
Úr verklegum hluta námsins
Íþróttaakademía Keilis verður með kynningarfund um nýtt leiðsögunám í ævintýraferðamennsku í húsakynnum Heilsuþjálfunar á Akureyri að Tryggvabraut 22 (3. hæð) á morgun, miðvikudaginn 25. júní, kl. 19.30.
Námið sem um ræðir er á háskólastigi og er boðið upp á það í samstarfi við Thompson Rivers University (TRU) í Kanada. „Um er að ræða átta mánaða nám sem hentar vel þeim sem hafa mikinn áhuga á ferðamennsku og útivist við krefjandi aðstæður,“ segir Arnbjörn Ólafsson, forstöðumaður markaðsmála hjá Keili. Bóklegi hluti námsins fer fram fyrir sunnan í Keili á Ásbrú en verklegur hluti námsins fer fram úti í íslenskri náttúru um allt land.
„Nemendur koma svo víðsvegar að af landinu. Fyrsti hópurinn útskrifast nú í ár, en þá munu 13 manns fá staðfestingu á að hafa lokið náminu. Allir nemendurnir hafa nú þegar fengið vinnu í sumar, auk þess sem nokkrir hafa fengið inngöngu í framhaldsnám í Thompson Rivers University í haust,“segir hann. „Þess má geta að Jökull Bergmann, sem rekur fyrirtækið Bergmenn Mountain Guides og Arctic Heli Skiing á Dalvík, er útskrifaður nemandi úr náminu í Kanada,“ bætir Arnbjörn við.
Eftir námið í Keili útskrifast nemendur með alþjóðlegt skírteini frá Thompson Rivers University (sjá Adventure Sport Certificate). Allar einingar námsins eru metnar í framhaldsnám við skólann á sviði ævintýraferðamennsku, svo sem diplómunám í ævintýraleiðsögn, diplómunám í ævintýrastjórnun eða fullt nám til BS gráðu í ævintýrastjórnunarferðamennsku.
„Námið hentar þeim sem hyggja á starfsframa í þessari ört vaxandi starfsgrein eða áframhaldandi háskólanám í faginu,“ segir Arnbjörn að lokum.
-EMI