Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Meðal mótmælenda í Istanbul – þegar gasgrímur verða hluti af tilveru fólks

$
0
0
Anna Guðný Júlíusdóttir

Anna Guðný Júlíusdóttir

Anna Guðný Júlíusdóttir Akureyringur lýsir hér í Akureyri vikublaði upplifun sinni af ferðalagi í Istanbul. Þarna hefur eins og flestum mun kunnugt soðið upp úr vegna mannréttindamála undanfarið en fáir Íslendingar hafa farið þarna um undanfarið og er því sjónarhorn Önnu Guðnýjar merkileg heimild.

Ég hafði vonast til að upplifa iðandi mannlíf í þessari stóru borg, Istanbul, með hátt í 17 milljónir íbúa og varð að sannarlega að ósk minni. Við komum á mánudegi til Istanbul og mótmælin á Taksim Square höfðu þá staðið yfir í nokkra daga. Á laugardeginum hafði lögreglan gert atlögu að mótmælendum með því að sprauta á þá vatni og táragasi úr brynvörðum bílum.

Hótelið okkar reyndist vera einni götu frá Taksim Square þar sem mótmælendur höfðu komið saman. Taksim Square skiptist í raun upp í stórt steinsteypt umferðartorg og stóran almenningsgarð. Þar sem við gengum um almenningsgarðinn fyrsta daginn sáum við margt ungt fólk sem sat saman á grasi vöxnum svæðum. Augljóst var að mikið hafði gengið á á Taksim Square þar sem m.a. mátti sjá brennda bíla. Fjöldi götusölumanna hafði tekið upp á að selja viðeigandi búnað fyrir mótmælendur. Þar voru táragasgrímur vinsælur sem og sundgleraugu og tyrkneski fáninn með Ataturk greinilega vinsæll varningur. Ataturk var fyrsti forseti Tyrkja árið 1923 þegar lýðveldið Tyrkland var stofnað. Hans er greinilega enn minnst sem hetju, enda tókst honum að sameina þjóð sína sem skiptist í kristna og múslímska íbúa með því að aðskilja ríki og trúarbrögð.

Megnið af hraðbönkum eyðilagt
Í u.þ.b. 2ja-3ja km göngugötu sem liggur út frá torginu, þar sem vestrænar verslunarkeðjur eru áberandi, mátti líka sjá að mikið var að gera meðal glerrúðusala við að skipa út stórum brotnum rúðum í mörgum af vestrænu verslununum. Búið var að eyðileggja megnið af hraðbönkunum á svæðinu. Hvergi í allri þessari mannmergð sem nam sennilega um 30-40 þúsundum var að finna lögregluþjóna. Það kom á óvart í þessu meinta íslamska lýðræðisríki að nánast allir voru vestrænir í klæðnaði. Einungis ein og ein múslimakona sást í hefðbundnum múslímskum klæðnaði, mun færri en ég er vön að sjá í miðborg Osló þar sem ég bý. Enda kom á daginn þegar við spjölluðum við þetta unga vestræna fólk að barátta þeirra snérist um að geta lifað í frjálsu lýðræðisríki og geta t.d. ferðast til Evrópu án vegabréfsáritunar. Draumur þeirra var að öðlast sambærilega möguleika til náms og ungt fólk nýtur í vestrænum lýðræðisríkjum.

Tyrkneskur háskólaprófessor sagði mér að þróunin síðustu 10 árin hefði verið sú að yfirvöld hefðu þrengt að frelsi Tyrkja með einræðislegum íslömskum lögum. Því studdi háskólasamfélagið mótmæli unga fólksins. Háskólinn í Istanbul hafði líka sýnt stuðning sinn í verki með því að fresta vorprófum nemenda þannig að unga fólkið gæti einbeitt sér að mótmælunum. Þegar ég ræddi við móður sem jafnframt var verslunareigandi studdi það einnig grun minn um að þetta unga tyrkneska fólk lifði í svipuðum raunveruleika og ungt fólk í Evrópu. Hún brosti breitt þegar hún sagði að hún væri svo stolt og hissa á að unga fólkið þ.á.m. sonur hennar hefðu gerst virkir þátttakendur í samfélagsmótmælunum. Hún og fleiri hefðu haldið að það sem hún kallaði Internetkynslóðina hefði einungis áhuga á internetinu og öðrum veraldlegum hlutum, því hefði það komið ánægjulega á óvart að unga fólkið væri nú að sýna þróun samfélagsins svo sýnilegan áhuga.
Með löngutöng að vopni gegn valdinu

