„Þetta lagast ekki nema við skiptum um gjaldmiðil og göngum í ESB,“ segir Ragnar Sverrisson, formaður Kaupmannafélags Akureyrar um fækkun verslana á Akureyri.
Eins og fram hefur komið hefur hátt í tugur búða á Akureyri lagt upp laupana. Ragnar segir það vondar fréttir og aðalorsökin sé að eftir hrun krónunnar þurfi innflytjendur að greiða allt að tvöfalt meira fyrir hverja evru eða danska krónu. Evran hafi kostað 80 krónur ekki alls fyrir löngu og danska krónan 11 krónur. Nú þurfi að greiða 160 krónur fyrir hverja evru og 22 krónur fyrir þá dönsku. Þetta hafi orðið til þess að verð á innfluttri vöru hafi hækkað mjög mikið en þó ekki tvöfalt, því kaupmenn hafi tekið á sig miklar byrðar til að vega gegn hækkunum. Þær fórnir hafi orðið til þess að sumir gefist upp. Hrunið gengi þýði hærra verð til neytenda, minni sölu hjá kaupmönnum og minni tekjur.
„Já, ég vil að Ísland gangi í ESB og ég hef verið þeirrar skoðunar í 10 ár. Ég er búinn að starfa í verslun í 50 ár og fylgjast með stjórnmálum mestallan þann tíma. Það er alltaf sama sagan. Það eru gerðir kjarasamningar, svo kemur verðbólga, gengið er fellt. Mín skoðun er að ástandið lagist aldrei nema við skiptum um gjaldmiðil og við fáum ekki nýjan gjaldmiðil nema með því að ganga í ESB.“ Formaður Kaupmannafélags Akureyrar segir ótrúlegt að menn loki enn augunum fyrir því að endalaust fall íslensku krónunnar sé mesta kjararýrnun Íslendinga en samt vilji sumir ekki einu sinni sjá hvernig samningur við ESB líti út og tækifærin sem felist í að taka upp evru. Hins vegar sé ekki nýtt að búðir komi og fari á Akureyri. Eftir breytingar standi þó eftir um 150 verslanir þannig að þótt átta eða tíu hætti kallist það ekki hrun.
Stjórn Akureyrarstofu hefur fjallað um fækkun verslana og hefur Rúv haft eftir stjórnarformanni Akureyrarstofu að stjórnin vilji að atvinnumálafulltrúi bæjarins heyri hljóðið í kaupmönnum og rannsaki nánar skýringar vandans.
-BÞ