Sex stúlkur hófu í haust nám í grunndeild málm- og véltæknigreina hjá VMA en það er töluverð fjölgun frá síðustu árum. Þetta þýðir að 10% nýnema í deildinni eru stúlkur en í það heila eru nýnemar sextíu talsins. Þetta kemur fram á vef VMA
„Það er afar ánægjulegt að þetta er þriðja árið röð sem grunndeildin hjá okkur er fullbókuð. Þetta er til marks um að landið er að rísa í þessari iðngrein og ungt fólk vill læra hana,“ segir Hörður Óskarsson, brautarstjóri málmiðngreina við VMA, en í það heila stunda nú á annað hundrað nemendur nám við brautina.
Á þessum fyrstu dögum annarinnar fara kennararnir með nemendum í grunninn, kenna þeim á verkfærin og vélarnar í húsnæði brautarinnar og síðan er nemendum falið það verkefni að smíða litla og einfalda verkfærakassa. „Það má segja að við byrjum í handavinnunni áður en við færum okkur síðan yfir í vélavinnuna,“ segir Hörður.
-SBS