Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Fyrirmynd í málefnum fatlaðra

$
0
0
Akureyri hefur verið reynslusveitarfélag til fjölda ára og eru málefni fatlaðra til sóma að sögn Sifjar Sigurðardóttur og Elínar Lýðsdóttur hjá Þroskahjálp á Norð- urlandi.

Akureyri hefur verið reynslusveitarfélag til fjölda ára og eru málefni fatlaðra til sóma að sögn Sifjar Sigurðardóttur og Elínar Lýðsdóttur hjá Þroskahjálp á Norð- urlandi.

Alþjóðadagur fatlaðra er 3. desember næstkomandi, á þriðjudag. Þroskahjálp á Norðurlandi eystra stendur fyrir umfangsmiklu starfi fyrir fatlaða og í tilefni af baráttudeginum fram undan spurði Akureyri vikublað þær Sif Sigurðardóttur og Elínu Lýðsdóttur sem sitja í stjórn félagsins spjörunum úr.

Hver er saga Þroskahjálpar á Norðurlandi eystra?
„Forsagan er sú að nokkrum foreldrum fatlaðra barna á Akureyri fannst kominn tími til að snúa þróuninni við og vinna að því að börn með fötlun fengju að búa heima hjá foreldrum með aðstoð frá ríki eða sveitarfélagi í stað þess að vera send á stofnun eins og tíðkast hafði. Þetta félag hét Foreldrafélag barna með sérþarfir. Það var stofnað 1979 og fyrsti formaður og aðal hvatamaður að stofnun þess var Jón E. Aspar og kona hans Margrét Oddsdóttir. Félagið beitti sér meðal annars fyrir því að koma á fót ýmsum stuðningi við heimilin svo sem dagvistun og sumardvöl og úrbótum í trygginga- og skólamálum auk þess að ná fram úrbótum í líkamsþjálfun fyrir fatlaða en ekkert af þessu stóð fötluðum til boða á þessum tíma án baráttu. Félag þetta byggði á grunni eldri félaga en þar höfðu áherslur verið aðrar. Þroskahjálp á Norðurlandi eystra tók svo við af Foreldrafélagi barna með sérþarfir og við erum meðlimir í Landsamtökunum Þroskahjálp.“

Staðið vörð um hagsmuni
Hver er tilgangur starfseminnar um þessar mundir?
„Megin tilgangurinn er að standa vörð um hagsmuni fatlaðra, vinna að úrbótum og stuðla að auknum lífsgæðum. Málefni fatlaðra eru málefni samfélagsins þannig að það er okkar hlutverk að vekja athygli almennings á málaflokknum. Við leggjum líka áherslu á að styðja og aðstoða foreldra og fatlaða í sinni persónulegu réttindabaráttu og efla þeirra þekkingu með reglulegum fræðslufundum eða stuðning við aðra sem bjóða slíka fræðslu.“

Í hverju felst starfið einkum?
„Mikill hluti starfseminnar snýr að því að standa vörð um það sem áunnist hefur ásamt því að fylgja eftir úrbótum í ýmsum málum, til dæmis skólamálum, húsnæðismálum og atvinnumálum. Landssamtökin Þroskahjálp eiga bæði samstarf við stjórnvöld um málefni fatlaðra ásamt því að berjast fyrir réttindum fatlaðra. Sama gildir um okkar félag, nema við horfum meira til nærsamfélagsins. Við höfum verið svo lánsöm að eiga gott samstarf við Akureyrarbæ. Við fáum tækifæri til að koma okkar skoðunum, áhyggjum eða hugmyndum á framfæri með samráðsfundum með stjórnendum hjá Akureyrarbæ. Það er hlustað á okkar skoðanir og við fáum líka tækifæri til að fylgja eftir hagsmunamálum hópa eða einstaklinga innan okkar félags, þetta er reyndar einsdæmi hér á landi. En eins og í allri hagsmunabaráttu fáum við ekki allt samþykkt sem við leggjum til en á það er ótrúlega mikilvægt að hafa beina leið til þeirra sem bera ábyrgð á málefnum fatlaðra.“

Elín og Sif segja annan stóran þátt í starfsemi Þroskahjálpar vera fræðslu forráðamanna og fatlaðra. Í því felist til dæmis stuðningur við forvarnafræðslu fyrir fatlaða, fræðslu fyrir forráðamenn um þjálfun og margt fleira. „Til dæmis höfum við fengið svokallaða Systkinasmiðju hingað norður til hjálpa systkinum fatlaðra barna takast á við þær aðstæður sem því fylgja að eiga fatlað systkini ásamt því að fræða börnin um fatlanir systkinanna. Á döfinni er m.a. vímuefnafræðsla í samvinnu við SÁÁ og Akureyrarbæ. Við styrkjum eftir getu íþróttastarf fatlaðra og höfum nokkra skemmtiviðburði á ári, má þar nefna ball í Hlíðarbæ og Þorrablót.“

Fullgilding sáttmála Sameinuðu þjóðanna
Um landsstarfið segja Elín og Sif að Þroskahjálp á Norðurlandi taki virkan þátt í starfsemi Landssamtakanna, sæki ráðstefnur á þeirra vegum auk þess sem Sif eigi sæti í stjórn Landssamtakanna. „Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að fylgjast með því hvað er að gerast á landsvísu en ekki síður að fá hugmyndir um hvaða þróun á sér stað í löndunum í kringum okkar. Fullgilding sáttmála Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlað fólks hefur lengi verið baráttumál Landssamtakanna. Þessar vikurnar er verið að leggja lokahönd á íslensk þýðingu sáttmálans og vonum við að styttist í að þessi sáttmáli verði fullgildur á Íslandi.“

