merkingu. „Grunnþáttur þess að gera mynd er að skapa rými á persónulegan hátt með litum og myndbyggingu. Hver litur hefur sína eigin rýmisskynjun, sumir litir, þeir köldu víkja og þeir heitu koma fram. Ljós og myrkur hafa líka mikil áhrif á það hvernig maður skynjar rýmið, ásamt hitastigi og litum,“ segir Guðrún Pálína. Sýningin opnar kl. 15 og verður opin alla daga milli kl. 14-16 út mánuðinn.

Verk af sýningu Láru Stefánsdóttur

Verk af sýningu Láru Stefánsdóttur

Í Mjólkurbúðinni opnar ljósmyndasýning Láru Stefánsdóttur, Snævi þakið. Lára hefur verið búsett í Ólafsfirði síðustu árin. „Hið hvíta landslag vetrarins er afar fjölbreytt og mótar umhverfið í Ólafsfirði oft langan tíma vetrar. Landslagið sem undir er breytist, land með skurðum eða lækjum verður rennislétt, skaflar draga sig upp og það sem áður var slétt verða hæðir og hólar. Vindurinn og hitinn móta mynstur og fleti. Stundum gægist upp einmana staur eða girðing, dálítil þúfa eða steinn. Minimalískt umhverfið með snarbröttum fjallshlíðum í kring skapar andstæður sem stormurinn næðir um. Sólin nær ekki að skína í tæpa tvo mánuði en litir sólarlags og sólarupprásar skreyta himininn,“ segir Lára í kynningu. Sýningin er opin 14-18 laugardaga og sunnudaga og stendur til 18. ágúst.

Verk Sigrúnar Guðmundsdóttur

Verk Sigrúnar Guðmundsdóttur

Í Flóru opnar Sigrún Guðmundsdóttir sýninguna Nætur(b)rölt en á opnuninni mun hún einnig kynna bók sína sem ber sama titil. Hugtök verka hennar endurspeglast á ákveðinn hátt í bókinni sem samanstendur af örsögum og hugrenningum sem saman mynda eina smásögu. Sigrún býr og starfar í Hollandi. Hún lauk myndlistarnámi frá AKI í Enschede árið 2008 en var einnig í skiptinámi í School of the Museum of Fine Arts í Boston. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum í Hollandi og sýningin í Flóru er hennar sjöunda einkasýning.

Verk eftir Frímann Kjerúlf Björnsson

Verk eftir Frímann Kjerúlf Björnsson

Í Deiglunni er það Frímann Kjerúlf Björnsson sem opnar sýninguna Á mörkum heimanna. „Sem boðberi ljóssins, á mörkum heimanna, vinnur Frímann á landamærum vísinda og lista, með bakgrunn úr heimi ljósrænnar eðlisfræði,“ segir í kynningu. Sýningin stendur til 15. september.

Verk eftir Þórdísi Öldu Sigurðardóttir

Verk eftir Þórdísi Öldu Sigurðardóttir

Í Ketilhúsinu opnar Þórdís Alda Sigurðardóttir sýninguna Stolnar fjaðrir. Þórdís sækir efnivið sinn og hugmyndir  í „dótakassa samtímans“ með öllum þeim efnum, hlutum, tækjum, tólum og klæðum sem er hið raunverulega, daglega sjónarspil stórs hluta mannkyns.

Hljómsveitin Hjálmar. Mynd eftir Daníel Starrason

Hljómsveitin Hjálmar. Mynd eftir Daníel Starrason

Daníel Starrason og Magnús Andersen flétta saman ljósmyndun og tónlist í Populus Tremula og sýna ljósmyndir af tónlistarfólki auk þess að halda tónleika kl. 21 í kvöld. Sýningin opnar kl. 14 og stendur aðeins þessa einu helgi.

KA-menn taka á móti Leikni

$
0
0
KA tekur á móti Leikni í dag. Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson

KA tekur á móti Leikni í dag. Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson

KA tekur á móti Leikni úr Breiðholtinu í 15. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í dag. Að venju er leikið á Akureyrarvelli og hefst leikurinn klukkan 16.00.

