Icelandair hótel hafa gert samkomulag við Slysavarnarfélagið Landsbjörg um að gerast virkur styrktaraðili, en árlega mun fast hlutfall af gistitekjum hjá Icelandair hótelunum renna til samtakanna.
Á hverju Icelandair hóteli, sem eru 8 talsins, eru herbergi eða svíta tileinkuð björgunarafreki sem átt hefur sér stað í landshluta hvers hótels, en í þeim herbergjum er að finna ítarlegur upplýsingar, myndefni og aðra muni tengdum atburðinum. Þannig er sögum af einstökum afrekum íslenskra björgunarsveita um land allt deilt með hótelgestum og þeim jafnframt gefinn kostur á að styrkja þetta góða málefni.
Í alrými Icelandair hótel Akureyri má meðal annars finna skíði og tvennar snjóþrúgur sem notuð voru í björgunarleiðangrinum við Geysisslysið, auk þess sem fjöldi textabrota um atburðinn og ljósmyndir frá björgunarleiðangrinum, vélinni sjálfri og áhöfninni prýða hótelið og styrktarsvítuna.
„Geysis slysið“ svokallaða, þegar glæsilegasta flugvél Íslands á þeim tíma: Geysir, fórst á Vatnajökli árið 1950, var tímamótaatburður hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu. Flugbjörgunarsveitin á Akureyri, var stofnuð í kjölfar slyssins, þann 22. nóvember 1952 og hún varð síðan hluti af björgunarsveitinni Súlum ásamt Hjálparsveit skáta Akureyri og Sjóbjörgunarsveitinni Súlum .
Geysis slysið
Þegar flugvélarinnar var saknað stóð öll þjóðin á öndinni; stærsta millilandaflugvél Íslendinga var horfin og með henni sex manna áhöfn og átján hundar. Í fjóra sólarhringa heyrðist ekkert frá vélinni og vonir manna um að einhver hefði komist lífs af dofnuðu stöðugt. Hundruð manna tóku þátt í leitinni að vélinni og allar tiltækar flugvélar leituðu yfir landi og sjó. Þegar liðnir eru rúmir fjórir sólarhringar og árangur af umfangsmikilli leitinni skilaði engum árangri voru flestir farnir að gefa upp von. Þá berst ógreinilegt neyðarkall: „Staðarákvörðun ókunn … allir á lífi“.
Flugvélin fannst síðan 18. september í rúmlega 1800 metra hæð á Vatnajökli. Þoka hafði verið á jöklinum frá því að slysið varð en nú sást flakið úr leitarflugvél og sex manneskjur á ferli í kringum það. Samstundis breyttist harmur landsmanna í ákafa gleði, fánar voru dregnir að húni og boðið var upp á ókeypis kaffi á veitingahúsum í Reykjavík. Fræknir fjallamenn
héldu af stað á jeppum frá Akureyri og Reykjavík í björgunarleiðangur sem átti sér enga hliðstæðu hér á landi. Á sama tíma höfðu bandarískir hermenn lent á jöklinum á skíðaflugvél en mistekist að bjarga fólkinu. Margir björgunarmannanna gengu 10 klukkustundir á jökli, lítt hvíldir, við ótrúlega erfiðar aðstæður áður en þeir náðu á slysstaðinn og komu fólkinu giftusamlega til bjargar.