Þá daga sem við vorum í Istanbul urðu búðir mótmælenda í Taksim garði stöðugt fjölmennari og sýnilega skipulagðari. Megnið var ungt vinalegt og prútt fólk sem töluðu mun meiri ensku en fólk í öðrum hluta borgarinnar. Það var þeim greinilega mikilvægt að allt færi vel fram. Það mátti m.a. sjá á morgnana þegar mótmælendur gengu skipulega til verks og hreinsuðu allt rusl sem hafði safnast upp um næturnar. Það var því allt mjög snyrtilegt í Taksim garði þessa dagana.
Ég komst ekki hjá því að hugsa að í sambærilegum tjaldbúðum með fleiri þúsundum ungmenna í Skandinavíu hefði ölvun og slagsmál orðið mjög sýnileg. Það var hins vegar ekki að sjá í Taksim garðinum. Hins vegar var mikill stemming þar sem þau marseruðu um með fána bæði í garðinum og í göngugötunni við Taksim torg og kyrjuðu baráttuslagorð. Það var einnig algengt að sjá þau dansa tyrkneska hringdansa við eigin söng. Mannlífið var iðandi. Fyrst var erfitt að átta sig á því hvort fjöldinn í göngugötunni væri í verslunarleiðöngrum eða hvort um þátttakendur í mótmælunum væri að ræða. En það skýrðist þegar mannfjöldinn varð enn meiri eftir lokun verslana og fjöldinn klappaði þá upp og hvatti sem marseruðu upp og niður göngugötuna. Það var einnig mjög sérstætt að vera í göngugötunni þegar eftirlitsþyrla flaug yfir götuna. Á augabragði höfðu yfir 90% af fjöldanum beint langatöng að þyrlunni með tilheyrandi munnsöfnuði.

turkey-67

Ófyrirsjáanleg stjórnvöld
Við óttuðumst ekkert að vera meðal þessa vingjarnlega og kraftmikla fólks þó að engin lögregla væri til staðar. Hins vegar vorum við vör um okkur vegna hættu á ófyrirsjáanlegum viðbrögðum stjórnvalda, enda höfðu þau áður sýnt mótmælendum hörku, m.a. með táragasi. Þar sem fjöldinn varð sífellt meiri og varla minni en 50 þúsund manns á kvöldin, var erfitt að átta sig á hvernig stjórnvöld myndu bregðast við. Þegar leið á vikuna var líka mjög sýnilegt að fleiri en unga fólkið sáu ástæðu til að taka þátt í mótmælunum, því stöðugt varð meiri breidd í aldurssamsetningu mótmælenda.

Hrætt fólk á hlaupum
Eitt kvöldið sáum við fréttir ríkissjónvarpsins á Íslandi. Það var mjög undarlegt að ekkert væri sagt frá öllum þessum fjölda mótmælenda en birt voru ummæli íslamíska einræðislega forsætisráðherrans, að hætta stafaði af hryðjuverkamönnum á Taksim torgi. Sý lýsing féll ekki að okkar raunveruleika meðal þessa fólks á torginu.

En ástandið var eldfimt og lítið þurfti til til að fólk varð hrætt. Það upplifum við eitt kvöldið þegar við vorum á leið á hótelið. Ég, maðurinn minn og dóttir ákváðum að ganga í gegnum garðinn og taka púlsinn á mótmælendum en foreldrar mínir gengu meðfram garðinum. Þá kom stór hópur fólks sem var augljóslega mjög hrætt hlaupandi út úr garðinum, hélt yfir höfuð sér og hrópaði terrorism, terrorism. Móður minni brá mikið þar sem hún vissi af okkur inni í garðinum.
Þá máttum við vera undir táragas búin og eitt kvöldið þegar við vorum á leið á hótelið frá veitingastað hafði lögreglan augljóslega beitt slíku gasi. Því þó við værum nokkuð frá garðinum fundum við fyrir sviða í augum og nefi. Fólk hélt um vitin meðan það gekk burt frá torginu. Við keyptum því táragasgrímu fyrir 15 ára dótturina sem leist nú ekki allt of vel á þetta meðan við hin notuðum slæður og annað lauslegt til að verjast táragasinu. Á Taksim torgi voru brúsar með mjólk til að hreinsa augun.

Eftir þessa daga á Taksim torgi var ekki laust við að ég fyndi fyrir mikilli samkennd með þessu unga flotta fólki sem barðist fyrir frelsi og því sambærilega lífi sem við tökum sem sjálfgefnu í Norður- Evrópu. Ég fékk löngun til að deila minni upplifun af þessu fólki og baráttu þeirra, enda hefur það óneitanlega áhrif á umfjöllunina í fjölmiðlum að tyrknesk yfirvöld eiga heimsmet í að fangelsa fréttamenn sem segja fréttir sem eru yfirvöldum ekki þóknanleg. Því er undarlega lítil umfjöllun í tyrkeskum fjölmiðlum um þessi gríðarfjölmennu mótmæli.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718