Quantcast
Channel: akureyrivikublad.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718

Tólf nemar í húsgagnasmíði í VMA

$
0
0
Einn af tólf nemum í húsgagnasmíði í VMA

Einn af tólf nemum í húsgagnasmíði í VMA

Tólf nemar stunda nú nám í húsgagnasmíði í VMA og þar af eru fimm konur. Aldrei hafa fleiri nemar verið í húsgagnasmíði á þeim þrjátíu árum sem skólinn hefur starfað. Námið í húsgagnasmíði tekur fimm annir, þar af eru þrjár sameiginlegar með nemendum í húsasmíði. Þetta kemur fram á vef VMA.

„Þessi fjöldi í húsgagnasmíði er algjört einsdæmi hér í skólanum. Í þessum hópi er bæði um að ræða fullorðið fólk og einnig nemendur sem hafa komið hingað að loknum grunnskóla. Mér heyrist á nemendunum að sumir þeirra stefni að því að starfa við þessa iðngrein en aðrir eru m.a. að horfa til frekara náms í hönnun,“ segir Halldór Torfi, brautarstjóri byggingagreina í VMA á vef skólans, og bætir við að þar til þessi sprenging varð í aðsókn í húsgagnasmíðina hafi einn til í mesta lagi fjórir nemendur valið húsgagnasmíðina á ári.

„Ég kann ekki að skýra nákvæmlega hvað veldur þessum aukna áhuga en hins vegar er ljóst að undanfarin ár hefur stóraukist áhugi á því að gera upp gömul húsgögn. Það hefur eitthvað að segja í þessu,“ segir Halldór Torfi og bendir á að hér á árum áður hafi húsgagnasmíði verið nokkuð sterk iðngrein í landinu, m.a. á Akureyri, en með auknum innflutningi húsgagna hafi hún látið undan síga og lognast nánast út af. En vonandi sé þessi aukni áhugi á faginu til marks um að greinin sé aftur á uppleið.

Nú stunda í það heila um 50 nemendur verklegt nám við byggingadeild VMA og má segja að deildin sé smám saman að ná vopnum sínum á ný eftir lægð í kjölfar efnahagshrunsins. Þá má segja að byggingaiðnaðurinn hafi nánast frosið og um leið snarminnkaði aðsókn í nám í byggingagreinum. „En þetta er allt að koma og má segja að nemendafjöldinn sé að komast á rétt ról á nýjan leik,“ segir Halldór Torfi Torfason.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 1718