
Frá fræðsludögum – Auður Axelsdóttir frá Hugarafli fjallar um valdeflingu. Mynd af síðu Grófarinnar.
Starfsmenn og velunnarar Grófarinnar hafa unnið óeigingjarnt starf í þágu vitundavakningar í geðverndarmálum síðan geðverndarmiðstöðin var opnuð í október á síðasta ári. Mikið hefur verið lagt upp úr hópastarfi og fræðslu en í lok árs 2013 hlaut Grófin samfélagsstyrk frá Norðurorku og hélt opna fræðsludaga í byrjun árs 2014 sem voru sóttir af um 100 manns.
Akureyringum hefur nú frá áramótum staðið til boða að taka þátt í reglulegu hópastarfi og er þátttakan endurgjaldslaus.
Meðal þeirra sem halda vikulega fundi eru Unghugarnir, en það er félagsskapur fyrir ungt fólk sem hefur upplifað eða glímt við geðraskanir og/eða félagslega einangrun. Eitt markmiða er að fræða almenning og samfélagið allt um geðraskanir sem ungt fólk og aðstandendur þeirra geta glímt við. Með þetta markmið að leiðarljósi vill hópurinn einnig vinna gegn fordómum. Unghugarnir hittast á miðvikudögum kl. 16.
Einn þeirra sem hefur nýtt sér þjónustu Grófarinnar er Leó Sigurðsson, 19 ára nemi og nú varaformaður Unghuganna á Akureyri.
„Ég hef glímt við geðhvarfasýki (en. bipolar disorder) síðan 2010 þegar hún kom fyrst fram hjá mér í mikilli maníu. Ég lagðist inn á spítala vorið 2012, þá í annarlegu ástandi, því ég hafði verið lengi í maníu og var kominn í niðursveiflu. Þar fékk ég lyf og aðstoð við að hafa stjórn á sveiflunum. Í lok síðasta árs kynntist ég svo starfsemi Grófarinnar og leist mjög vel á starfið. Ég heillaðist strax af hugmyndinni um valdeflingar- og batamódelið. Ég uppgötvaði að hér væri fólk sem gæti markvisst aðstoðað mig við að ná fullum bata í gegnum m.a. hópastarf og valdeflingu,“ segir Leó.
„Í mínu tilfelli fólst stærsta skrefið í átt að bata í að rjúfa félagslegu einangrun mína. Hjálp Grófarinnar er mér mikils virði,“ bætir hann við og hvetur alla sem glíma við geðræn vandamál að heimsækja eða hafa samband við Grófina. „Við getum í sameiningu hjálpað hvert öðru að verða betri og heilbrigðari,“segir Leó.
Aðrir notendur Grófarinnar segjast hafa fundið ástæðu til að fara út úr húsi eftir að þeir kynntust starfinu miðstöðvarinnar. „Í dag, tæpu hálfu ári síðar, er ég – með ómetanlegri aðstoð Grófarinnar – á allt öðrum stað í lífinu,“ segir einstaklingur sem ekki vill koma undir nafni. „Ég er farinn að trúa því að ég geti náð bata og lifað hamingjusömu lífi. Ég hef nú hlutverki að gegna og hef þetta æðislega fólk á bak við mig sem ég bæði veit og finn að er ekki sama um mig,“ segir hann.
Alltaf er heitt á könnunni í Grófinni og er fólk hvatt til að kíkja við og kynna sér starfið. Grófin er staðsett í Hafnarstræti 95 á 4. hæð og er opin alla virka daga milli kl. 13-16. Einnig má hafa samband í síma 462-3200. Auk þess eru áhugasamir hvattir til þess að kynna sér starfið á vefnum.
- EMI