„Það er nefnilega með ólíkindum stutt á milli lífs og dauða, en sem betur fer eigum við frábæra lækna og hjúkrunarfólk, sem ásamt áhöfn sjúkraflugvélarinnar komu í þetta sinn í veg fyrir að illa færi. Flugmennirnir eru orrustuflugmenn okkar Íslendinga. Það að þeir skyldu fara af stað við slæmar aðstæður til þess að koma manni í örugga höfn segir meira en mörg orð.”
Þessi orð mælti Árni Helgason kennari á Akureyri í Akureyri vikublaði í vetur. Þá veiktist hann skyndilega og máti litlu muna að illa færi. Hann þakkaði áhöfn Mýflugs að hann skyldi komast suður í bráðaaðgerð á Landspítalann við erfiðar flugaðstæður. Og enn þakkar þjóðin. En syrgir líka.
Norðlendingar voru minntir á það sl. mánudag hve stutt er milli lífs og dauða þegar sjúkraflugvél Mýflugs brotlenti sl. mánudag skammt frá þéttbýli Akureyrar á akstursbraut Bílaklúbbs Akureyrar. Þar misstum við tvö mannslíf, mannslíf flugmanns og sjúkraflutningamanns. Þeir höfðu helgað lífi sínu að bjarga öðrum.
Það er sárt þegar bjargvættir deyja. Missir okkar hér fyrir norðan er meiri en orð fá lýst. Missir slökkviliðsins á Akureyri er þungur. Áfall Mýflugs þungt. Fram að slysinu hafði uppgangur fyrirtækisins verið ævintýri líkastur. Vonandi verður áfallið, þótt þungt sé, ekki til þess að sú mikla reynsla og þekking sem safnast hefur upp innan fyrirtækisins verði að engu. Þekking sem bjargað hefur mannslífum.
Önnur tvö mannslíf misstu Íslendingar í umferðarslysi um verslunarmannahelgina. Þá vorum við einnig minnt á hve stutt er milli glaðrar stundar hjá ungu fólki sem hélt það ætti alla framtíð fram undan og dauða. Fyrir mörgum árum hrapaði önnur flugvél í Skerjafjörðinn að kvöldi frídags verslunarmanna. Þá létust sex manns. Þjóðin var lengi að jafna sig þá. Sama er uppi á teningnum núna.
Ljós í myrkrinu er að fólk bjargaðist líka úr þessum slysum. Og verr hefði getað farið á jörðu niðri þegar sjúkraflugvélin fórst. Tala sumir um kraftaverk að við höfum ekki misst enn fleiri líf í slysum helgarinnar.
Akureyri vikublað sendir aðstandendum þeirra sem létust í slysum um verslunarmannahelgina einlægar samúðarkveðjur.
Björn Þorláksson
ritstjóri