Last fær Seðlabankinn fyrir slæleg vinnubrögð og fúsk í málsókn sinni gegn Samherja. Svo skrifar karl. Hann segist ekki taka afstöðu til deilunnar sem slíkrar en ótrúlegt sé að sjá fjármunum almennings varið í málsókn þar sem ekki virðist hafa verið unnið eftir lagabókstöfum…
Lof fá Snæbjörn, Rúnar og Selma sem héldu nýlega golfmót á Þverá í minningu ungrar stúlku sem lést í fyrra. Svo segir kona sem sendi blaðinu bréf. „Umtalsverð upphæð safnaðist á þessu góðgerðarmóti sem ætlað er að styrkja aðstandendur þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi,“ skrifar konan.
Lof fær Atli Guðmundsson sölumaður í Tölvuteki „…en hann hefur einstaka þjónustulund, útgeislun og sinnir sínu starfi af fagmennsku og gleði. Alltaf gott að leita til hans og þar fást greinargóðar upplýsingar. Góð búð og góður starfsmaður,“ segir lesandi.
Last fá þeir aðilar sem sáu um matinn á Pæjumótinu á Siglufirði fyrir skemmstu. „Sams konar matur og í fyrra og enn og aftur borðuðu mjög fáar af fótboltastúlkunum þennan einhæfa, illa útilátna og óspennandi mat, pasta, pasta, fiskréttur án kartaflna og fleira í þeim dúr,“ skrifar foreldri sem sendi blaðinu bréf. „Almenn óánægja virtist meðal foreldra og barna með matinn. Foreldrar borga stórfé fyrir mat barnanna sem svo endar í ruslinu og enn og aftur þurfa foreldrar að gefa þeim að borða af nestinu,“ bætir hún við.
Lof fær Pálmi Gunnarsson fyrir frábæra frammistöðu í Hörpunni um helgina. Svo skrifar tónlistargestur sem heldur vart vatni. Hann bætir við að gaman væri ef Pálmi sæi sér fært að halda svipaða tónleika í Hofi. Kannski standi þar helst upp á viðburðarstjóra Hofs?…
Lof fær Leikfélag Akureyrar fyrir að „hýsa Atla listamann Listar án landamæra og ætla að setja upp verk hans. Gaman að sjá þau fara út fyrir margumræddan kassa,“ segir lesandi…