Akureyri vikublað hefur fengið leyfi til að birta nokkra af þeim verkum sem send voru í verðlaunasamkeppnina Ungskáld Akureyrar sem haldin var nýverið. Hér má lesa smásöguna Sársaukinn eftir Borgnýju Finnsdóttur en hún deildi þriðja sætinu í samkeppninni með Emblu Orradóttur. Neðst má finna hlekki á á fleiri verk.
Ég horfi út um gluggan og sé börn leika sér. Þau hlaupa um í snjónum, hlæja og kasta snjóboltum. Dóttir mín fékk aldrei að leika sér úti, hún fékk aldrei eðlilegt og áhyggjulaust líf. Hún greindist með hvítblæði bara 2ja ára gömul. Ég man hvað okkur Þóri leið illa þegar við fengum að vita að eina barnið okkar væri dauðvona. Læknarnir sögðu að það væri líklegast að hún myndi deyja fyrir 4 ára aldur, en í seinustu viku varð hún fimm ára. Ég horfi á Anítu, hún liggur í sjúkrarúminu sínu og hjúkka gefur henni djús. Þetta er ný hjúkka. Eftir að hafa verið meira á sjúkrahúsinu en á okkar eigin heimili seinustu þrjú árin, þekkjum við nánast alla sem vinna hérna. Aníta réttir fram handlegginn og ég sé að henni er illt. Ég tek í höndina og sest við hlið hennar. Hún horfir á mig og ég á hana. Hún kreistir hönd mína og tár rennur niður kinn hennar. Ég þurrka það með þumalfingri og kyssi hana á kinnina. „Svona elsku stelpan mín“ segi ég „Þú ert svo sterk og hugrökk“ í gær var okkur sagt að endalokin nálgist, hún mun deyja bráðum. Þórir kemur inn, tekur um axlirnar mínar og kyssir mig á kinnina. „Hvernig líður hetjunni okkar?“ segir hann og kyssir Anítu á ennið. Hún réttir upp þumalinn og brosir. Hún er orðin svo veikburða að hún getur varla talað. Læknirinn kemur inn og gefur Anítu high five. Tómas hefur verið læknir Anítu síðan í byrjun. Okkur líkar mjög vel við hann. „Jæja, hvernig líður þér Aníta?“ spyr hann. „Vel“ segir hún lágt og brosir. „Frábært“ segir Tómas og ýtir á einhverja takka á vélunum. „Hvað er langt eftir?“ spyr ég hann lágt. „Bara fáeinir tímar Petra mín“ segir hann og hristir höfuðið. Ég finn að ég tárast og fæ kökk í hálsinn. Ég kreisti hendina á Þóri og segji sjálfri mér að ég megi ekki gráta, ég verð að vera sterk fyrir Anítu. Síminn minn hringir og ég veit að það er Arna, systir mín. Hún er á leiðinni hingað á spítalann til að kveðja Anítu og vera hjá mér þegar versta stund lífs míns mun eiga sér stað. Við eigum sem betur fer marga góða að og allir eru hjálpsamir. Ég tók mér leyfi frá vinnunni í fyrra og allir voru mjög skilningsríkir.
