Það er kunnara en frá þurfi að segja að boltaíþróttir á Akureyri hafa ekki verið uppá marga fiska undanfarin ár. Stóru greinarnar þrjár, fótbolti, handbolti og karfa hafa allar séð betri tíma og tilraunir til úrbóta hafa ekki virkað ef frá er talinn árangur kvennaliða í knattspyrnu og handbolta. En hverju veldur og hvað er til ráða þannig að Akureyringar eignist lið í fremstu röð í karlaflokki?
Nú er nýlokið þátttöku Akureyri handboltafélags á Íslandsmótinu þar sem liðið var aðeins hársbreidd frá því að falla úr efstu deild. Eitt mark í viðbót frá ÍR í leik gegn FH hefði orðið til þess að Akureyri hefði lent í umspili um áframhaldandi sæti í efstu deild og langt frá því öruggt að liðið hefði náð að hanga uppi. Tilraunin, að leggja niður meistara og 2 flokk KA og Þórs og stofna Akureyri handboltafélag í staðinn hefur að mínu mati mistekist. Raunar fór hún illa af stað, mikil andstaða var meðal KA manna sem enn voru í sæluvímu eftir glæsileg ár Alla Gísla með liðið sem þá var í fremstu röð á landinu og andlit KA útá við. Þórsarar voru hins vegar sáttir enda hafði þeirra árangur og rekstur á handboltanum verið slakur um árabil. Og það voru Þórsarar sem voru leiðandi hjá Akureyri í upphafi og mikið gert til að afmá einkenni félaganna, t.d. kom ekki til greina að leika heimaleiki liðsins í KA heimilinu. Besti tími liðsins var í þjálfaratíð Atla Hilmarssonar og svo virtist sem liðið ætti sér bjarta framtíð, en við brotthvarf Atla misstu menn dampinn. Árangurinn versnaði til muna og áhuginn með. Liðið gat ekki lengur haldið sínum efnilegustu leikmönnum og á nýliðnu tímabili voru Akureyringar með lið í fallbaráttu sem lék í hálftómri Íþróttahöllinni.
Rætur
Að mínu mati er munurinn á Akureyri handboltafélag annarsvegar og KA og Þór hins vegar, sá að KA og Þór hafa bæði djúpar rætur, langa sögu og starf sem nær allt frá barnastarfi og uppúr. Akureyri handboltafélag hefur engar rætur, stutta sögu og engan grunn til að standa á. Þar held ég sé skýringin á muninum á velgengni kvennaliðanna og Akureyri handboltafélag. Þór/KA í knattspyrnu sem hefur náð eftirtektarverðum árangri er í raun rekið af Þór á sama tíma og KA/Þór í handbolta er rekið af KA, hvað sem forráðamenn félaganna segja. Liðin eru því undir handarjaðri félaganna ólíkt Akureyri handboltafélag sem er að miklu leiti munaðarlaust.
Flókið
Ég held menn verði að setjast niður og marka stefnu til framtíðar í þessum boltaíþróttum á Akureyri. Ein leiðin væri sú að sameina meistaraflokka Þórs og KA í knattspyrnu undir merki Akureyrar og ef sú leið yrði farin þá ættu körfubolta og blakfólk að leikja undir merki Akureyrar einnig. Knattspyrnumenn hafa ekki viljað heyra á þetta minnst, en á sama tíma getur hvorugt félagið státað af miklum árangri á liðnum árum og bæði treysta mjög á farandverkamenn til að fylla liðin. Sérstaklega hefur ástandið verið slæmt hjá KA og aðsókn á leiki fyrir neðan allar hellur. Bæði félög benda á öflugt yngri flokka starf, en því miður virðist hvorugt félagið njóta góðs af því þar sem allir bestu unglingarnir hverfa til liða á Reykjavíkursvæðinu.
- Sú leið sem ég held sé best/skást sem stendur er sú að halda óbreyttri stefnu í knattspyrnunni svo fremi félögin sjái sér fært að halda úti tveim meistaraflokksliðum í karlaflokki sem eiga litla sem enga möguleika á að vinna titla um ókomna framtíð og láta sér meðalmennskuna duga.
- Ekki er nein ástæða til að gera breytingar varðandi kvennaliðin í handbolta og fótbolta, en halda þarf vel utanum þau verkefni til framtíðar. Sömu sögu má segja um blakið, það hefur ávallt verið á hendi KA og verður áfram.
- Það er hins vegar í handboltanum og körfunni sem eitthvað verður að gerast. Í körfunni er löng og sterk hefð hjá Þór sem hefur oft átt lið í efstu deild, en átt erfitt uppdráttar fjárhagslega undanfarið. Að sjálfsögðu eiga Þórsarar að halda körfunni hjá sér áfram. Hvað handboltann varðar geri ég mér grein fyrir því að ekki er pláss fyrir nema eitt alvöru lið á Akureyri í karlaflokki. Í stað þess að það lið heiti Akureyri handboltafélag vil ég að slíkt lið leiki undir merkjum KA sem sjái jafnframt um allt yngriflokkastarf í bænum. Akureyrarbær myndi þá styrkja jafnt handboltann í KA og körfuna í Þór.
Greinin birtist áður á www.akureyri.net