Heyrst hefur að sjaldan eða aldrei hafi nokkurt félag á Íslandi fengið eins neikvæða kynningu á nokkru máli og þegar þrjú skilti voru sett upp til að auglýsa flugmódelsýningu í Eyjafirði. Ein myndin á skiltunum var af fáklæddri konu sem reið flugmódeli. Varð allt vitlaust og brugðust margir við meinti kvenfyrirlitningu á spjallrásum landsins eftir að fréttavefurinn akureyrivikublad.is greindi fyrst frá málinu. Í hópi þeirra er brugðust við er Eyþór Ingi Jónsson, tónlistarmaður og organisti í Akureyrarkirkju. Hann lét mynda sig fáklæddan við ryksugu sem ímyndaða auglýsingu fyrir heimilistækjasýningu til að sýna fram á að fæstum dytti í hug að nota fáklæddan karl til þess. Með þessu mætti benda á kynjunina. Hefur heyrst að sumir jafnréttissinnar hefðu viljað ganga lengra og að pólitískt kjörin yfirvöld í Eyjafirði hefðu átt að blanda sér í leikinn. Aðrir vilja meina að ummæli sem höfð hafa verið eftir hlutaðeigandi séu næg refsing fyrir hlutaðeigandi. Þar hafi komið fram afstaða sem í besta falli þyki úrelt hjá nútíma Íslendingum sem berjast fyrir jafnrétti kynjanna.
Geta má þess að í 19. grein jafnréttislaga segir: „Auglýsandi, og sá sem hannar eða birtir auglýsingu, skal sjá til þess að auglýsingin sé öðru kyninu ekki til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnri stöðu og jafnrétti kynjanna á nokkurn hátt.“
Heyrst hefur að Akureyringarnir Orri Harðarson tónlistarmaður og Inga Elísabet Vésteinsdóttir,eiginkona hans, hafi eignast sitt annað barn í síðustu viku. Fæddist þeim stúlka á FSA en fyrir áttu þau tveggja ára hnátu. Lýsir Orri mikilli gleði með tímamótin á facebook-síðu sinni og birtir myndir af ört stækkandi glæsilegri fjölskyldu.
Orri er þekktur auk tónlistarstarfanna fyrir bókina Alkasamfélagið sem gefin var út fyrir nokkrum árum….