- Fulltrúar Akureyrarbæjar, Stefnu, Tækifæris og Háskólans á Akureyri undirrita samninginn
Í dag skrifuðu fulltrúar Háskólans á Akureyri, Stefnu hugbúnaðarhúss, Tækifæris fjárfestingasjóðs og Akureyrarstofu undir samstarfssamning um framkvæmd og þróun Atvinnu- og nýsköpunarhelgarinnar á Akureyri. Samningurinn felur í sér samstarf til næstu þriggja ára.
Atvinnu- og nýsköpunarhelgin á Akureyri hefur verið haldin undanfarin þrjú ár en henni er ætlað að stuðla að nýsköpun fyrirtækja og einstaklinga á efnahagssvæði Akureyrar með því að gefa frumkvöðlum kost á ráðgjöf við þróun og markaðssetningu viðskiptahugmynda.
Hreinn Þór Hauksson, verkefnastjóri atvinnumála Akureyrarbæjar segir þátt nýsköpunar og frumkvöðlastarfs vera gríðarlega mikilvægan fyrir efnahagslega þróun og nauðsynlegt að hlúa vel að slíkum þáttum. Ég skynja mikinn áhuga innan bæjarfélagsins á mikilvægi nýsköpunar og frumkvöðlastarfs og á eflingu atvinnuskapandi umhverfis,“ segir Hreinn og bætir því við að undirritun samstarfssamningsins sé stórt skref sem beri að fagna.
Samkvæmt samningnum verður Atvinnu- og nýsköpunarhelgin haldin í það minnsta einu sinni á ári en samningurinn gildir til ársins 2016. Settur verður á stofn starfshópur sem heldur utan um skipulag og undirbúning viðburðarins auk eftirfylgni við þátttakendur. Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri, segir mikilvægt fyrir skólann að vera aðili að verkefninu því mikið af nýsköpunarhugmyndum komi frá fólki sem er í námi en einnig sé þetta mikilvæg tenging milli skóla og atvinnulífs.
Meðal verkefna sem hafa orðið að veruleika eftir Atvinnu- og nýsköpunarhelgi á Akureyri er fyrirtækið Appia sem staðsett er við Ráðhústorgið á Akureyri en þar vinna þrír starfsmenn af þróun spurningaleiks fyrir snjallsíma en fyrirtækið hlaut verðlaun á síðustu nýsköpunarhelgi og hefur auk þess fengið frumkvöðlastuðning Nýsköpunarmiðstöðvar og styrk frá Vaxtasamningi Eyjafjarðar auk þess sem fjárfestingasjóðurinn Tækifæri hefur fjárfest í fyrirtækinu.
-SBS