Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Við erum föst í ofbeldissambandi með ríkisstjórninni

$
0
0
Fanney Kristjánsdóttir

Fanney Kristjánsdóttir

Af því að ég vinn ekki hjá ríkisstofnun ætla ég að tjá hug minn óttalaus. Eftir síðustu kosningar hef ég forðast að hugsa um stjórnmál. Einfaldlega af því að ég verð ýmist döpur, reið eða fyllist vanmáttarkennd þegar ég geri það.

Atburðir síðustu daga hafa þó neytt mig til þess og opnað augu mín fyrir því hversu alvarlegt ástandið í landinu er í raun og veru. Að mínu mati eru stjórnvöld ekki að þjóna hag almennings í landinu. Þau eru ekki að stjórna landinu okkar eins og umhyggjusamur faðir eða ástrík móðir. Þau eru að stjórna landinu okkar eins og hagnast þeim sjálfum sem einstaklingum best. Þeirra stefna virðist hafa það að markmiði að gera þeim sem mest græða kleift að græða meira. Því markmiði er því miður ekki hægt að ná því að þegar þú ert búinn að græða meira, getur þú grætt ennþá meira sem þýðir að þú nærð aldrei markmiði þínu. Manneskja sem nær aldrei markmiði sínu verður aldrei hamingjusöm heldur hleypur eins og hamstur í hjóli í von um að komast einhverntímann í mark. Veist þú um einhvern sem líður svona um hver mánaðarmót þegar að því kemur að því borga af lánunum? Fyrir hvern er verið að hlaupa?

Fjöldauppsagnirnar á RÚV sannfærðu mig um að við erum komin í sama far og fyrir hrun. Þá var starfsfólk opinberra stofnana hrætt við að tjá hug sinn vegna ótta um að stjórnvöld myndu skera niður fjármagn til stofnunarinnar sem það vann hjá. Við búum enn í samfélagi þar sem stjórnvöld nota þöggun. Máli mínu til stuðnings langar mig að benda á frétt sem DV birti 14. ágúst síðastliðinn. Þar er fjallað um ummæli Vigdísar Hauksdóttur þar sem hún hótar því óbeint að ef fréttaflutningur RÚV sé ekki í takt við stefnu stjórnvalda, þá muni hún beita því valdi sem kjósendur gáfu henni og taka fram niðurskurðarhnífinn. Hvað gerist í kjölfarið? Sextíu starfsmönnum er sagt upp. Gömlu hefðirnar eru sterkar og erfitt  er að festast ekki í gömlu hjólförunum eins og við þekkjum flest á eigin skinni.

Frjáls og óháð fjölmiðlun er grundvöllur hvers lýðræðisríkis og við erum svo sannarlega heppin að búa við þann kost, eða hvað? Við höldum að minnsta kosti að við búum í frjálsu lýðræðisríki en við gerum það ekki. Það sannast með uppsögnunum á RÚV. Við búum við þöggun ríkjandi stjórnvalda, aftur! Fjölmiðlafólki er sendur tónninn og verður þar af leiðandi hrætt við að tjá skoðanir sínar eða fjalla um mál sem gætu verið óþægileg fyrir stjónvöld. Að hræða aðra manneskju svo að hún þorir ekki að tjá hug sinn heitir að beita kúgun á íslensku. Stórnvöld okkar beita kúgun. Spurningin er því: erum við nógu sterk til að bjarga okkur sjálfum út úr þessum aðstæðum eða munum við standa aðgerðarlaus hjá, veslast upp og tapa smám saman sjálfsímynd okkar, þori og reisn.

Fanney Kristjánsdóttir
Höfundur er tónlistarkona og þjóðfélagsfræðingur.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718