Leikklúbburinn Saga frumsýndi í gær verkið Leyndarmál eftir Jónínu Leósdóttur. Verkið var fyrst sýnt árið 1997 hjá Leikfélagi Fjölbrautarskólans í Breiðholti og var sýnt síðar sama ár hjá Leikfélagi Fjölbrautarskólans á Vestfjörðum og svo ári síðar hjá Leikfélagi Fjölbrautarskóla Suðurlands.
Verkið tekur á ýmsum málum ungs fólks sem er að byrja að fóta sig í lífinu og kynlífinu og höfðar því afskaplega vel til áhorfenda í yngri kantinum.
Í leikklúbbnum Sögu er fólk á aldrinum 15-25 ára og sjá þau sjálf um allt sem tengist sýningunni. Leikstjóri er Natalia Ýr og er þetta hennar fyrsta leikstjórnarverkefni.
Hafdís Sigurðardóttir leikur aðalhlutverkið í sýningunni og segir hún æfingarferlið hafa verið mjög gott. Þau hafi æft verkið frá því í maí, bæði utandyra og í Rósenborg. „Við erum mjög ánægð með þetta, við fengum góðar viðtökur á frumsýningunni í gær, það var mikið hlegið og þetta var bara æðislegt,“ segir Hafdís.
„Við völdum þetta verk því það fjallar um svo merkilega hluti og það er mjög mikilvægt að tala um þá,“ segir Hafdís aðspurð út í verkefnavalið en framundan segir hún vera þátttöku í norrænu leiklistarverkefni og hugsanlega verði sett upp jólaleikrit.
Blaðamaður fór á frumsýningu verksins í gærkvöldi og hvetur bæjarbúa, ekki síst af yngri kynslóðinni, til að drífa sig að sjá afrakstur af þessu skapandi og metnaðarfulla verkefni leikklúbbsins Sögu.
Aðeins tvær sýningar verða til viðbótar, í kvöld, fimmtudag, kl. 20:30 og annað kvöld, föstudag, kl. 19:30. Aðgangseyrir er 1.500 kr. sem greiðast þarf með reiðufé þar sem ekki er posi á staðnum.
-SBS