Sveitarstjórnamál snúast um lífsgæði íbúa. Ólík stjórnmálaöfl hafa ólíka sýn á hvernig á að horfa til framtíðar og hvaða hluti á að leggja mesta áherslu á að byggja upp. Ólík sýn á samfélagið er nauðsynleg og rökræður um hvernig samfélag við viljum búa í eru nauðsynlegar til þess að fólk fáist til að velta fyrir sér fyrir hvað ólíkar stjórnmálahreyfingar standa. Ólíkir flokkar vilja skipta gæðum á ólíkan hátt. Ef allir gætu fengið allt sem þeir vilja þyrftum við ekki stjórnmál. Stjórnmál snúast fyrst og fremst um hvaða hugsjónir eru bestar til þess fallnar að stjórna skiptingu gæðanna.
Umræðan um stjórnmál
Í mörg ár hefur stjórnmálaumræðan ekki snúist um hugsjónir eða framtíðarsýn. Hún hefur frekar snúist um það hvort allir stjórnmálamenn á Íslandi séu siðlausir og spilltir – eða hugsanlega bara flestir. Umræðan hefur snúist um hvaða flokkur hefur náð að stela mestu úr sameiginlegum sjóðum, hver hefur náð að skara mest að eigin köku. Það er ekki auðvelt að komast fram hjá þessari umræðu. Hún er skiljanleg í umhverfi þar sem traust á stjórnmálamönnum er við frostmark og kjósendur telja sig vita af reynslunni að öll kosningaloforð verða svikin.
Kosningar í vor
En einn daginn munum við komast yfir reiðina. Þá fáum við kjark til að gera raunverulegar kröfur til okkar kjörnu fulltrúa, spyrja þá gagnrýnna spurninga og sætta okkur ekki við annað en trúverðug svör. Einn daginn verðum við tilbúin til að viðurkenna að það skiptir máli hverjir stjórna, viðurkenna mikilvægi þess að þeir sem stjórna viti hvað þeir eru að gera og geti svarað skýrt fyrir ákvarðanir sínar og afstöðu. Þá skiptir máli á hvaða hugmyndum framtíðarsýn þeirra er byggð. Vonandi kemur sá tími í næstu sveitarstjórnarkosningum.
Höfundur er skólastjóri Valsárskóla, félagi í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði á Akureyri.