Rekstur Dalpay á Dalvík gengur vel um þessar mundir. Fyrirtækið fæst við svokallaða færslumiðlun þar sem vörur eða ýmist seldar í eigin nafni eða greiðslugátt notuð. Forstjóri, Björn Snorrason, segir að alls starfi 13 starfsmenn nú hjá fyrirtækinu, tveir í Bandaríkjunum, tveir í Hollandi en níu á Dalvík. Flestir eru forritarar.
„Markmiðið er að fá alla starfsmenn hingað norður til Dalvíkur,“ segir Björn en starfsemin er til húsa á annarri hæð í kaupfélagshúsinu á Dalvík.
Velta Dalpay hefur verið góð. Fyrirtækið seldi vörur í eigin nafni fyrir 2 milljarða króna fyrstu mánuði ársins og stefnir á allt að fimm milljarða króna árssölu. Viðskiptin ná út um mestallan heim.
Björn segir fáa galla við að starfrækja fyrirtækið á Dalvík. Kostir séu hins vegar fjölmargir s.s. lægri rekstrarkostnaður en t.d. í Reykjavík. Megnið af starfsmönnum Dalpay rekur rætur til Dalvíkur.