Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Sveitarfélag, til hvers?

$
0
0
oli-8673

Ólafur Kjartansson

Upphafið
Eftir því sem ég best veit er hreppurinn, og síðan arftaki þess sveitarfélagið, ein elsta skipulagða opinbera samfélagseining hér á landi. Þegar ég var að grufla upp eitthvað um tilganginn með því að setja svona nokkuð á fót fannst mér það merkilegast að þarna var meðal annars vettvangur fyrir skipulagða samhjálp. Að sjálfsögðu í takt við aðstæður og anda hvers tíma en samhjálp engu að síður. Hreppurinn bar sameiginlega ábyrgð á því að enginn átti að þurfa að veslast uppi bjargarlaus. Ef einhver íbúi gat sannarlega ekki séð sér farborða áttu yfirvöld viðkomandi hrepps að sjá til þess að þessi einstaklingur dæi ekki úr vesöld. Skýr samfélagsleg pólitísk meining.

Þróunin
Síðan eftir því sem tímar hafa liðið hefur hlutverkum sveitarfélaganna fjölgað. Andinn hefur verið alla jafna sá að það sem skiptir miklu máli fyrir heildina á hverjum stað kemur til greina sem verkefni sem sveitarfélagið tekst á við. Þar má finna býsna fjölbreytilegan lista. Framfærslutryggingu, skólamenntun barna, umönnun aldraðra, heilsugæslu, samgöngubætur, hreint neysluvatn í hvert hús, rafmagn, upphitun húsa, að fjarlægja sorp og skít, útgerð til sköpunar atvinnu og verðmæta, stuðning við listalíf, mannbætandi tómstundastarfsemi og fleira og fleira. Þetta finnst mér algerlega fullnægjandi réttlæting á því að standa vörð um þessa samfélagseiningu sem sveitarfélagið er.

Hvað svo?
Næstu spurningar: Hvað er mikilvægast af þessu öllu og hver á að borga þetta allt saman?
Er eitthvað sem má missa sig eða vantar eitthvað? Viljum við borga jafnt á haus eða meira eftir því sem tekjurnar verða hærri hjá fólki eða eiga notendur að borga hver fyrir sig? Eða einhverskonar mismunandi eða blandað greiðslufyrirkomulag og þá hvernig?
Þar kemur pólitíkin enn einu sinni til sögu og röðin er komin að að kjósandanum. Hann þarf að átta sig á því hvernig útfærslu honum líst best á og reyna síðan að meta hverjir eru líklegastir til að framfylgja því.

Höfundur er áheyrnarfulltrúi vinstri grænna í umhverfisnefnd Akureyrar og starfsmaður í Hlíðarfjalli.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718