Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Hressleikur í Sjallanum

$
0
0

DST_6751

Leikhópurinn Grímurnar sýnir nú gamanleikinn Gúgglaðu það bara í Sjallanum á Akureyri. Leikhópurinn var stofnaður síðastliðið haust og setti þá upp söngleikinn Berness, já takk & franskar á milli. Um er að ræða svokallað kaffileikhús þar sem gestir sitja við borð og geta notið veitinga á meðan á sýningu stendur.

Höfundar leikritsins eru Pétur Guðjónsson og Jóhanna G. Birnudóttir. Ívar Helgason leikstýrir og Heimir Ingimarsson sér um tónlistarstjórn en með aðalhlutverk fara Brynjar Gauti Schiöth og Hallur Örn Guðjónsson. Aðrir leikarar eru Valdís Eiríksdóttir, Torfi Þór Tryggvason og Sigurlaug Indriðadóttir en þau þrjú koma einnig fram sem söngtríó sem flytur þónokkuð af lögum í sýningunni.

Verkið fjallar um tvo einhleypa karlmenn um þrítugt sem búa saman og deila áhyggjum af ástarmálum, fjármálum og öðru því sem einhleypingar á þessum aldri glíma við. Týpurnar eru nokkuð skemmtilegar og falla vel að staðalmyndunum um annars vegar tölvunörd sem er ekki mikið fyrir augað og á erfitt með að koma upp orði fyrir framan dömurnar og hins vegar gaurinn sem vill verða ríkur án þess að hafa mikið fyrir því og er alltaf að leita að rétta viðskiptatækifærinu. Leikararnir passa allir vel inn í hlutverk sín og standa sig bara nokkuð vel.

Það var ljóst að gestirnir skemmtu sér vel þegar brandararnir komust vel á flug og umfjöllunarefnið féll vel í kramið. Það verður þó að segjast að þrátt fyrir að nokkrir stórgóðir brandarar fái að fjúka og nokkrir allþokkalegir til viðbótar þá hefði þurft að vinna betur með handritið til að hægt væri að gefa verkinu góða einkunn. Flæðið hefði þurft að vera betra og handritið þéttara til að halda uppi stemmningunni í gegnum sýninguna.

Tónlistin er mikilvægur hluti sýningarinnar en einnig þar hefði mátt vinna betur í heildarmyndinni til að halda betur dampi en atriði söngtríósins með frumsömdum textum voru stórgóð og undirleikurinn vel heppnaður, einhverjir vankantar voru þó á hljóðblönduninni, í það minnsta virkaði hljóðið ekki nógu vel á þeim stað sem undirrituð sat. Leikmyndin hefði einnig mátt vera betri, þó sumar lausnir virkuðu vel þá var heimili Hannibals og Finns mjög undarleg blanda af unglingaherbergi og stofu með ísskáp og örbylgjuofni.

Verkið verður sýnt á jólahlaðborðum Sjallans næstu vikurnar og það er líklega besta leiðin til að sýna þetta verk, því gestir jólahlaðborða eru gjarnan í miklu stuði og eiga væntanlega auðveldara með að gleypa brandarana hraðsoðna og gangast inn á þennan hráa hressleika sem Grímurnar bjóða upp á í þetta sinn.

-Sóley Björk Stefánsdóttir


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718