Þeir sem þekkja mig segja að ég tali óskýrt, það er líklega rétt. Það hefur stundum valdið vandræðum eins og eftirfarandi frásögn staðfestir.
Við vorum tveir á göngu niður í bæ, ungir laganna verðir. Í göngugötunni sáum við pilt liggja, kvöldið var búið hjá honum, áfengið hafði svæft hann djúpum svefni. Annar okkar kannaðist við hann, vissi að hann bjó hjá afa sínum. Okkar fannst báðum ástæðulaust að fara með hann upp á stöð, höfðum báðir upplifað það sjálfir að leggja okkur við svipaðar aðstæður. Vinalegra að reyna að koma honum heim til afa síns.
Ég hafði samband upp á stöð í gegnum talstöðina, öðlingurinn Matthías varðstjóri varð fyrir svörum. „Matthías, við erum hérna með afabarnið hans Guðmundar Karlssonar, spurning hvort þú hafir ekki samband við hann og athugir hvort hann vilji fá hann heim, hann er dauðadrukkinn,” sagði ég. „Athuga það,“ svaraði Matthías af sinni venjulegu röggsemi. Hann greip símann og syfjuleg rödd svaraði. „Sæll, Matthías hérna á lögreglustöðinni, þeir eru með afa þinn niðri í bæ dauðadrukkinn, viltu fá hann heim eða eigum við að geyma hann hérna hjá okkur”. „Ha,“ svaraði syfjulega röddin, „afa minn, ég er sjötugur, afi minn dó fyrir 30 árum.“ „Nei, nei,” svaraði Matthías, „hann er niðri bæ, blindfullur, viltu fá hann heim?”
Samtalið varð ekki lengra. Ég fékk réttmætar ákúrur fyrir óskýr skilaboð. Pilturinn svaf á stöðinni og hafði það fínt, þar til hann vaknaði.
Jón Óðinn Waage