Guðmundur Ævar Oddsson sem lýkur doktorsgráðu í félagsfræði frá bandarískum háskóla næsta vor er annar tveggja höfunda að rannsókn sem fengið hefur töluverða athygli í Bandaríkjunum. Grein eftir Guðmund og Andrew Fisher hefur birst opinberlega um rannsóknina og sýna niðurstöður að borgaryfirvöld eru líklegust til að efla lögreglulið sín þegar mikill efnahagslegur ójöfnuður er meðal hvítra og annarra kynþátta og fátækt er útbreidd innan borgaramarka.
„Í þessari rannsókn prófuðum við annars vegar útskýringar virknikenninga og hins vegar útskýringar átakakenninga á hlutfallslegri stærð lögreglunnar í fjölmennari borgum Bandaríkjanna, þ.e.a.s. borgir með fleiri en 250 þúsund íbúa. Virknikenningar ganga út frá því að helstu skýringar á stærð lögreglunnar hafi að gera með þætti á borð við glæpatíðni, fjárhagstöðu borga, fjölda íbúa á ferkílómetra o.s.frv. Átakakenningar horfa aftur á móti fyrst og fremst á efnahagslegan ójöfnuð, fátækt og ýmsa þætti sem snúa að minnihlutahópum, s.s. hlutfall minnihlutahópa af fólksfjölda og kynþáttaóeirðir,“ segir Guðmundur Ævar.
„Niðurstöðurnar renna stoðum undir átakakenningar sem kveða á um að lögreglan gæti fyrst og fremst hagsmuna ráðandi hópa (hvítra og hinna efnameiri). Niðurstöðurnar gefa til kynna að ráðandi hópum standi sérlega mikil ógn af samblandi mikils efnahagslegs ójafnaðar milli hvítra og annarra kynþátta og útbreiddrar fátæktar og að slíkt ástand auki pressuna á borgaryfirvöld að efla lögreglulið sín.
Við erum með þeim fyrstu sem samþættum og prófum með tölfræðilíkönum kynþátta- og stéttasjónarhorn átakenninga til að útskýra stærð lögregluliða. Þessum sjónarhornum og sérstaklega mælingum er oftast haldið aðskildum. Við teljum aftur á móti að slík nálgun sé ófullnægjandi, ekki síst í ljósi þess að bandarískt þjóðfélag er langt frá því að vera einsleitt í kynþáttalegu tilliti – sem hefðbundar mælingar á efnahagslegum ójöfnuði gera ráð fyrir.“
Spurður um rasisma og hvort Bandaríkjamenn haldi almennt að kynþáttahyggja hafi engin áhrif segir Guðmundur Ævar að Bandaríkjamenn trúi því almennt ekki að borgurum sé mismunað á grundvelli kynþáttar. Spurningakannanir bendi til þess að þeir hafi styrkst í þessari trú síðustu áratugina. „Viðhorfin eru þó vissulega breytileg milli kynþáttahópa. Hins vegar skýra Bandaríkjamenn almennt (og þá sérstaklega hvítir) verri efnahagslegri og félagslegri stöðu minnihlutahópa, s.s. svartra og spænskættaðra, með öðru en mismunum. Algengari viðhorf eru að minnihlutahópar séu ekki tilbúnir að leggja eins hart að sér og hafi ekki sömu gildi og hinn hvíti meirihluti. Þetta er lífseig staðalímynd og er enn notuð til þess að réttlæta mismunun.“
Lesa má um rannsóknina hér