Að morgni mánudagsins 17. júní sl. brautskráði Menntaskólinn á Akureyri 149 stúdenta við hátíðlega athöfn í Íþróttahöllinni. Við það tækifæri gerði Jón Már Héðinsson skólameistari laun kennara að umtalsefni og sagði brýna þörf á að hækka grunnlaun þeirra og komast að samkomulagi um nýja vinnutímaskilgreiningu.
Jón Már sagði skólann státa af metnaðarfullum nemendum sem margir hefðu náð framúrskarandi árangri. Fjölmargir nemendur fengu viðurkenningar á skólahátíðini. Meðaleinkunn á stúdentsprófi var 7,38. Dux scholae er Hlöðver Stefán Þorgeirsson með einkunnina 9,28 og semidux Kristín Kolka Bjarnadóttir með 9,23 en alls voru sex nemendur með ágætiseinkunn á stúdentsprófi.
Á nýliðnu skólaári þreyttu 744 nemendur nám við skólann, 221 á fyrsta ári, 187 á öðru ári og sami fjöldi á þriðja ári og stúdentar voru 149. Hæstu einkunnir í bekkjum hlutu Arna Ýr Karelsdóttir í 1. bekk (9,89), Ásdís Björk Gunnarsdóttir í 2. bekk (9,79), Margrét Sylvía Sigfúsdóttir í 3. bekk (9,07) og Andri Már Þórhallsson í 4. bekk (9,79).