Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Dalvík styrkir kvikmyndagerð

$
0
0
Ráðhúsið á Dalvík. Mynd úr safni.

Ráðhúsið á Dalvík. Mynd úr safni.

Edik ehf er eitt þeirra fyrirtækja sem hlaut styrk úr Menningarsjóði Dalvíkurbyggðar í lok mars. Styrkurinn verður notaður til þess að fullvinna heimildamynd um sjóslysin 1963 en í þeim létu sjö Dalvíkingar lífið.

Þeir sem að verkefninu standa eru Haukur Sigvaldason smiður (sonur eins fórnarlamba, Sigvalda Stefánssonar), Stefán Loftsson kvikmyndagerðarmaður og María Jónsdóttir textílhönnuður. Þremenningarnir hafa að undanförnu safnað heimildum og rætt við mann og annan og þar með sankað að sér efni sem klippa þarf nú saman. Áætlað er að frumsýna myndina í haust.

„Við erum í lokatökunum núna, eigum eftir að taka upp nokkur viðtöl og fara eina ferð norður. Svo er það helst klippivinnan sem býður okkar. Vinnan frestaðist lengi vel m.a. vegna veikinda sem komu upp og svo hefur stundum gengið erfiðlega að finna fólk. Svo erum við að vinna þetta frá Reykjavík – við reynum að gera þetta samhliða því að vera í fullri vinnu og vonumst til þess að klára það helsta fyrir sumarið,“ segir Stefán Guðjón Loftsson. Stefán segir vinnuhópinn hafa verið sammála um að seinka frumsýningunni og skila af sér vel unnu verki í stað þess að flýta sér.

„Þetta var fyrst hugsað sem lítil heimildamynd en svo vatt þetta upp á sig. Þar af leiðandi fórum við út í miklu stærra og tímafrekara verkefni en upphaflega var áætlað. Við vonum að verkið svari spurningum og taki af allan vafa um að slysin voru harmleikur sem ekki var hægt að koma í veg fyrir,“ bætir Stefán við.

Í lok mars úthlutaði menningarráð Dalvíkurbyggðar styrkjum úr Menningarsjóði til þrettán aðila og verkefna þeirra að heildarandvirði 1.800.000 kr. Ráðinu bárust 25 umsóknir. Þetta kemur fram í fundargerð.

Í ár var tónlist og tónleikahaldi gert hátt undir höfði en alls hlutu fjórir kórar og eitt tónlistarfélag styrk, ýmist til tónleikahalda og/eða útgáfu laga og myndbanda. Um er að ræða Karlakór Dalvíkur, Mímiskórinn, Sölku kvennakór, Kór Dalvíkur og Tónlistarfélag Dalvíkur. Einnig féllu tveir styrkir í hlut Menningarfélags Bergs sem mun m.a. halda barnamenningarhátíð.

- EMI


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718