Fyrir KA-menn, sem ætla sér upp um deild, er þessi leikur gríðarlega þýðingarmikill. Liðin eru jöfn að stigum, bæði lið hafa 22 stig í 6.-7. sæti. Stutt er bæði upp og niður en vinni KA leikinn jafna þeir Grindavík að stigum í 2. sæti.

Síðast þegar þessi lið mættust vann Leiknir 2-1 sigur á Leiknisvelli. Þar léku KA-menn ágætan leik en tvenn mistök í vörn þeirra gáfu Leiknismönnum mörkin á færibandi. Leiknir hefur unnið tvo síðustu leiki sína á meðan KA gerði jafntefli í síðasta leik gegn KF á heimavelli. Bjarki Baldvinsson mun taka út leikbann eftir að hann fékk rautt spjald gegn KF en Bjarni Jóhannsson, þjálfari KA, verður kominn aftur á hliðarlínuna en hann var fjarri góðu gamni gegn KF.

Eins og fram kemur að ofan hefst leikurinn klukkan 16.00 en 45 mínútum fyrir leik ætla KA menn að kveikja á grillinu og geta áhorfendur keypt grillaða hamborgara á vægu verði.

Svavar Knútur með tvenna tónleika

$
0
0
Svavar Knútur

Svavar Knútur

Trúbadorinn Svavar Knútur heldur nú um helgina tvenna tónleika til styrktar æskulýðsstarfi í Akureyrarkirkju og Laufásprestakalli. Fyrri tónleikarnir verða í Akureyrarkirkju í kvöld kl. 21.00 og þeir síðari í Grenivíkurkirkju á morgun, 11. ágúst, kl. 20.00

Aðgangseyrir er 2000 kr. og rennur hann óskiptur í unglingastarf kirknanna en einnig verður hægt að kaupa geisladiska með tónlist Svavars.

Píkublóm: lofgjörð til kvenleikans

$
0
0
Þorlákur Axel Jónsson

Þorlákur Axel Jónsson

Myndlistarsýning Brynju Harðardóttur í sal Myndlistarfélagsins í Listagilinu Akureyri 3. – 11. ágúst og opnunargjörningur Lilý Erlu Adams­dóttur.

Brynja Harðardóttir sýnir ellefu olíu- og akrýlmyndir, fjölda heklaðra píkublóma og minningu um opnunargjörning Lilý Erlu Adamsdóttur sem samanstendur af glerkrukkum á miðju gólfi sýningarsalarins með vökva í grænum, bláum, rauðum og gulum litum ásamt glæru fati í miðju með ljósum vökva og alllangri mjórri slöngu.

