Mayflor Perez Cajes, móðir ungs barns í Grímsey, telur leikskólaþjónustu óviðunandi í eynni. Grímsey sameinaðist Akureyrarkaupstað árið 2010 og hefur bærinn að sögn Mayflor ekki uppfyllt allar skyldur sínar síðan. Hún hefur sent umboðsmanni barna kvörtun vegna málsins.
„Ég er ekki sátt,“ segir Mayflor. „Ég hef ekki heyrt af neinni skerðingu á Akureyri eins og við megum þola hér.“
Mayflor segir þrjú leikskólabörn í eynni núna og hún vill að Akureyrarkaupstaður hrindi af stað átaki til að skapa hvata svo leikskólalært fólk geti hugsað sér að flytja til Grímseyjar. Hún viti dæmi um að áttræð amma hafi þurft að hlaupa í skarðið. Hún bendir einnig á að Akureyrarkaupstaður bjóði ekki upp á tómstundastarf fyrir börn í eynni. Á sama tíma sé „endalaust hægt að gera nýja leikvelli á Akureyri“.
„Ég óttast að ungt barnafólk og fjölskyldur hafi þegar sundrast vegna þess hve illa er staðið að þessum málum. Ef bærinn myndi bjóða lærðum leikskólakennara starf og frítt húsnæði gæti orðið bragarbót. En ég veit líka að það eru sérstakar aðstæður sem fylgja því að búa á lítilli og afskekktri eyju. Þetta er ekki einfalt mál,“ segir Mayflor.
Gunnar Gíslason fræðslustjóri segir að um framtíð leikskóla í Grímsey hafi ekki verið tekin nein ákvörðun að hálfu bæjarins. „Það er verið að skoða hvernig að þessum málum verður staðið og er það gert í samráði við þá íbúa sem í hlut eiga. Hver niðurstaðan verður liggur ekki fyrir enn.“
Gunnar segir að leikskólinn hafi verið með sama starfstíma og grunnskólinn þar en hann kannist við óvissu nú. „Starfsemi leikskólans í vetur hefur verið í ákveðnu uppnámi í haust þar sem erfiðlega hefur gengið að fá starfsmann og ekki lá ljóst fyrir með fjölda barna sem myndu nýta sér þjónustuna. Þetta er allt að skýrast þessa dagana og mun starfsemi hefjast von bráðar. Rétt er að taka fram að leikskólinn er deild í Grímseyjarskóla og er skólastjóri Grímseyjarskóla einnig skólastjóri leikskólans og ber ábyrgð á starfsemi hans.“
-BÞ