„Ég þræði nál með litfögru garni og sting fyrsta sporið, þar með hefst dans sem ég og nálin stígum saman.“ Þetta segir Þórdís Jónsdóttir, handverkskona frá Akureyri, um verkin sín sem nú eru til sýnis á Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi.
Útsaumssýning Þórdísar, „Sporin mín“, var opnuð við hátíðlega athöfn á Uppstigningardag og verður framvegis opin alla daga milli kl. 10-17 út sumarið. Eins og segir á vef safnsins fer Þórdís ekki alltaf hefðbundnar leiðir við vinnu sína, fer jafnvel af stað með fyrirfram ákveðin form og munstur í huga, en í vinnuferlinu fæðast oft á tíðum nýjar hugmyndir og verkið þróast í aðrar áttir.
Á sýningunni má sjá handbróderaða púða eftir Þórdísi auk útsaumaðra veggverka. Mörg hver eru þakin litskrúðugum blómum og munstri, en á öðrum bregður fyrir íslenska þjóðbúningnum.
Meðfylgjandi eru myndir af verkum Þórdísar. Þeir sem vilja kynna sér starf hennar betur er bent á vefsíðu hennar á samfélagsmiðlum.