Hvernig verður baráttu dagsins fram undan minnst?
„Við höldum upp á daginn í samvinnu við Sjálfsbjörg og Ferlinefnd Akureyrarbæjar. Í ár verðum við á Bjargi klukkan 17.00 og allir eru velkomnir. Það verður boðið uppá veitingar, ferlinefnd veitir viðurkenningu og við ætlum að afhenda nokkra styrki til félaga sem vinna gott starf í íþróttum fyrir fatlaða.“

Hafa fatlaðir dregist aftur úr öðrum hópum samfélagsins í harðri baráttu um lífskjörin eftir hrun?
„Nei, ekki frekar hérna á Akureyri en annarstaðar á landinu, við teljum að vandinn sé reyndar meiri á öðrum stöðum á landinu. Við vitum líka að það er minni peningur núna til ráðstöfunar í þennan málaflokk hjá sveitarfélaginu eins og í öllum sveitarfélögum, það hafa allir þurft að skera niður. Þar sem Akureyri hefur verið reynslusveitarfélag til fjölda ára, þá erum við komin með mjög góðan grunn í þessum málum og getum rekið málefni fatlaðra með sóma, en þar sem öll önnur sveitarfélög eru nýlega búin að taka við þessum málaflokki frá ríkinu þá eru þau mun aftarlegar en við í þessum málum, það má því segja svo að við séum fyrirmynd hinna sveitarfélaganna í málefnum fatlaðra.“

Þarf að auka upplýsingar
Hvað með aðgengi fatlaðra? Hvernig stendur Akureyri sig þar?
„Þegar rætt er um aðgengismál fatlaðra vill það oft brenna við, að eingöngu sé horft til aðgengis fyrir hreyfihamlaða. Aðgengi er sem sagt ekki bara að húsnæði heldur einnig aðgengi að upplýsingum eða farartækjum.

Varðandi aðgengi að húsnæði þá hefur það gengið nokkuð vel, þó alltaf megi gera betur og þurfum við sífellt að vera á verði, hér á Akureyri er starfandi Ferlinefnd með einstaklingum frá okkur, frá Sjálfsbjörg og frá Akureyrarbæ. Fólk með þroskahömlun og margir aðrir fatlaðir hafa almennt ekki bílpróf eru því alfarið háð því að ferliþjónusta hins opinbera gefi þeim það frelsi sem aðrir telja sjálfsagt að hafa. Í nútímasamfélagi er það sjálfsögð krafa að fatlaðir, hvort sem um er að ræða þroskahömlun eða líkamlega fötlun, hafi ákvörðunarrétt í sínum málum og þá er aðgengi að upplýsingum grundvallaratriði.“

Hvernig er staðan í húsnæðismálum og atvinnumálum ykkar fólks?
„Mætti vera betri en margt hefur áunnist á síðastliðnum áratugum. Það er ekki langt síðan allir bjuggu á stofnunum, síðan komu sambýlin en núna er þróun í átt til sjálfstæðrar búsetu. T.d. er núna verið að byggja húsnæði fyrir nokkra unga Akureyringa sem eru að flytja úr foreldrahúsum. Þau mun öll hafa sínar séríbúðir en síðan verður líka sameiginlegt rými sem þau geta valið um hvort þau nýta eða ekki. Þetta sjá flestir okkar félagsmenn sem fyrirmyndarfyrirkomulag. Hinsvegar má segja að framtíðarskipulag á þessum málum mætti vera í betri skorðum. Okkur finnst að frekar hafi verið um lausnir á vandamálum dagsins í dag að ræða en framtíðarskipulagning.“

Val verði aukið
Það er margt gott sem verið hefur gert í atvinnumálum fatlaðra en kannski má segja að fatlaðir hafi oft ekki mikið val. Framtíðarsýnin er að það verði meira val í boði. Þar horfum við til nágrannalandanna þar sem hópar fatlaðra hafa fengið aðstoð við að stofna fyrirtæki með stuðningi. Slíkt verkefni var sett í framkvæmd í vor í Reykjavík og kaffihúsið Gæs rekið í nokkra mánuði sem tilraunaverkefni af fólki með þroskahömlun sem var að ljúka diplómanámi frá HÍ. Vonandi verða slík verkefni fleiri og að úr verði framtíðar atvinnutækifæri þar sem fatlaðir geta valið sér atvinnu í samræmi við hæfni og áhuga.“

Eitthvað að lokum?
Við vonum að sem flestir láti sjá sig þann 3ja desember á Alþjóðadegi fatlaðra en samkoma verður haldin í salnum á Bjargi v/ Bugðusíðu klukkan 17.00 . Eins og áður segir mun Þroskahjálp veita styrki til félagasamtaka, ferilnefnd Akureyrarbæjar veitir viðurkenningu fyrir gott aðgengi fyrir fatlaða og Sjálfsbjörg veiri styrki m.a. til tækjakaupa. Veitingar og skemmtiatriði í boði og að sjálfsögðu eru allir velkomnir sem á einn eða annan hátt láta málefni fatlaðra sig varða. Við skorum á félagsmenn og aðstandendur til að mæta sem og íbúa sambýlanna hér á Akureyri.“

-BÞ


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718