Akureyrarbær og Reykjavíkurborg nota ólíkar aðferðir til að kanna fjölda farþega í strætó. Í bréfi sem nemendur í HÍ fengu sent nýlega býðst þeim vinna að telja farþega í strætó fyrir sunnan. Þar segir m.a.: „Við erum að leita áhugasömu og duglegu fólki sem er til í að vinna sér inn pening á auðveldan og skemmtilegan hátt. Vinnan felst í að sitja í strætó og telja hve margir farþegar koma inn í vagninn og út úr vagninum. Þetta er árlegt samstarfsverkefni Strætó bs. og menntavísindasviðs til að athuga hve margir nýta sér þjónustu strætó.“
Akureyri vikublað kannaði hvort Akureyrarbær væri því að fylgjandi að taka upp svipaðar aðferðir hér fyrir norðan. Samkvæmt svörum frá SVA eru farþegar með SVA reglulega taldir en bílstjórarnir sjá um talninguna með svokölluðum dyravarðateljara. Þetta sýnir farþegafjölda á hverri klukkustund og fjölda á hverri leið hvern dag. Ekki sést hvar farþegi kemur í vagninn eða fer út. Þó er vitað að 35% farþega taka strætó í miðbænum en SVA sér ekki ástæðu til að efna til aukakostnaðar með því að fá námsmenn til að telja hausa í strætó. Tvisvar hafa hins vegar nemendur úr VMA verið fengnir í hausatalningu í strætó vegna smærri kannanna en það hefur ekki kallað á aukaútgjöld heldur hefur verið litið svo á sem það væri hluti af námsefni skólans.
„Hinsvegar væri áhugavert að vita viðhorf bæjarbúa til almenningssamgangna og hvort eða hvernig bæjarbúar vilja hafa strætó. Þá þarf að gera könnun úti í bæ og ná líka til þeirra sem nota ekki strætó af einhverjum ástæðum. Slíkar niðurstöður væru gagnlegar við stefnumótun í almenningssamgöngum næstu 10 ár,“ segir í svörum frá SVA.
Oddur Helgi Halldórsson, bæjarfulltrúi L-listans á Akureyri, segir að ástæða þess að bærinn hafi ekki gert skoðanakönnun á ánægju fólks og viðhorfum t.d. til þess hvort strætó á Akureyri eigi áfram að vera gjaldfrjáls, sé kostnaður við gerð slíkrar könnunar. „Það væri gaman væri að sjá þær niðurstöður,“ segir Oddur Helgi.
-BÞ