Þegar þú hefur smakkað alvöru heimalagaða tómatsósu þá hættirðu að kaupa hana úti í búð. Hana er einfalt að búa til og í hana mega fara van- eða ofþroskaðir tómatar, linir eða harðir, bleikir eða rauðir. Og þú veist nákvæmlega hvað fer í hana og hvenær hún var búin til.
Alvöru tómatsósa
- 5 negulnaglar
- 7 cm kanilstöng
- 1 lárviðarlauf
- 1/4 tsk sellerísalt
- 1/8 tsk þurrkaðað chilli flögur
- 1/4 tsk allrahanda, malað
- 1/4 tsk sinnepsduft
- 12 tómatar, grófskornir
- 1 laukur, fínsaxaður
- 1 tsk sjávarsalt
- 1 dl edik (epla eða hvítvíns)
- 5 msk hrásykur
- 1 rautt chili, fræhreinsað og fínsaxað
- 1 hvítlauksrif, marið
Undirbúningstími: 25 mínútur
Eldunartími: 90 mínútur
Útbúðu lítinn kryddpoka úr grisjuklút. Í hann seturðu negulnagla, lárviðarlauf, kanilstöng (brjóttu hana niður), sellerísalt, chilliflögur, sinnepsduft og allrahanda. Bittu vel fyrir pokann, hann þarf að fara út í pottinn á eftir og sjóða með tómötunum.
Finndu til stóran pott og settu í hann tómatana, skerðu þá í stóra bita en taktu úr þeim miðjuna og allt grænt. Með tómötunum seturðu sjávarsaltið, edikið, sykurinn, laukinn, kryddpokann þinn fína og rauða chilli-ið, og hvítlaukinn. Merðu hvítlaukinn með hvítlaukspressu eða kremdu hann með hníf og fínsaxaðu. Láttu þetta svo malla á meðalhita í 45 mínútur.
Taktu þá kryddpokann úr pottinum og blandaðu öllu vel saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Þú getur líka stappað þessu í gegnum sigti.
Settu allt í pott aftur og sjóddu niður til að þykkja sósuna í um 30-40 mínútur.
Smakkaðu vel til, þú gætir viljað salta eða sykra meira, en athugaðu að bragðið á eftir að magnast og lagerast á nokkrum dögum, og þú borðar venjulegast tómatsósu kalda.
Helga Kvam
Allskonar.is