Um verslunarmannahelgina hélt mótorhjólafólk á Akureyri súpupartý þar sem safnað var fé til stuðnings Aflsins sem eru samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi og starfrækt eru á Akureyri. 17.140 kr. söfnuðust og voru afhentar Önnu Maríu Hjálmarsdóttur, formanni Aflsins sem kann mótorhjólafólki bestu þakkir fyrir framlagið og segir að í starfi samtakanna muni um hverja krónu. „Við höfum fundið fyrir mikilli velvild samfélagsins í okkar garð og þó nokkrir aðilar hafa haldið viðburði til að styrkja okkur, þar má sem dæmi nefna, Zontaklúbbana sem hafa staðið þétt við bakið á okkur, Lionsklúbbinn Ylfu sem hélt kökuhlaðborð sumardaginn fyrsta til styrktar okkur, Kvenfélögin í Eyjafjarðarsveit héldu kaffisölu og gáfu okkur allan ágóða. Sjálfar höfum við verið með ýmsa fjáröflun t.d. kaffisölu, tónleika í Akureyrarkirkju og happdrættissölu. Einnig hefur fjöldi einstaklinga styrkt starfið okkar beint með gjöfum eða vinnuframlagi. Þetta er það sem gerir okkur kleyft að vera með öflugt starf til stuðnings þolendum ofbeldis á landsbyggðinni ásamt forvarnarstarfi,“ segir Anna María.
Mikið hefur verið um að vera hjá starfskonum Aflsins sl. vikur en þær hafa verið á gönguvakt allar nætur á Bíladögum, Einni með öllu og Fiskidögum auk þess að vera á vakt á Eistnaflugi á Neskaupsstað. Allar þessar hátíðir gengu vel og ekki hafa ennþá verið tilkynnt nein kynferðisbrot tengd þeim. „Við höfum þó reynslu af því að málin koma gjarnan til okkar mánuðum, jafnvel árum síðar,“ segir Anna María og bendir á að nú sé vetrarstarfið að hefjast og þau sem vilja taka þátt í sjálfshjálparhópum mega gjarnan hafa samband við Aflið í síma 857 5959.
-SBS