Á hverjum degi fellur til ótrúlegt magn úrgangs úr plasti í veröldinni. Þar fara framarlega í flokki hinir sívinsælu plastpokar, en talið er að um 1 triljón plastpoka skili hlutverki sínu á heimsvísu á hverju ári. Ef litið er á Ísland eitt og sér notum við árlega um 50 milljónir burðarpoka úr plasti sem ekki brotnar niður í náttúrunni – fyrir utan allt annað einnota plast. Þessi gerviefnanotkun er bæði óþörf og óábyrg gagnvart náttúrunni.
Hvers vegna? Vegna þess að hefðbundnir plastpokar brotna ekki niður og eyðast lífrænt, heldur molna þeir á mjög löngum tíma niður í smærri plasteiningar sem að endingu verða að svokölluðu plastryki. Þetta plastryk endar í sjónum (berst með regnvatni, ám, foki, urðunarstöðum nálægt sjó o.s.frv.) og blandast að lokum við fæðu fugla og fiska. Oftast deyja dýrin vegna plastátsins, en ef ekki, menga þau alla fæðukeðjuna og þannig hittir plastið okkur sjálf fyrir þegar við nærumst á menguðu fiskmeti og kjöti.
Þessu til viðbótar má nefna að það þarf rúma 800 þúsund lítra af olíu til þess að framleiða þær 50 milljónir plastpoka sem við Íslendingar notum árlega – og þá má rétt ímynda sér orkuþörfina á heimsvísu. Með þessu er gengið að óþörfu á olíuforða heimsins á viðkvæmum tímum þegar sjálfbærni ætti að vera dagsskipunin.
Víða erlendis hafa neytendur tamið sér að hafa meðferðis margnota innkaupanet eða taupoka þegar þeir skreppa í búð. Þessi hugsunarháttur hefur því miður enn ekki náð að festa sig í sessi á Íslandi, hvorki meðal neytenda né kaupmanna – en nú er kominn tími til. Þetta er nefnilega svo sáraeinfalt. Í stað þess að kaupa hugsunarlaust tvo til þrjá plastpoka í hverri ferð í stórmarkaðinn er bæði ódýrara, þægilegra og grænna að hafa með sér sterka og margnota burðarpoka. Einnig er nú víða hægt að kaupa hérlendis tegundir af plastpokum sem brotna lífrænt niður í náttúrunni, þótt það virðist ekki vera öllum kunnugt. Í raun ætti notkun hinna óþolandi lífseigu plastpoka að vera orðin óþörf, því aðrir möguleikar eru til staðar.
Þess vegna langar okkur með þessu bréfi að hvetja alla Íslendinga, almenning, verslunarfólk og stjórnmálamenn, til þess að hrista nú loksins af sér plastið!
Hér má sjá tvö myndbönd um efnið.
Páll Óskar og plastið from Grænn Apríl on Vimeo.
Fréttatilkynning