Áhugamenn um skógrækt á Íslandi horfa til þess að PCC verksmiðja á Bakka á Húsavík gæti þurft mikið magn af viði úr íslenskum nytjaskógum. Pétur Halldórsson sem starfar hjá Skógrækt ríkisins segir að viðarkurli verði sturtað saman við málm í deiglu ef verksmiðjan rís. Kolefnið í viðnum bindist súrefni í málmbráðinni og losni út í andrúmsloftið. „Þetta er semsé gert til að losna við súrefni úr málminum, eftir því sem ég kemst næst, eða með öðrum orðum notað til hreinsunar í ferlinu. En þarna er líka notað koks og viðarkol. Hlutföll þessara efna skipta einhverju máli fyrir það sem út úr vinnslunni kemur sem getur verið mismunandi eftir því sem sóst er eftir hverju sinni,“ segir Pétur.
Komið hefur fram að fyrirhuguð verksmiðja PCC á Bakka hyggst nota allt að þrefalt meira af viðarkurli en Grundartangaverksmiðjan. Í pistli á heimasíðu SR segir að nota þurfi 45-90 þúsund tonn af viðarkurli. Þetta kurl þurfi að vera úr trjábolum án barkar. Dýrt sé að flytja viðinn úr skógunum langan veg milli landshluta þannig að best væri að fá hann úr nálægum skógum. Fyrir Húsavíkurverksmiðjuna væri þá hagkvæmast að viðurinn kæmi úr skógum í Þingeyjarsýslum og Eyjafirði.
Mikið land þyrfti til að framleiða iðnvið fyrir verksmiðju PCC á Húsavík. Um ræðir 15-50 þúsund hektara. „Þarna gæti verið tækifæri fyrir bændur og aðra landeigendur. Skógræktin gæti verið aukabúgrein með hefðbundnum landbúnaði eða hreinlega komið í staðinn,“ segir á heimasíðu Skógræktar ríkisins.
Samkvæmt tillögum að matsáætlunum sem gerðar voru fyrir ráðgerða verksmiðju PCC í Þorlákshöfn og fréttum af nýja Helguvíkurverkefninu má ætla að hráefnisþörf iðjuversins í Helguvík verði áþekk og PCC-verksmiðjunnar á Bakka. Vegna flutningskostnaðar væri hagkvæmast að iðnviður fyrir verksmiðjuna þar væri ræktaður á suðvestanverðu landinu.
Engar viðræður hafa enn farið fram milli Skógræktar ríkisins og fyrirtækjanna sem standa fyrir uppbyggingu verksmiðja á Húsavík og í Helguvík.
-BÞ