Ný stöð fyrir jóga, Jógahofið, verður opnuð á Akureyri um mánaðamótin Aðstandendur segja mikið streituástand hafa einkennt þjóðfélagið okkar að undanförnu.
„Samkvæmt jógafræðunum erum við nú á leið inn í tíma þar sem allt er að koma upp á yfirborðið og skapast mikil ringulreið, svokallaða Vatnsberaöld. Einkunnarorð hennar eru „að vera til að vera“. Fólk er að leita eftir aðferðum til að tengjast sjálfu sér betur og átta sig á að það þarf að stoppa til að hugsa um sig sjálft en ekki síður um aðra. Yogi Bhajan, meistari Kundalini jóga, sagði að hamingjan væri fæðingarréttur hverrar manneskju. Það er hins vegar á okkar ábyrgð að öðlast hana,” segja þær Sandra Sif Jónsdóttir og Birna Málmfríður Guðmundsdóttir, stofnendur jógahofsins.
Þær telja fulla þörf á auknu jóga á Akureyri, enda sé fjölbreytni alltaf af hinu góða. Spurðar hvort konur séu einkum iðkendur svara þær að því miður séu karlar í minnihluta jógaiðkenda í hinum vestræna heimi. “Kannski álíta karlar jóga vera of mjúkt eða rólegt fyrir sig. Flestir skipta þó um skoðun eftir að þeir prófa og þeim virðist vera að fjölga.”
Þegar Birna var í Los Angeles að læra meðgöngujóga, segir hún að gaman hafi verið að sjá hve margir karlmenn voru fastagestir í jógastöðinni þar.
Sameining hugar og líkama
En út á hvað gengur jóga?
„Jóga þýðir union eða sameining sem vísar í sameiningu líkama, huga og anda. Jóga er mannræktarkerfi sem vekur upp vitund okkar þar sem við rannsökum eigin víddir, náttúru og dýpt sem manneskjur. Í jóga vinnum við að því að efla innkirtlakerfið, taugakerfið og ónæmiskerfið og byggjum þannig upp styrk innan frá svo við getum betur tekist á við álag og streitu. Við styrkjum einnig vöðva og liðkum líkamann en lærum jafnframt að hlusta á og virða eigin mörk.”
Allir geta iðkað jóga og hafi hugleiðslu heima hjá sér að þeirra sögn en þó mæla þær Sandra Sif og Birna með því að byrjendur leiti leiðbeininga hjá lærðum kennara. Spurðar um sérstöðu á markaði, tengingar við Akureyri og uppruna segja þær að Jógahofið sé ekki líkamsræktarstöð sem bjóði einnig upp á jóga heldur sé öll starfsemin byggð upp út frá ýmsum þáttum jógaiðkunar. “Við munum bjóða upp á fjölbreytta stundaskrá með opnum jógatímum, meðgöngujóga, hugleiðslutímum, djúpslökunartímum og ýmsum námskeiðum og viðburðum, bæði tengt jóga og barneignarferlinu. Grunnur okkar kemur líka úr Kundalini jóga sem hefur ekki verið nægilegt framboð af á Akureyri til þessa en til lengri tíma stefnum við þó á að bjóða upp á fleiri tegundir jóga.”
Sandra hefur lokið BA námi í félagsráðgjöf frá HÍ og Doulu námi. Hún er Kundalini jóga kennari og nemi í aldagamalli hugleiðslu- og heilunartækni. Birna er hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir og starfar á fæðingardeild Sjúkrahússins á Akureyri, auk þess sem hún sinnir heimaþjónustu við sængurkonur fyrstu 7-10 dagana eftir fæðingu. Hún er Kundalini jóga kennari og meðgöngujóga kennari.
-BÞ