Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

83 dagar til sveitarstjórnarkosninga

$
0
0
Sveitarstjórnarkosningar þann 31. maí

Sveitarstjórnarkosningar þann 31. maí

Sveitarstjórnarkosningar verða haldnar á Íslandi 31. maí nk. Stjórnmálahreyfingar á Akureyri eru annað hvort að vinna í því að setja saman lista eða búin að birta frambðoðslista sinn til kosninganna. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum galt „fjórflokkurinn“ afhroð og fengu einn mann hver í bæjarstjórn. A-listi Bæjarlistans fékk einnig mann kjörinn í bæjarstjórn. L-listi, listi fólksins, fékk síðan hina 6 bæjarfulltrúana í bæjarstjórn og hafa stjórnað bænum á kjörtímabilinu í hreinum meirihluta.

Líklegt þykir að Akureyringum bjóðist 7 valkostir í komandi sveitarstjórnarkosningum. Fjórflokkurinn býður fram, A-listi Bæjarlistans, Björt framtíð og L-listinn eru líklegir frambjóðendur eins og staðan er núna.

Akureyringar hafa í gegnum tiðina verið lagnir við að fella sitjandi meirihluta. Eins og staðan er núna er líklegt að sitjandi meirihluti falli enn og ný á Akureyri. L-listinn sem vann sinn stærsta sigur árið 2010 er að mælast nú með einn mann inni í bæjarstjórn. Flokkurinn er semsagt búinn að tapa 5 bæjarfulltrúum frá kosningum.

Frá stríðslokum hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið þrettán sinnum stærsti flokkurinn í bæjarstjórn Akureyrar. Framsóknarflokkurinn hefur skipað það sæti þrisvar sinnum og L-listinn einu sinni.

Staða flokka á Akureyri

Staða flokka á Akureyri, Smellið á mynd til að sjá hana stærri. 

Á meðfylgjandi mynd sést kjörfylgi flokkanna í síðustu kosningum auk tveggja mælinga sem voru gerðar sitt hvoru megin við síðustu áramót fyrir morgunblaðið. Þar sést að L-listinn er að mælast nú með um 13% miðað við að hafa fengið 45% í síðustu kosningum. L-listinn hefur, eins og áður hefur komið fram, hreinan meirihluta í núverandi bæjarstjórn. Halla Björk Reynisdóttir og Inda Björk Gunnarsdóttir hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér áfram. Í uppsiglingu er stór kosningaósigur L-listans, að öllu óbreyttu.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 13.3% í síðustu kosningum. Sigrún Björk Jakobsdóttir oddviti Sjálfstæðismanna sagði af sér í kjölfar kosninganna og Ólafur Jónsson, 2. maður á lista flokksins tók sæti oddvita. Hann situr nú í heiðurssæti listans til kosninga og bauð ekki fram krafta sína í prófkjöri flokksins í byrjun febrúar. Gunnar Gíslason leiðir framboðslistann. Svo virðist sem Sjálfstæðismenn séu að ná vopnum sínum miðað við síðustu kosningar og mælast nú með 23.2% fylgi og eru stærsti flokkurinn á Akureyri í dag. Fylgið eins og það mælist í dag dugar til að ná 3 bæjarfulltrúum inn. Þó er alltaf varhugavert að raða bæjarfulltrúum eftir fylgi í skoðanakönnunum í byrjun árs, þar sem skekkjumörk geta skipt miklu máli.

Framsóknarflokkurinn vann stórsigur í síðustu alþingiskosningum. Framsóknarflokkurinn á Akureyri virðist ekki vera að njóta góðs af því. Framsókn mælist í síðustu tveimur könnunum með u.þ.b. 15% fylgi. Guðmundur Baldvin Guðmundsson er líklegur til að leiða listann aftur í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Það sem Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn óttast mest á komandi kosningavori, nú þegar 83 dagar eru til kosninga, er þróun mála á Alþingi. Ef Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn bakar sér meiri óvinsældir og umræða um stjórn landsmála verði áfram á neikvæðum nótum er líklegt að það geti haft áhrif á kosningarnar til sveitarstjórna þann 31. maí. Þess vegna er mikið kappsmál fyrir þessa tvo flokka að öldur lægist í landsmálum sem fyrst.

Vinstri Grænir virðast vera í betri stöðu nú en í síðustu kosningum og hafa tvisvar sinnum mælst í með um 16% fylgi. þess konar fylgi í kosningum gæti komið 2 mönnum inn í bæjarstjórn.

Samfylkingin hins vegar virðist alls ekki vera að ná vopnum sínum í bænum og mælist í könnun í febrúar með tæplega 9% fylgi sem er minna en þeir fengu í kosningum 2010. Í nóvember mældist flokkurinn með 11%. Þessar tölur sýna að flokkurinn á undir högg að sækja á Akureyri.

Björt framtíð er kannski stærsta skýringin á erfiðu gengi Samfylkingarinnar í bænum. Björt framtíð teflir fram fyrrum varabæjarfulltrú Samfylkingarinnar og mælist með nánast sama fylgi og VG. Björt framtíð er nýtt afl í bæjarmálum á Akureyri. Björt Framtíð bauð fram til Alþingis sl. vor og náði inn einum þingmanni í NA-kjördæmi, Brynhildi Pétursdóttur.

A-listi Bæjarlistans náði inn manni í síðustu kosningum en mælist ekki í dag. Bæjarlistinn hefur samt tekið þá ákvörðun að bjóða fram aftur.
__________

Eins og staðan er núna í stjórnmálum á Akureyri er ekki hægt að mynda tveggja flokka meirihluta í bænum. Líklegt er að sex flokkar munu aftur komast í bæjarstjórn Akureyrar, líkt og staðan er nú. Þrjá flokka þarf til, hið minnsta, til að mynda meirihluta í bænum. Lítið þarf að breytast í könnunum til að myndin verði allt önnur en hún er í dag. Því getum við sagt það með nokkurri vissu að kosningarnar 2014 verða gífurlega spennandi og áhugavert að sjá hvernig kosningabaráttan vindur upp á sig næstu 83 daga.

Akv.is mun kappkosta við að veita lesendum sínum góða þjónustu í aðdraganda kosninga með miklu upplýsingaflæði, fréttir um stöðu mála þar sem viðfangsefni verða krufin til mergjar og flokkarnir krafðir svara á því sem brennur á bæjarbúum.
Sveinn Arnarsson
@Sveinn_A
Ritstjóri www.akv.is


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718