Við löbbum að setustofunni þar sem foreldrar okkar beggja sitja og bíða eftir fréttum. „Tómas segir að hún eigi aðeins nokkra klukkutíma eftir” segir Þórir leiður og sé að hann tárast. „Elsku barn” segir mamma hans og tekur utan um hann. Ég sest á milli foreldra minna og mamma leggur hönd sína á lærið mitt. „Mér þykir það leitt elsku Petra mín” segir hún. Í sömu andrá gengur Arna inn með börnin sín þrjú. „Hæ elsku, elsku systir mín!” segir hún og setur yngsta
barnið á gólfið. „Megum við ekki sjá hana?” segir hún og brosir. „Krakkana langaði svo að hitta hana” „Jú,jú” segi ég og fylgi þeim inn á stofu. 4 ára gamli Kolbeinn gengur inn fyrstur og réttir Anítu blómvönd. „Ég týndi þetta sjálfur” sagði hann stoltur. „Reyndar ekki Kolbeinn, það er hávetur úti!” segir mamma hans og hlær. Hún sest á rúmið hjá Anítu og ýtir ljósum hárlokk frá andliti hennar. „Hæ elsku Aníta mín” Aníta tekur utan um frænku sína. „Hæ,hæ” segir hún þreytulega og sest upp. „Hvað segirðu nú gott?” segir Arna og lyftir litlu Elvu upp í rúmið líka. „Allt fínt, mér er samt pínu illt” segir Aníta og brosir framan í litlu frænku sína. Elva hlær og Aníta brosir breitt. Ég lít í spegil á veggnum og sé hvað ég er með rosalega bauga. Ég vakti alla nóttina. Ég geng að speglinum og greiði fingrunum í gegnum þykkt og svart hárið. Ég vef því um fingurna og set það upp í snúð. Ég tek upp svörtu töskuna mína sem liggur á stól við vegginn og róta í henni þar til ég finn snyrtiveskið mitt. Ég set á mig örlítinn maskara og bláu augun mín lífgast við. Ég set á mig smá gloss og nudda vörunum saman. Þegar ég lít í spegilinn sé ég Þóri standa fyrir aftan mig. Hann setur hendurnar á axlir mínar og hvíslar í eyra mitt. Ég kyssi hann á kinnina og tek utan um hann. Mig langar ennþá til að gráta en ég ætla að vera sterk. Við horfum á Anítu leika við Elvu og sjáum hvað hún er glöð. Allt í einu pípir eitthvað tæki og læknar koma inn. Arna fer með börnin fram og lokar hurðinni. Ég finn að ég er hrædd og ég titra öll. „Hvað er að gerast?” segi ég en fæ ekkert svar. „Mér er illt” segir Aníta læknarnir ýta á einhverja takka og sprauta hana. Tómas kemur til okkar og útskýrir fyrir okkur hvað er í gangi. Aníta finnur mikið til og þeir ákváðu að gefa henni verkjalyf sem gerðu dauða hennar ekki jafn sársaukafullan. Ég tárast og horfi á Anítu umkringda læknum og hjúkrunarfræðingum. Þegar læknarnir loksins fara sest ég hjá Anítu og tek í hönd hennar. Foreldrar mínir, tengdó, Arna og systkin Þóris koma inn. Þau kyssa öll Anítu, því þau vita að þetta er seinasta skiptið sem þau munu sjá hana. Hún er farin að eiga erfitt með að halda augunum opnum og andar hægt og erfiðlega. Við Þórir höldum í sitt hvora hönd hennar og tölum aðeins við hana. „Mamma, er ég að deyja núna?” spyr hún mig og horfir á mig. „Já, elskan mín, ég er hrædd um það” rétt næ ég að koma uppúr mér. Nokkur tár renna niður kinnar mínar. „Ekki gráta mamma” segir Aníta og þurrkar tárin. „Ekki vera hrædd” segir hún svo og lokar augunum. „Ég elska ykkur bæði” segir hún lágt, opnar augun og andar svo út. Ég finn að hönd hennar er máttlaus og hún andar ekki aftur inn. Augu hennar horfa beint áfram og hreyfast ekki. Ég sé hvernig lífið fer úr líkama hennar og heyri svo langt píp í tækjunum til hliðar. Tómas tekur það úr sambandi og labbar svo út. Ég átta mig á því að
hún er dáin, litla stelpan mín er dáin. Ég loka augunum á henni svo það sé eins og hún sé bara sofandi. Ég byrja að gráta og kyssi hana á ennið. „Ég elska þig Aníta mín” segi ég og fæ ekkasog. Þórir grætur líka og grefur höfuðið í höndum sér. Ég stend upp og labba að honum. Ég tek utan um hann og við grátum bæði tvö. Við grátum lengi þar til við stöndum bæði upp og horfum á dóttur okkar þar sem hún liggur alein og dáin, náföl og með bros á vör, upp á sjúkrarúmi hennar og hugsum að nú líði henni betur.