Ljósmyndarinn Daníel Starrason opnar í dag sýningu sem ber heitið Norðlenskt tónlistarfólk. Allar myndirnar á sýningunni eru svarthvítar portrettmyndir af tónlistarfólki sem á rætur að rekja norður eða starfar á svæðinu. „Það er mjög gaman að taka myndir af tónlistarfólki því það hefur oft ákveðnar skoðanir á því hvernig það vill að myndin komi út, þetta eru svo mismunandi karakterar og mörgum finnst mikilvægt að ljósmyndin endurspegli það. Ég tek þau alveg út úr tónlistarheiminum og fer með þau í stúdíó þar sem ekkert er í kring og því verða myndirnar oft ólíkar öðrum myndum sem teknar eru af sama fólki,“ segir Daníel sem hefur myndað mikið á tónleikum og þar með margt af því fólki sem mun prýða ganga Hofs næstu vikurnar.
„Mig langaði til að gera þetta að einskonar heimild um tónlistarlífið á Norðurlandi á okkar tímum. Þetta er allt fólk sem er virkt í tónlist, sumir hafa verið að lengi en aðrir styttra. Allir eru að gera mjög spennandi hluti, sumir í útlöndum en aðrir inni í bílskúr,“ segir Daníel sem nú er önnum kafinn við að hengja upp myndirnar. „það gengur eitthvað brösuglega, límið er eitthvað að bregðast okkur og myndirnar eiga það til að detta niður svo það verður smá hjartsláttur á opnuninni í kvöld hvort þær hanga uppi,“ segir Daníel að lokum og hlær.
Sýningin fer fram á gangi Hofs og opnar kl. 18 í dag, föstudag. Ekki er ólíklegt að gestir opnunarinnar rekist á hluta myndefnanna á rölti um sýninguna.
-SBS