Til snarpra umræðna kom á fundi sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps á fundi í fyrradag en þar hafa um 600 íbúar sveitarfélagsins mátt sjóða neysluvatn síðan í leysingum í síðustu viku. Fulltrúi Norðurorku mætti á fundinn og reyndi að skýra mál fyrirtækisins en ástandið er þreytandi fyrir íbúa og ekki síður stór fyrirtæki í hreppnum. Þar má nefna Kjarnafæði, nokkur hótel og eggjabú, auk þess sem nokkrum fjölda fólks í sumarhúsum hugnast illa að sjá brúnt vatn koma úr krananum.
Vatnsból Norðurorku sem þjónar íbúum er ekki gamalt en sumir íbúar telja að tæknilegir gallar séu á bólinu. Í tilkynningu frá Norðurorku í síðustu viku sagði m.a.: „Mengunin er af völdum ofanvatns en óvíst er hvenær ástandið lagast þar sem gífurlegar leysingar hafa verið og munu væntanlega verða næstu daga. Norðurorka mun fylgjast með vatnsgæðum með sýnatökum og gefa út nýja tilkynningu þegar ástand vatnsbóla lagast.
Þetta á við um öll hús sem tengd eru vatnsveitu Norðurorku í Svalbarðsstrandarhreppi frá Kotabyggð og norður að Garðsvík.“