Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Ferðaþjónustan hér eins og olían fyrir Norðmenn

$
0
0
Ómar Ragnarsson

Ómar Ragnarsson

Í kvöld kl. 20 verður myndin In memoriam? eftir Ómar Ragnarsson sýnd í Hofi en myndin var gerð haustið 2003 fyrir erlendan markað og hefur ekki verið sýnd hérlendis fyrr. Ómar verður viðstaddur sýninguna og mun flytja inngang að myndinni og svara spurningum áhorfenda að henni lokinni.

„Ég tel að þessi myndi eigi einmitt mikið erindi til Íslendinga í dag. Við stöndum í svipuðum sporum nú og árið 2003 þegar verið var að taka ákvarðanir um byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álversins á Reyðarfirði. Margt bendir til þess að við stefnum af stað í annað eins ævintýri og það er því mikilvægt að líta um öxl og skoða það sem var að gerast fyrir 10 árum, hvernig fór, hvað var sagt þá og hvernig gekk það eftir sem þá var sagt. Afleiðingar þessara framkvæmda eru mikið til að koma í ljós núna.

Ég vona svo sannarlega að fólk eigi eftir að njóta myndarinnar. Það eru atriði í henni sem er ótrúlegt að hafi náðst á filmu. Til dæmis náði ég mynd af því þegar 1000 tonna ísstál hrundi úr þaki í helli í Kverkfjöllum sem ég hafði sjálfur staðið undir nokkrum mínútum áður og eins náði ég myndskeiði þar sem 40 metra hár ísturn hrundi ofan í Grímsvötn. Það var alveg ótrúlegt að ná þessum myndum og á bara ekki að vera hægt, hvað þá tvisvar, ég var reyndar heppinn að sleppa lifandi í fyrra skiptið.

Sérstæðasta eldfjallasvæði í heimi
Fyrripartur myndarinnar fjallar um Vatnajökulssvæðið. Þegar borin eru saman helstu eldfjallasvæði heims kemur í ljós að hinn eldvirki hluti Íslands er langsamlega stærsta, fjölbreyttasta og sérstæðasta eldfjallasvæði í heimi. Ég las bók um mestu undur veraldar þar sem af 40 náttúruundrum eru sjö í Evrópu og bara tvö á Norðurlöndunum; annað eru norsku firðirnir og hitt er hinn eldvirki hluti Íslands. Ekki einu sinni Yellowstone svæðið í Bandaríkjunum kemst þarna á blað. Samt taka Bandaríkjamenn ekki í mál að virkja í Yellowstone því síðan 1872 hefur svæðið verið heilög jörð og verður aldrei snert. En okkar svæði, sem er miklu merkilegra teljum við einskis virði nema til að virkja það. Á þessu ári fer ferðaþjónustan líklega yfir sjávarútveginn í tekjuöflun. Það þýðir að ferðaþjónustan hefur jafn mikið vægi fyrir þjóðabúskapinn okkar eins og olían hefur fyrir Norðmenn. Það er alltaf verið að tala um að þeir séu svo ríkir vegna olíunnar en svo kunnum við ekki að meta þessa auðlind okkar.

Þarf að klára handritið áður en ég fer
Ég hef varið ógrynni af tíma – og auðvitað peningum – í að mynda hálendi Íslands. Ég hef farið 100 ferðir frá Reykjavík upp á Hálendið við Kárahnjúka og vinnudagarnir yfir 300 þar á svæðinu. Ég á myndefni í alveg stórkostlega mynd sem ég kalla Örkina. Efnið hef ég hef tekið á Hálslóni við Kárahnjúkavirkjun. Ég vona bara að mér endist tími til að í það minnsta klára handritið. Ef ég næ að klára handritið áður en ég fer, ég þarf bara að banka í borðið að ég fari ekki eins og hann Hemmi Gunn, þá getur einhver góður kvikmyndagerðamaður klárað hana.

Skil þá sem vildu virkja Gullfoss
Ég hef meiri skilning á þeim sem vildu Laxárvirkjun á sínum tíma heldur en Kárahnjúkavirkjun eða þeim virkjunum sem áætlað er að reisa. Þá voru Akureyringar rafmagnslausir dögum saman yfir veturna. Mér finnst svo mikill munur á því hvort þú ert rafmagnslaus í myrkri og kulda og vilt bæta úr því eða hvort þú ætlar að framleiða tífalt það rafmagn sem þú þarft. Það er grundvallarmunur á þessu. Ég get jafnvel skilið þá sem vildu virkja Gullfoss. Sú virkjun hefði haft stórkostlega byltingu í för með sér á þeim tíma þegar helmingur þjóðarinnar bjó í torfkofum. En það hefði verið til hagsbóta fyrir íbúana. Þá var ekki einu sinni verið að hugsa um að hægt væri að græða á náttúrunni í gegnum ferðamennsku. Við Íslendingar erum alveg einstök að því leyti að við erum of nísk til að gera neitt til að varðveita náttúruna. Ef við lítum til Bandaríkjanna þá sjáum við að þeir halda sínum þjóðgörðum ósnertum og þjóðin á þá. Svo er þessu stjórnað þannig að það eru engin spjöll af völdum ferðamanna. Við Íslendingar erum áratugum á eftir í þessu tilliti. Ef það þarf að leggja vegi til að auka aðgengið að þessum stórkostlegu náttúruperlum þá bara gerum við það – og við látum ferðamennina borga fyrir það. Það þarf ekkert að virkja til að gera hálendið aðgengilegt, það er fáránlegt að halda því fram. Það er alltaf talað um annað hvort orkunýtingu eða verndun, það er aldrei talað um verndarnýtingu. Það er vegna þess að þeir sem vilja virkja hafa ráðið orðræðunni, við þurfum að breyta þessu. Besta dæmið um verndarnýtingu er auðvitað Gullfoss en tækifærin eru ótal mörg.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718