Lof fá starfsmenn Bogans á Akureyri fyrir frábæra umhirðu. Gönguhópar í röðum aldraðra á einu máli um þetta, segir í bréfi til blaðsins.
Last fær Bakaríið við Brúna á Akureyri, segir kona sem sendir blaðinu bréf. Hún tengir það konudeginum og segir að konudagurinn sem dagur þar sem konur eigi að fá blóm. Þann dag auglýsi bakarar líka konudagskökuna en þá skuli græða! „Ég sendi í Bakaríið við Brúna eftir kökunni. Varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég sá dýrðina. Smá kaka, ca 6 góðar sneiðar, mjög fallega skreytt, en innvolsið frekar dauft og verðið tæpar 3.700 krónur. Ég fór í bakaríið daginn eftir, þar sem ég taldi að um mistök væri að ræða hvað verðið snertir, en var tjáð að þetta væri rétt verð og kakan hefði runnið út. Hvert er verðskyn landans eiginlega farið? Að nota slíkan dag sem konudaginn til að græða á okkur konum, eigum við það skilið? Megi bakarameistarar hafa skömm fyrir að bjóða upp á slíka okurköku á þessum degi?“ Skrifar konan en beinir spjótum sínum sérstaklega að Bakaríinu við Brúna, sem fyrr segir…
Lof fær hótel KEA fyrir mjög lipra og góða þjónustu, segir kona sem hafði símleiðis samband við blaðið. „Þegar við mægðum frá Sauðákróki urðum hríðarfastar yfir nótt vegna óveðurs á Öxnadalsheiði þá urðum við vitni að algjörlega einstakri þjónustu á Hótel KEA, ljúfmennsku, framkomu sem er svo sannarlega vert að lofa. Við áttum ekki pantað herbergi og lá á að komast inn og það var bara allt svo hlýtt og faglegt, frábær þjónusta,“ segir konan…
Lof fær Framsóknarflokkurinn fyrir að kljúfa og leggja Sjálfstæðisflokkinn í rúst. Nokkuð sem vinstri flokkunum hefur ekki tekist þrátt fyrir áratuga baráttu. Svo skrifar karl á Eyrinni í bréfi til blaðsins.
Lof fær íslenska þjóðin fyrir að láta ofríkisöfl ekki kúga okkur, segir í öðru bréfi til blaðsins. Er þar vísað til undirskriftasöfnunar og háværra mótmæla landans gegn sviknum kosningaloforðum sjálfstæðismanna og fleiri í ESB-málinu…