80% af íslenskum stjórnmálamönnum hafa ekki trú á að fjölmiðlamenn vinni eftir faglegum gildum. Þetta kom fram í erindi Birgis Guðmundssonar, stjórnmálafræðings á félagsvísindatorgi í Háskólanum á Akureyri í dag.
Birgir kynnti þar rannsókn sína þar sem hann bar saman kynningarmál stjórnmálaflokka í Noregi og Íslandi en upplýsingarnar fékk hann frá starfsfólki stjórnmálaflokka í báðum löndum. Aðspurður um muninn á þessum tveimur löndum segir hann stjórnmálamenn í Noregi bera mun meira traust til faglegrar umfjöllunnar fjölmiðlafólks en íslenskir stjórnmálamenn gera. „Norskir starfsmenn stjórnmálaflokka virða mjög fagleg sjónarmið fjölmiðlamanna og telja þá vinna eftir faglegum gildum en hér virðast íslenskir stjórnmálamenn ekki trúa því að fjölmiðlamenn almennt séu að vinna eftir faglegum gildum.. Þetta bergmálar í umræðunni, í könnun sem ég gerði kemur fram að 80% af íslenskum stjórnmálamönnum sem voru í framboði telja ekki fjölmiðlamenn vinna faglega,“ sagði Birgir.
-SBS