Hvert er inntak sýningarinnar? Fagurlega málaðar olíu- og akrýl myndirnar birtast sem hughrif listamannsins úr blómagarði borgaralegs heimilis á syðri-syðri-brekkunni á Akureyri – en eru píkur. (Villuleitarforritið óskar leiðréttingar á orðinu píkur!). Handavinnan reynist vera píkur í fjörlegum myndum. Píkublómin eru á stærð við servíettubúnt. Beinast lægi við að túlka sýninguna út frá þeirri pólitísku yfirlýsingu sem myndlistarmaðurinn gefur í sýningarskrá; „Píkublómin hvetja konur jafnt sem karla að vera gagnrýnin á útlits- og fegurðarviðmið samtímans…” en hér býr augljóslega meira að baki. Að stilla píkum upp sem viðfangi málaralistar, handíða og gjörnings á laugardegi í verslunarmannahelgi, þar sem Fréttablaðið telur markverðasta sögu af ungri konu sem á að hafa í nafni nútímans tælt kaþólskan prestling til ásta við sig en ekki hina Heilögu almennu kirkju, er ögrun við stofnanir sem miðla og endurgera pólitískra samtímamenningu okkar. Hugurinn reikar til allra þeirra gleymdu ástarævintýra sem ekki rötuðu á bókfell á því hálfa árþúsundi þegar Íslendingar leituðu frelsisins undir oki þessarar stofnunar sem einmitt hafði sem sitt helsta markmið að ráða yfir píkunum, ráða fólksfjölguninni með goðsögum og kúgunarkerfi sem krafði konur um undirgefni en sálardauða ella. Brynja ögrar gagnárás karlrembunnar á réttindabaráttu kvenna sem lýsir sér í kröfunni um að píkan sé neysluvarningur á markaðstorgi klámvæddrar dægurmenningar, annars tabú. Brynja er táknbrjótur. Píkan er ekki tákn spéhræðslu og valdagræðgi á þessari sýningu, hún er sjálf fegurðin. Að sama skapi ögrar sýningin hámenningunni. Samkvæmt viðteknum greinarmun gagnvart lágmenningu ber ekki njóta lista á þeirri forsendu að þær höfði til líkamlegrar vellíðunar heldur á eigin innri fegurðarforsendum, sem eiga jafnvel að búa í tilteknum heilastöðvum, á meðan alþýðumenningin höfði til hungurs og kynhvatar. Hafi leikið vafi á erótískum tóni sýningarinnar leiddi gjörningurinn fram sterka andstæðu milli fegurðar kviknakinnar konu sem stillti sér í fatið með ljósa vökvanum og þjáningar hennar er hún saug með slöngunni upp í munn sér litaða vökvann úr krukkunum og lét renna um bringu sér, brjóst, maga – og píku. Úr einni krukku eftir aðra, einn lit eftir annan svo að líkamsmyndin tók á sig litadýrð svo úr varð náttúrulegt málverk, myndverk sem hélt áhorfendum föstum í andartakinu. Þegar takinu sleppti klöppuðum við áhorfendur okkur frjálsa og héldum til hefðbundinna hátíðar verslunarmanna. Lofgjörð til kvenleikans ríkari.
Takk fyrir mig.

Þorlákur Axel Jónsson

Eitt af verkum Brynju á sýningunni

Eitt af verkum Brynju á sýningunni

Villisveppapizza

$
0
0
Villisveppapizza Helgu Kvam

Villisveppapizza Helgu Kvam

Nú eru villisveppirnir komnir í norðlenska skóga og tilvalið að nýta þetta magnaða hráefni meðan færi gefst.

  • 7 gr þurrger
  • 1 msk hrásykur
  • 2 dl volgt vatn
  • 1 msk ólífuolía
  • 300 gr hveiti
  • 1 tsk salt

-

  • 2 msk smjör
  • 400 gr sveppir (lerki-, furu-, birkisveppir)
  • 3 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • salt og nýmalaður svartur pipar
  • 3 msk pestó
  • 100 gr rifinn ostur
  • 100 gr fetaostur

Byrjaðu á að gera deigið.

Settu þurrger, hrásykur og volgt vatn í skál og láttu standa þar til fer að freyða. Settu í skál hveiti og salt. Þegar gerblandan freyðir vel þá blandarðu henni saman við hveitið ásamt ólífuolíunni og hnoðar vel, eða í um 10 mínútur. Láttu hefast í skál með þurrt stykki yfir á hlýjum stað í 40-50 mínútur eða þar til deigið hefur stækkað um helming.

Þegar deigið er orðið útblásið og fínt þá hitarðu ofninn í 220°C.

Taktu bökunarplötu og leggðu smjörpappír í hana. Taktu deigið varlega úr skálinni og teygðu það til þannig að passi í ofnskúffuna/plötuna.

Skerðu sveppina í sneiðar og steiktu í smjöri á pönnu í 3-4 mínútur. Saxaðu á meðan hvítlaukinn og bættu við sveppina. Steiktu í 3-4 mínútur í viðbót. Saltaðu og pipraðu eftir smekk.

Dreifðu pestóinu á deigið, vel út í kantana og dreifðu þar yfir rifna ostinum. Settu nú sveppina yfir og bakaðu í 12-15 mínútur í heitum ofninum eða þar til deigið er orðið gullið.

Myldu feta ost yfir þegar þú berð fram. Frábært með nýju salati eða tómötum, basilikku og mozarella með smá ólífuolíu, salti og pipar.

Helga Kvam
www.allskonar.is

Viewing all 1718 articles
Browse latest View live