Fjölmörg dæmi erum að sauðfjárbændur hafi ákveðið að flýta göngum og réttum vegna norðan illviðris, hvassviðris, úrkomu og jafnvel snjókomu sem gert er ráð fyrir á morgun og laugardag. Áður auglýst réttadagskrá er í uppnámi en ástandið á ekki síst við um Norðlendinga. Víða hófust leitir í fyrradag og eru dæmi um að fé verði aðeins átta vikur á fjalli í sumar.
Í fyrra gerði fjárskaðahret 8. september og segja bændur nú að í ljósi þeirrar reynslu hafi margir ákveðið að „taka enga sénsa í ár“ eins og þingeyskur bóndi orðaði það. Hinu vonast menn eftir að veðrið verði skárra en spáð hefur verið. Spár hafa verið nokkuð misvísandi og hefur m.a. farið fram umræða um breytingu á dagskrá Akureyrarvöku vegna spárinnar. Í tilkynningu sem Veðurstofan sendi frá sér nú kl. 15 kemur fram að NA-land sleppi líklega sæmilega þar sem vindátt verður úr vestri og því ekki líkur á mikilli úrkomu, nema þá tímabundið seinnipart nætur aðfaranótt laugardags. „Um er að ræða óveðurslægð sem spáð er að dýpki mjög hratt en ennþá er nokkur óvissa um hvar lægðarmiðjan verður síðdegis á morgun og hefur það nokkur áhrif um hvar veður verður verst, þannig að full ástæða fyrir íbúa á norðan- og vestanverðu landinu að vera við öllu búnir,“ segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.
-BÞ