Hinn árlegi viðburður Leitin að Grenndargralinu sem ætlaður er nemendum á unglingastigi í grunnskólum Akureyrar, hefst föstudaginn 13. september. Í þetta sinn er Leitin valgrein en það er í fyrsta skipti frá því hún fór fyrst fram haustið 2008.
Þrátt fyrir nýtt fyrirkomulag er Leitin að Grenndargralinu í boði fyrir alla nemendur í 8.-10. bekk í grunnskólum Akureyrar, óháð því hvort þeir völdu hana sem valgrein eða ekki.
Leitin fer þannig fram að nemendur fá eina þraut í hverri viku og þegar þeir telja sig hafa leyst hana senda þeir svarið til umsjónarmanns með tölvupósti og fá, ef lausnin er rétt, sendan bókstaf til baka. Þegar allar þrautir hafa verið leystar og bókstafirnir innheimtir eru þeir notaðir til að mynda ákveðið orð sem er nokkurs konar lykilorð og er þekkt úr sögu heimabyggðarinar. Þegar þátttakendur ná að raða saman bókstöfunum og mynda sjálft lykilorðið öðlast þeir rétt til að hefja leit að Grenndargralinu. Til þess fá þeir eina lokavísbendingu sem vísar þeim á fundarstaðinn. Sá eða þeir sem fyrstir eru til að finna Gralið standa uppi sem sigurvegarar.
Hver þraut tengist sögu eða menningu Akureyrar og/eða Eyjafjarðar og er áherslan í verkefninu á sögu og menningu heimabyggðar þar sem lykillinn að árangri felst í dugnaði og góðri samvinnu.
Á vef Grenndargralsins segir: „ Í Leitinni að Grenndargralinu felst viðleitni til að færa nám nemenda í auknum mæli út fyrir kennslustofuna inn á vettvang þeirra sögulegu atburða sem þeir eru að kynna sér hverju sinni. Þar með minnkar vægi kennslubókarinnar en aðrir miðlar fá aukið vægi svo ekki sé talað um fræðslugildi vettvangsferðanna. Með þessu vaknar vonandi áhugi á samfélagsfræði þar sem nemendur upplifa námið merkingarbært, eitthvað sem komi þeim að gagni en umfram allt veki hjá þeim áhuga og virðingu fyrir því hvar rætur þeirra liggja.“
Verkefnið rekur rætur sínar til tilraunaverkefnis í grenndarkennslu hjá Giljaskóla en Brynjar Karl Óttarsson er upphafsmaður þess og er nú verkefnastjóri Leitarinnar að Grenndargralinu. Hann hefur m.a. hlotið viðurkenningu frá Skólanefnd Akureyrarbæjar fyrir verkefnið en í rökstuðningi dómnefndar segir m.a.: „Verkefni sem þessi efla skapandi og gagnrýna hugsun hjá nemendum auk þess sem reynir á þolinmæði og úthald þar sem leikurinn tekur nokkrar vikur. Frábært og metnaðarfullt framtak hjá Brynjari“. Einnig hlaut verkefnið styrk frá Sprotasjóði Menntamálaráðuneytisins.
Sumarið 2012 var boðið upp á sérstaka hátíðarútgáfu af Leitinni að Grenndargralinu í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrar. Gekk hún undir nafninu Grenndargral fjölskyldunnar. Í kjölfarið spruttu fram nýjar og spennandi hugmyndir um frekari landvinninga Leitarinnar og er hinn nýja valgrein hluti af því.
-SBS