Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Stutt bil frá sósíalisma í trúarbrögðin

$
0
0

_D5A4969Hamar og sigð er á einu leiði við Lögmannshlíðarkirkjugarð í staðinn fyrir kross. Leiðið er nokkurra ára gamalt og segir Pétur Björgvin Þorsteinsson sem starfað hefur sem djákni við Glerárkirkju að hann hafi oft fengið sterk viðbrögð frá unglingum þegar hann fræðir nemendur um sögu og menningu við Lögmannshlíðarkirkju. Undantekningalítið vitni börnin í afa eða ömmu, hve hneyksluð þau séu yfir því að hamar og sigð sé á leiðinu en ekki kross. Stundum sé sú umræða kaldhæðin, stundum allt að því níð, sumir séu opnir fyrir umræðum þar um, aðrir ekki. „Ég reyndi eftir því sem mögulegt var að halda fram minni afstöðu að það væri sjálfsagður réttur hvers og eins að velja sér tákn á sitt leiði. Flestum krökkunum fannst það líka sjálfsagt að táknin væru misjöfn en veltu vöngum yfir afstöðu yfirleitt afa og ömmu,“ segir Pétur Björgvin.

Ekki vitað um annað eins
Pétur Pétursson, doktor í guðfræði og félagsfræði, prófessor við Háskóla Íslands, segist ekki vita önnur dæmi um hamar og sigð á leiði á Íslandi. Hann telur þetta tákn um þann líberalisma sem einkennt hafi Ísland síðustu 100 ár eða svo. Hann nefnir sem dæmi að Gunnar Benediktsson, sem hætti störfum sem prestur í Eyjafirði í kringum 1930, þegar hann gerðist agent fyrir Kommúnistaflokkinn, hafi fengið heimild til að jarðsyngja framámenn í Kommúnistaflokknum í Reykjavík, í lánshempu Bjarna dómkirkjuprests. Einn af sungnu sálmunum við þær útfarir hafi verið internationalinn.
„Internationalinn er um frelsi undan þjáningum, og frelsarann í vissum skilningi þótt hann sé ekki nefndur á nafn. Ef litið er á táknmál kristninnar hefur það frá upphafi aðlagast hinum ýmsu táknum í því menningarumhverfi sem kirkjan hefur starfað í og hún hefur gert alls konar tákn að sínum. Hamar og sigð Sovétleiðtoga byggðu á gömlum frumtáknum sem eru sameiginleg kristni og ýmsum öðrum stefnum kristni og ýmsum öðrum stefnum. Þórshamarinn er sem dæmi um þetta. Guðinn Bal sem er fyrirrennari bæði Jave og Þórs sveiflaði hlut sem er kylfa aða hamar og til eru útgáfur af Þórshamri sem geta verið kross ef þeim er haldið á sérstakan hátt, eins og td Þórshamarinn á Þórslíkneskinu sem fannst í Eyrarlandi í Eyjafirði og er kenndur við þann bæ. Það sem borið er inn í kirkjuna við heilagar athafnir helgast af boðskap hennar og það má segja að það geti gerst við hamar og sigð. Þá víkur kommúnisminn til hliðar fyrir Kristi og krossi hans. Líta má á sigðina sem uppskerutæki, maðurinn með ljáinn er maðurinn með sigðina. Á dómsdegi einstaklingsins, í jarðarförinni, kemur engillinn með ljáinn, þá er uppskeran, illgresinu er kastað á eldinn en kornið fer í hlöðu. Þannig að ég myndi túlka þetta serm svo að hinn látni hafi e.t.v. viljað heiðna útför, en aðstandendur ekki getað hugsað sér að láta grafa ástvininn utangarðs og þá hafi verið hægt að ná málamiðlun eins og þessari, kristinn prestur getur alveg heimilað slíkt svigrúm, slíkt er leið til að hugga eftrlifendur,“ segir doktor Pétur.

Pétur Pétursson, prófessor í trúarbrögðum, skilur ekki ofstækið gegn moskum á Íslandi. Ótti um hryðjuverk getur ekki kæft niður hugmyndina um trúfrelsi.

Pétur Pétursson, prófessor í trúarbrögðum, skilur ekki ofstækið gegn moskum á Íslandi.

