Þriðji flokkur KA í handbolta mun halda í æfingarferð til Ungverjalands um komandi helgi. Þeir munu þar taka þátt í æfingarmóti alla næstu viku og fá að æfa og spila við einar bestu aðstæður heims.
Mótið heitir Cell-Cup og er þetta í fyrsta skipti sem að lið frá Akureyri tekur þátt á mótinu en ásamt KA munu HK og Fylkir taka þátt frá Íslandi. Mótið er gríðarlega stórt í umsvifum og keppendur hlaupa á þúsundum frá allri Evrópu. KA mun spila gegn liðum frá Þýskalandi, Ungverjalandi, Slóveníu og Rússlandi í riðli sínum en alls spila KA-strákarnir sex leiki.
Haddur Júlíus Stefánsson þjálfar drengina sem eru á aldrinum 15-16 ára og eru 12 sem fara. Mótið er haldið í borginni Vezprém en það er ein mesta handboltaborg Evrópu og liðið í borginni, Vezprém, er eitt það fremsta í Evrópu. Einhverjir af leikmönnum Vezprém munu vera sýnilegir keppendum á mótinu, gefa eiginhandaráritanir og spjalla við upprennandi handboltakappa.