Engin ástæða að hneykslast
Með öðrum orðum þarf ekki að vera nein ástæða til að hneykslast á táknunum á leiðinu þótt Íslendingar hafi vanist því að sjá hefðbundnari fyrirbrigði á leiðum, einkum legsteina og krossa. Pétur segir færast í vöxt í Svíþjóð svo dæmi sé tekið að alls konar tákn og munir prýði leiði þar í seinni tíð.

„Ef ég væri prestur gæti ég hæglega lagt út af hamri sem krossi og sigð sem uppskeruverkfæri fyrir guðsríki. Í þessu samhengi er stutt í fyrirheitna landið í sósíalismanum, hið stéttlausa fyrirmyndarþjóðfélag sem frelsunarsaga sögulegrar efnishyggju stefndi að. Auðvitað getur hamar og sigð stungið í augun fyrir þá sem ekki gera sér grein fyrir dýptinni í þessum frumtáknum en þau eru sammmannleg, þau eru engin einkaeign kristninnar.“

Moskuandóf „óskiljanlegt ofstæki“
Mikil umræða hefur farið fram hérlendis um moskubyggingu í Reykjavík. Pétur segir að líberalismi í seinni tíma trúarhyggju Íslendinga rími illa við þá miklu andstöðu sem komið hafi fram í opinberri umræðu um mosku hér á landi.
„Líberalisminn lagar sig að kröfum um rannsóknarfrelsi, trúfrelsi og einstaklingsfrelsi. Íslenskt samfélag er búið að lýsa yfir bindandi stuðningi við alþjóðasáttmála um trúfrelsi. Þeir múslimar sem búa hér eiga rétt á að biðja sínar bænir í rými sem þeim hentar, þeir geta það ekki fyrir framan kross Krists. Það ætti að því vera kristnum mönnum hér á landi keppikefli að múslimar fái sínar moskur. Sín bænahús. Múslimar viðurkenna Krist sem spámann en afneita því að hann hafi verið guð og dáið á krossinum, svoleiðis gerir ekki spámaður í þeirra huga. Þess vegna afneita múslimar krossinum og breiða yfir hann, en það geta kristnir menn illa sætt sig við.“

Pétur segir að andstaðan við moskubygginguna hér á landi hafi komið sér á óvart. „Þetta er í mínum huga óskiljanlegt ofstæki sem blossað hefur upp. Líberalistar ættu að fagna fjölhyggju og láta ekki dogmatískan skilning á táknum trufla sig heldur hafa mannúð, umburðarlyndi og trúfrelsi að leiðarljósi. Á þessum gildum, sem eru í hæsta máta kristileg, hvílir nútímamenning. Aðlögun kirkjunnar að menningunni á að vera á forsendum mannúðlegra sjónarmiða, ekki síst gagnvart börnum. Þar var íslenska kirkjan, frjálslynd, umburðarlynd og þjóðleg, fljót að taka við sér, lagði t. d. niður að mestu leyti kennslu sem fól í sér kenningar sem þau höfðu ekki forsendur til að skilja eða laga að kærleikshugsun Krists sem er aðalatriðið í kristinni trú. Nefni þar kenninguna um eilífa útskúfun vantrúaðra sem Akureyrarpresturinn Matthías Jochumsson var fyrstur íslenskra presta til að hafna opinberlega. Samkvæmt líberalguðfræðinni á ekki að ala börn upp í bókstafstrú eða dogmatík heldur að miða boðunina við forsendur lýðræðislegs þjóðfélags. Sannir kristnir líberalistar geta ekki hugsað sér að beita valdi í trúboði. Kristnin gengur út á fagnaðarboðskap og frelsun undan valdi heimsins en alls ekki að hreppa fólk í áþján ofstækis. Lágmark okkar Íslendinga í þessum efnum er að umbera moskurnar – það er ókristilegt að berjast gegn þeim.“

Spurður hvort andstöðuna við mosku hér á landi megi skýra með ótta fólks við hryðjuverk, segir Pétur sjálfsagt að íslensk stjórnvöld fylgist með hvernig moskan verði fjármögnuð. Þannig megi tryggja að hryðjuverkasamtök standi þar ekki að baki eða hyggist ná einhverjum ítökum. Slíku eftirliti megi hins vegar ekki rugla saman við þau grundvallarmannréttindi að múslimar fái sitt eigið bænahús hér á landi.

-BÞ


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718